11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e., sem mun vera varaformaður þingflokks Sjálfstfl., hefur á því lag þessa dagana að leggja gott til mála og greiða fyrir framgangi þeirra hér á Alþingi. Við heyrðum eitt slíkt framlag áðan. Ég vil mótmæla rakalausum þvættingi hv. þm. Halldórs Blöndals um fjarstadda bæjarfulltrúa á Akureyri og ég skora á hann að koma í þennan stól og nefna nöfn og dæmi eða falla frá ummælum sínum og biðjast afsökunar á þeim ella.

Stefna Alþb. varðandi uppbyggingu stóriðju í landinu er skýr og þeir fyrirvarar sem við setjum eiga jafnt við á Húsavík sem á Akureyri og annars staðar.

Ummælum hv. þm. Eiðs Guðnasonar um þröngsýni og afturhald vona ég að hafi ekki verið beint til mín. Ef spurningar mínar hér áðan hafa gefið tilefni til slíks bið ég hann koma hér upp og taka þá fram að hann hafi átt við mig. Ég ætla þá að eiga við hann orðastað um það í betra tómi.