16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Við munum öll viðurkenna að því miður er ástatt svo hér hjá okkur að efni þessarar till. á fullan rétt á sér, þ.e. að við höfum hér hóp af unglingum sem þarf á þeirri aðstoð og aðstöðu að halda sem lagt er til að vinna að og skapa í þessari þáltill.

Hv. 2. þm. Austurl. beindi til mín fsp. um það hvað liði vinnu í framhaldi af nefndarskipun á s.l. vetri um fíkniefnamál. Í nál. var þar lagt til fyrst og fremst að komið yrði á nánara samstarfi milli þeirra aðila sem að eftirlitsmálum vinna í landinu og þeirri till. hefur verið framfylgt þannig að samstarfsnefnd hefur verið skipuð til að samræma þær aðgerðir. Jafnframt var lagt til að aukinn yrði tækjakostur þeirra sem að þessu vinna og ráðuneytið hefur gert till. um það hvað þar þurfi að ganga fyrir.

Þá hef ég átt viðræður við ýmsa aðila um þetta vandamál, m.a. það sem þessi þáltill. fjallar um, þ.e. þennan hóp sem tvímælalaust er orðinn í vandræðum og þarf á aðstoð að halda. Ég hef rætt þar við lögreglustjórann í Reykjavík, landlækni, forstöðumann Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar o.fl. Ég beindi því til landlæknis að hann reyndi að skapa þá aðstöðu að hægt væri að koma þessum unglingum inn til meðferðar.

En það kom jafnframt fram að því miður nægir ekki stofnunin ein. Það er einnig vandi að fá þessa unglinga til að fallast á að þeir séu þannig haldnir að þeir þurfi á meðferð að halda. Og þá er það spurning hver á að hafa vald til þess að að úrskurða slíkt.

Vissulega fannst mér það athyglisvert að í þessum umr. kom fram að besta úrlausnin fyrir þessa unglinga væri sú að hægt yrði að finna gott sveitaheimili til að veita þeim viðtöku. Það sýndi þá viðurkenningu sem sveitaheimilin njóta og þá þýðingu sem þau hafa fyrir okkar þjóðfélag að það skuli vera af hendi sérfræðinga viðurkennt að þau séu besti aðilinn til að hjálpa þeim sem illa eru farnir á þessum vettvangi. Að vísu ekki þeim sem svo illa eru farnir að þeir þurfi beinlínis læknishjálpar við heldur eru á því stigi að þeir geta snúið til betri vegar ef þeir komast í betra umhverfi.

Ég vildi sérstaklega taka undir það sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum að leggja þarf áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er ömurlegt til þess að hugsa að slík örlög skuli bíða ákveðins hluta af uppvaxandi æsku þessarar þjóðar. Ég fagna því þeirri umr. sem fer fram um það að þarna þurfi að spyrna við fótum. Jafnframt verðum við að reyna að gera meira en að ræða málin, þarna þarf raunhæfar aðgerðir.

Það vakti athygli mína í þessum viðræðum sem ég hef átt um þessi mál að a.m.k. allir læknar, sem ég hef rætt við, voru sammála um að fyrsta skrefið í neyslu vímuefna væri áfengi og reyndar tóbak. Það væri næstum útilokað að unglingur eða barn byrjaði á neyslu annarra fíkniefna ef það ekki neytti annaðhvort tóbaks eða áfengis. Ef við á annað borð viljum berjast á móti þessum vágesti þá er augljóst að fyrsta skrefið er að berjast gegn þeim sem upphafinu valda.

Þá er það þessi samviskuspurning sem alþingismenn verða að svara hver og einn. Hvað vilja þeir á sig leggja til að draga úr þeirri hættu sem unglingar eru í að falla fyrir þessum efnum? Vilja þeir í raun viðurkenna að áfengi er sá bölvaldur í okkar þjóðfélagi að neyta verði allra tiltækra úrræða til þess að draga úr neyslu þess? Þessari spurningu hljóta alþingismenn að verða að svara þegar þeir leggja áherslu á að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum. Ég vænti þess að umr. um þessa þáltill. muni því stuðla að því að menn velti þessari spurningu fyrir sér og komist að þeirri niðurstöðu.