04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

93. mál, kynning á líftækni

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 96 borið fram svohljóðandi fsp. til iðnrh.:

„Hvað líður þeirri kynningu á líftækni sem gerð var þál. um á síðasta þingi?“

Til þess að rifja þetta mál aðeins upp, þá var borin fram á síðasta þingi till. til þál. um kynningu á líftækni. Flm. var Guðmundur Einarsson. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd til að annast kynningu á aðferðum og möguleikum líftækni. Iðnrh. skal skipa formann nefndarinnar án tilnefningar. Aðrir nm. skulu skipaðir skv. tilnefningu frá eftirtöldum aðilum: 1) Alþýðusambandi Íslands, 2) Háskóla Íslands, 3) Rannsóknaráði ríkisins, 4) Sambandi ísl. sveitarfélaga, 5) Tækniskóla Íslands, 6) Vinnuveitendasambandi Íslands.

Nefndin skal ljúka störfum innan eins árs frá skipun hennar. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Það hefur margt og mikið verið rætt um líftækni og aðrar nýjar hugsanlegar iðngreinar á Íslandi. Nokkuð almenn samstaða var, ef ég man rétt, um þessa þál. á síðasta þingi. Menn töldu að það væri tímabært að hefja kynningu á grundvallaraðferðum og möguleikum þessarar fræði- og iðngreinar og töldu eðlilegt að sú kynning færi fram meðal almennings, skólamanna, sveitarstjórnarmanna, verkafólks og atvinnurekenda, svo að notuð séu orð úr grg. Ég er að sjálfsögðu enn þeirrar skoðunar að þetta sé afar mikilvægt, ekki síst vegna þess að um þetta eru höfð oft á tíðum ýmis stór orð, menn binda við þetta miklar vonir og það er mjög mikilvægt að sem flestir, bæði almenningur og ráðamenn, fái sem fyrst um þetta greinargóðar upplýsingar og fræðslu um hvað felst í þessum loforðum og þessum möguleikum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Málið liggur nokkuð ljóst fyrir. En til viðbótar þeirri spurningu sem fram kemur í fsp., hvað kynningunni sjálfri líði, vildi ég beina sérstaklega til hæstv. ráðh. spurningunni um það hvernig séð verði fyrir kostnaði vegna þessarar kynningar. Það er augljóst eins og í grg. kemur fram að ýmis kostnaður fellur til vegna starfa þessarar nefndar, vegna þeirra verka sem henni eru falin, t.d. útgáfumál, eins og í grg. stendur, með leyfi forseta: „Vegna prentunar og dreifingar bæklings og kynningarfunda o.þ.h. mundi væntanlega falla til kostnaður.“

Ég vil sem sagt inna ráðh. eftir því hvernig sé séð fyrir nauðsynlegum fjármunum handa nefndinni á því 12 mánaða tímabili sem hún mun starfa.