04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

145. mál, útboð Vegagerðar ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Á þskj. 150 hef ég leyft mér ásamt hv. 5. þm. Austurl. sem sat hér inni um tíma, hv. varaþm. Sveini Jónssyni, að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh. um útboð Vegagerðar ríkisins:

„1. Hver er heildarkostnaður við gerð útboðsgagna, hönnun og eftirlit með útboðsverkum hjá Vegagerð ríkisins við þau verk sem unnin eru á þessu ári?

2. Hver er áættaður mismunur (hagnaður) raunverulegs framkvæmdakostnaðar og áætlaðs kostnaðar fyrir þessi verk? Sé um hagnað að ræða, hvernig hefur honum verið ráðstafað?“

Eflaust er enn ekki útséð um þessi mál þó að komið sé fram í desember og bið ég velvirðingar á því að fsp. skuli svo tímasett sem raun ber vitni. Enn frekar er mér ljóst að raunverð á þessum framkvæmdum liggur heldur alls ekki fyrir. En mig langar til að hafa um þetta örfá almenn orð þó að í stuttum fsp.-tíma séu ekki tök á að ræða almennt um útboð opinberra aðila svo sem Vegagerðar ríkisins.

Ég ræddi þetta nokkuð við afgreiðslu vegáætlunar á s.l. vori, lýsti minni skoðun á þessu. Ég dró ekki réttmæti útboða almennt í efa en lýsti þeim hættum sem væru því samfara fyrir ýmiss konar þarfa þjónustu og sjálfsagða úti um landsbyggðina ef þessi útboðsstefna gengi út í öfgar og nær allt, smátt og stórt, væri boðið út blindandi svo að segja. Út í þá sálma skal ekki farið hér nú, en í engu hefur þessi skoðun mín breyst. Útboð á Austurlandi, bæði hjá Hafnamálastofnun og Vegagerð ríkisins, hafa styrkt mig í þeirri skoðun. Útboðsupphæðir í byrjun segja oft ekki alla sögu. Lokaupphæðir eru vegna alls konar ástæðna oft allt aðrar. Opinberir aðilar, svo sem Vegagerð ríkisins, fara oft með ósmáar upphæðir í gerð útboðsgagna og viðbótarhönnun og eftirlit með verkum mun oft nema dágóðum fúlgum.

Um útboðsverk sem illa fara er ekki rætt og er þó eitt slíkt sláandi á Austurlandi frá s.l. sumri. Útboð stærri verka — og þá á ég við veruleg stórverk — eru sjálfsögð en efi minn og vantrú eru bundin hinum smærri verkum og mætti tilgreina þar slæm dæmi og verður gert síðar. Auk þess er sú hættan mest að örfáir stórir aðilar með forgangsaðstöðu ráði hér öllu um útboð innan skamms.

Og þá mun stutt í samtrygginguna frægu og útboðsverðin önnur og hærri eftir að þeir stóru og vel settu eru búnir að drepa hina af sér. Sömuleiðis verða þá þjónustuaðilar á landsbyggðinni, vinnuvélaeigendur og vörubifreiðastjórar ekki lengur til sem slíkir fyrir íbúana þar til ýmiss konar nauðsynlegra verka sem aldrei geta þó skapað þeim rekstrargrundvöll þótt þjónustan sé þörf og brýn.

Varaformaður fjvn., hv. 6. þm. Norðurl. e. Guðmundur Bjarnason, kom inn á þessi mál nú við 1. umr. fjárlaga. Ég tek undir sjónarmið hans um hin svæðisbundnu útboð minni verka og virkar reglur um meðferð útboða almennt á vegum hins opinbera. Það er einsýnt að gera um þetta tillögur hér á Alþingi. En fsp. þessi snertir þó fyrst og síðast útboðsverð og raunverð í lokin, heildarkostnaðinn þegar upp er staðið. Vænti ég þess, þó að ég játi að fsp. er ranglega orðuð miðað við þetta ár, að hæstv. ráðh. geti gefið hér um vissar vísbendingar og upplýsingar.