22.11.1983
Sameinað þing: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er stundum nokkuð hart að hlusta á þetta karp um fortíðina. Það er búið að þvæla Ísalmálinu lengi fram og aftur á þingi, í blöðum, í sjónvarpi, í útvarpi og yfirleitt hvar sem er án þess að nokkur botn virðist ætla að fást í það. Þetta karp leiðir líka hugann að því, hvað það yrði mikil guðsblessun ef Alþingi hefði vit á að fara að tillögum BJ og aðskilja efnislíkama ráðherra og alþm. Sannleikurinn er nefnilega sá, að fast að helmingur þingliðsins er eitthvað af þessu: núv. ráðh., fyrrv. ráðh. eða þm. sem ekki fengu að vera ráðherrar. Svo fer helmingur þingtímans í ólund þessara höfðingja, uppgjör þeirra og árásir, varnarræður þeirra eða þm. sem telja sig eiga eitthvað vantalað við þá. Þeir eru á kafi í ráðherratíð sinni eða annarra — fortíð sem oftast er tiltölulega lítið áhugavekjandi fyrir venjulegt fólk og drepur málefnalega umr. um nútíð og framtíð.

Gallinn við Ísalmálið svokallaða er að það hefur helriðið íslenskri orkumálapólitík um áraraðir. Á meðan stjórnir og stjórnarandstöður hafa karpað um málið hafa grafið um sig meinsemdir í íslenskum orkumálum, svo sem offjárfesting og orkusóun, svo nú halda orkuskuldir þjóðarinnar henni með steinbítstaki og hryllingssögur um erlendu skuldirnar hræða launafólk til hlýðni. staðreynd í þessu máli er sú, að Ísalsamningarnir svokallaðir munu ná fram því sem þeim var ætlað, þ.e. þeir munu greiða niður Búrfellsvirkjun á tilskildum tíma. Þeir bera merki af því að þeir eru gerðir á grundvelli ódýrasta virkjunarkostsins sem þá var til og söluverð orkunnar var ákveðið á þeim grundvelli. Það voru hins vegar hörmuleg mistök að uppsagnarákvæði skyldi vanta og að við skulum hafa klúðrað þeim tækifærum sem gefist hafa til endurskoðunar. Við verðum að neyta allra bragða við að ná hækkun á orkuverðinu fram. Núv. hæstv. iðnrh. kemur vafalaust að góðu búi þar því að forveri hans var búinn að vinna alla þá upplýsingasöfnun sem málið þarf. (Gripið fram í: Sagðirðu góðu búi?) Varðandi upplýsingasöfnun. Á grundvelli þeirra gagna ætti að vera hægt að ná fram góðum samningum. Ég hygg að hæstv. iðnrh. meti það starf að verðleikum og kunni forvera sínum miklar þakkir.

En við skulum ekki láta þessa Ísalumræðu drepa þann nýgræðing sem er að gera vart við sig í íslenskri orkupólitík, sem er umræða um hátt orkuverð, umræða um orkusóun og umræða um bætta orkunýtingu. Þar verður von bráðar farið að takast á við stórkostleg verkefni. Þar liggja fjárhæðir sem eru svo mörgum sinnum hærri en þær rúmu 100 millj. sem fást á ári fyrir hækkunina sem nú hefur fengist til ÍSALs. Á einu ári glatast fjárhæð sem er jafnvel hærri en Ísalviðbótin vegna þess eins að hús landsmanna eru með lélega einangruðum þökum. Og gróðurtilraunir, girðingar og ræktun við Blöndu kostar álíka og ein Ísalviðbót á ári.

Varðandi viðbótarsamninga um orkusölu til ÍSALs vil ég segja þetta: Þeir samningar verða að gera ráð fyrir að orkan sé seld á framleiðslukostnaðarverði miðað við eðlilegan afskriftartíma. Stjórnmálamenn verða að hugleiða hættuna við það ástand að einn einstakur orkukaupandi verði svo stór. Stækkað ÍSAL yrði sem eitt einstakt fyrirtæki mjög mikilvirkt í íslensku efnahagslífi, líklega svo að einsdæmi væri meðal þjóða sem ekki una því að kallast vanþróaðar.

Annað er, að þegar tugþúsundir ungmenna eiga eftir að koma út á atvinnumarkaðinn til aldamóta er óumflýjanlegt að fara að velta því fyrir sér, hvar það fólk eigi að fá atvinnu. Þetta er fólkið sem mun standa undir ellistyrknum okkar. Þetta er fólkið sem mun borga til dvalarheimilanna, þar sem við verðum. Fjárfesting í stóriðju, sem hér er til umr., er svo gífurleg að óhugsandi er að þessar þúsundir muni nokkru tíma vinna fyrir sér sem hamingjusamir stóriðjuverkamenn. Það er óumflýjanlegt að hyggja að atvinnumöguleikum í einhvers konar öðrum iðnaði fyrir þetta fólk. Athuganir í Bandaríkjunum hafa sýnt að það er smáiðnaður ýmiss konar sem hefur lagt til þau ný störf sem þar hafa myndast á undanförnum 10–15 árum. Hins vegar hefur stóriðjan átt þar í verulegum vandræðum á síðustu árum, t.d. stáliðja, bílaiðnaður o.fl.

Að síðustu vil ég segja þetta: Það á skilyrðislaust að stöðva attar framkvæmdir við Blöndu þar til viðunandi orkusamningar hafa náðst. Við megum ekki koma okkur í þá klípu að vera með virkjun á stokkunum án þess að kaupendur séu til reiðu. Þá yrði samningsaðstaðan um orkuverð ekki góð. Þeirri aukningu sem verður á innlendri orkunotkun á næstunni má fullnægja með orkusparnaði.