04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem hæstv. forseti mælti í upphafi fyrri fundar Sþ. og raunar að hluta til þess sem hann nú sagði og hans tímabæru orða fyrr í dag, þá gekk ég hér fram á ganginn áðan og taldi ljósin á viðverutöflu þm. 20 þm. voru skv. því í húsinu, þ.e. 1/3 þm. Enginn hæstv. ráðh. er staddur í þessu húsi núna. Ég verð að segja að mér finnst fullkomlega óeðlilegt að ræða við þær aðstæður mikilvæg mál, eins og það sem hér er til umr. og sem nú er komið inn á aðrar brautir, eftir ræðu hv. 10. landsk. þm. Guðrúnar Helgadóttur, en var í fyrstu. Þessi umr. er komin í mjög brýnan farveg og þetta er brýnt mál sem þarf að ræða. Ég tel algerlega ótækt að hér sitji innan við 20 manns, enginn fulltrúi ríkisstj., ráðh., og þessi mál séu rædd. Og ég held, virðulegi forseti, að þetta séu mál sem enn einu sinni verður að taka til alvarlegrar athugunar hjá æðstu stjórn þingsins, forsetum og þingflokksformönnum vegna þess að það er hneisa fyrir Alþingi hvernig þessi fundur er t.d. núna að því er mætingu varðar. Mér finnst að við getum ekki látið þetta viðgangast öllu lengur og alls ekki að hér sé hægt að taka til umr. mikilvæg mál þegar svona háttar. Þetta er mín skoðun, herra forseti.