11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Því miður er ekki hægt að ræða þessi mál efnislega í fsp.-tíma hér á Alþingi, en ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir það, sem hann sagði hér, að hann mundi ekki leggja til að byggt yrði álver við Eyjafjörð ef hann hefði grun um að það mundi hafa slæm áhrif á náttúrufar í Eyjafirði. Þetta er aðalatriðið. Hins vegar kom fram í hans svörum að það hefur alls ekki verið staðið að rannsóknum við Eyjafjörð á þann hátt að hægt sé að taka mark á þeim. T.d. segja þeir aðilar, sem hafa ráðlagt í þessu máli, og Norðmennirnir, sem hefur verið falið að vinna úr þeim gögnum sem berast út af þessum rannsóknum, að í Noregi hefði verið byggt mastur á verksmiðjustað upp í 36 metra hátt til að gera veðurfarsrannsóknir í langan tíma. Ég hef kynnt mér að menn á þeirra vegum telja t.d. að rannsóknirnar í Vaðlaheiði séu á þann veg að þær séu ekki marktækar. Fleira væri hægt að telja upp í þessu sambandi. Ég vil líka minna á að mér er tjáð að sveitafólk við Eyjafjörð muni hafna þessu á þeirri forsendu að þarna sé ekki um marktækar rannsóknir að ræða og það muni verða um eða yfir 90% á móti að fá slíkan atvinnurekstur í þetta blómlegasta hérað landsins.

Ég verð að átelja hv. þm. Halldór Blöndal fyrir þau orð sem hann sagði um þær konur sem eru í bæjarstjórn Akureyrar af Kvennalista. Ég held að þau séu ekki makleg og auk þess eru þær ekki hér til svara. Ég held að við ættum ekki að ræða þau mál hér á Alþingi.

Ég vil svo að endingu taka það fram að ég vona að þessi mál verði rædd öðruvísi en í fsp.-tíma hér á Alþingi og rætt verði um þessar rannsóknir og þá úttekt sem verið er að gera. Ég held að sú auðlegð sem við eigum liggi fyrst og fremst í því að halda landinu hreinu, loftinu og vatninu. Það skulum við hugleiða. En því miður er ekki hægt að ræða það og rökstyðja frekar að þessu sinni.