11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

104. mál, fjármögnun krabbameinslækningadeildar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni Benediktssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur, Kjartani Jóhannssyni, Guðmundi Einarssyni, Helga Seljan og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að flytja hér till. til þál. um fjármögnun krabbameinslækningadeildar. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að stofna til þjóðarátaks til að fullgera megi krabbameinslækningadeild á Landspítalalóð á næstu 3–4 árum.

Fjár verði aflað með eftirfarandi hætti:

— Gefinn verði út sérstakur skuldabréfaflokkur að upphæð a.m.k. 125 millj. kr. til sex ára með verðtryggðum kjörum og á vöxtum sem Seðlabankinn ákveður. Skuldabréfin skulu undanþegin skattskyldu.

— Ríkissjóður leggi til árlega þá fjárhæð sem á vantar til að ljúka megi krabbameinslækningadeildinni á næstu 3–4 árum.

Ríkissjóður skal þegar í upphafi leggja fram það fjármagn sem þarf til þess að örva sölu skuldabréfa með skipulegri upplýsingamiðlun í fjölmiðlum um nauðsyn þess þjóðarátaks sem til er stofnað. Upplýsingar þessar skulu unnar í samráði við læknaráð Landspítalans“.

Segja má að sú leið sem hér er lögð til í fjármögnun krabbameinslækningadeildar sé nokkuð óvenjuleg, en hér er um að ræða eitt brýnasta verkefnið á sviði heilbrigðisþjónustu, sem úr hömlu hefur dregist að hrinda í framkvæmd, og ekki er fyrirsjáanlegt, ef er miðað við fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir, að breyting verði þar á. Þess vegna er sú leið valin sem hér er lögð til. Það sést kannske best á því að þó að fimm ár séu nú liðin síðan undirbúningur hófst að uppbyggingu krabbameinslækningadeildar á Landspítalalóð hefur framkvæmdum ekkert miðað vegna fjárskorts. Eftir mikið þref við síðustu fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1984 var loks samþykkt að veita 12 millj. kr. til K-byggingarinnar, en með því fé hefði verið unnt að láta fara fram útboð og hefja jarðvegsframkvæmdir, en stefnt var að því að ljúka þeim á þessu ári. Leyfi til að hefja framkvæmdir hefur hins vegar ekki fengist og í frv. til fjárlaga fyrir árið 1985 er, eins og áður er sagt, ekki gert ráð fyrir neinu fé til framkvæmda. Því er í þessari till. lagt til að farin verði sú leið að afla fjár með því að gefa út sérstaka skuldabréfaflokka að upphæð a.m.k. 125 millj. kr.

Ég tel óþarft að fara hér nákvæmlega út í það hve brýnt er orðið að koma hér upp krabbameinslækningadeildinni, enda var ítarlega rætt um það á síðasta þingi. M.a. kom þá til umr. grg. stjórnar læknaráðs Landspítalans frá því í nóv. 1983, en þar kom fram að það kóbalttæki sem notað hefur verið til krabbameinslækninga er orðið úrelt og svarar ekki lengur kröfum tímans. Í því sambandi má benda á að ég hef þær upplýsingar nú að þeir sem gerst þekkja til varðandi kóbalttæki telja að það endist ekki miklu lengur og sé í raun að verða ónýtt. Það mundi í allra mesta lagi endast kannske í 34 ár til viðbótar. Þá þurfi það að fara í mjög dýra viðgerð sem kosta muni um helming af verði tækisins.

Í mörg undanfarin ár hefur stjórn læknaráðs Landspítalans leitað eftir því að fá að festa kaup á nauðsynlegu geislameðferðartæki, línuhraðli, en línuhraðlar þurfa mjög miklar geislavarnir og ekkert húsnæði á Landspítalalóð uppfyllir þær geislavarnakröfur sem slíkt tæki þarf. Kom fram í grg. læknaráðsins að ef ekki verður leyst úr vanda deildarinnar sé ljóst að geislameðferð muni falla niður vegna úreltrar aðstöðu. Margir krabbameinssjúklingar, sem á s.l. ári hafa notið geislameðferðar í þessari deild Landspítalans, verða þá tilneyddir til þess að leita lækninga erlendis. Því fylgir mjög mikill kostnaður. Fram kom á s.l. þingi að á árunum 1979–1983 hefði þurft að senda utan 144 sjúklinga til krabbameinslækninga vegna aðstöðuleysis hérlendis. Hæstv. heilbrmrh. upplýsti á Alþingi s.l. vetur að frá 1. jan. 1983 til 28. nóv. 1983, eða á 11 mánaða tímabili, hefðu fjórtán sjúklingar farið utan til lækninga og hefði kostnaðurinn numið 5 millj. 585 þús. kr. eða tæplega 400 þús. kr. kostnaður á hvern sjúkling. Upplýst er að í geislameðferð komu á árinu 1983 289 sjúklingar og talið var að um helmingur, eða 2/3 hluti þeirra, þyrfti á geislameðferð í línuhraðli að halda, sem enn er ekki fyrir hendi hér á landi. Af því má sjá að ef um helmingur þeirra sjúklinga sem þurfa á sérstakri geislameðferð að halda yrði sendur til útlanda til krabbameinslækninga, þá þýddi það, miðað við þessa forsendu, 57–58 millj. kr. árlega. Til samanburðar má geta þess að til að fullgera krabbameinslækningadeildina þyrfti árlega næstu fjögur árin um helmingi lægri upphæð til framkvæmdanna.

Í byrjun þessa árs var sú ákvörðun tekin af hæstv. heilbrmrh. að áfangaskipta K-byggingunni sem gæti þá orðið til þess að mun fyrr væri hægt að taka krabbameinslækningadeildina í notkun. Í grg. frá yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð, dags. 17. okt. 1984, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þeirri byggingaráætlun sem valin hefur verið á fyrst að steypa upp röskan þriðjung hússins, en síðan að innrétta krabbameinslækningadeild á fjórða ári framkvæmda. Síðari áfangi hæfist með smíði lagnagangs, en svo yrði ráðist í að ljúka uppsteypu alls hússins og loks að innrétta aðrar deildir. Samkv. frumáætlununum er byggingarkostnaður í 1. áfanga talinn 123 millj. kr., en kostnaður vegna tækja og búnaðar 65 millj. kr. Á fjárlögum fyrir árið 1984 voru veittar 12 millj. kr. til framkvæmda og var áætlað að það, ásamt eftirstöðvum fyrri fjárveitinga, dygði að mestu til jarðvegsvinnu vegna 1. áfanga.“

Einnig kemur fram í þessu bréfi að hæstv. heilbrmrh. og hæstv. fjmrh. hafi gert með sér samkomulag um fjármögnun framkvæmda að því er krabbameinslækningadeildina varðar, en í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Í tengslum við framkvæmdaákvarðanir gerðu heilbrmrh. og fjmrh. með sér samkomulag um fjármögnun framkvæmda þess efnis að auk 12 millj. kr. 1984 skyldi stefnt að því að fjárveitingar til K-byggingar næmu 23 millj. kr. 1985 og a.m.k. 30 millj. kr. á árunum 1986–1988 eða alls 125 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu 166 stig.“

Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort hægt væri að ná í hæstv. fjmrh. Mig langaði til að spyrja hann út í það samkomulag sem hér hefur verið gert. (Forseti: Hæstv. fjmrh. hefur fyrir nokkru tjáð forseta að hann þyrfti að hverfa af fundi vegna starfa og hann er því ekki í húsinu núna.)

Það verður að teljast nokkuð furðulegt, miðað við það samkomulag sem ég hef hér greint frá, sem hæstv. heilbrmrh. og hæstv. fjmrh. virðast hafa gert með sér samkv. þessu bréfi, að ekki er að finna í fjárlögunum fyrir árið 1985 eina einustu krónu til krabbameinslækningadeildarinnar. Ég tel að þetta þurfi skýringar við og hefði verið æskilegt að fjmrh. hefði verið hér viðstaddur til að svara þeirri spurningu hvort hann mundi þá við afgreiðslu fjárlaga beita sér fyrir því að sú fjárhæð, sem samkomulag varð um milli hans og heilbrmrh., verði sett í krabbameinslækningadeildina á næsta ári.

Í þessu bréfi frá yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð kemur einnig fram, með leyfi forseta: „Framkvæmdir við byggingu K hafa ekki hafist á þessu ári. Meginástæðan er sú að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir taldi að ekki ætti að ráðast í jarðvegsframkvæmdir fyrr en á haustmánuðum, bæði til þess að ekki yrði óeðlilegt hlé á framkvæmdum að jarðvinnu lokinni svo og vegna þess að ætla mætti að betri tilboð bærust í verkið þegar annatími sumarsins væri liðinn hjá. Leyfi til framkvæmda á haustmánuðum hefur hins vegar ekki fengist þar sem ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til framhalds verksins í fjárlagafrv. fyrir árið 1985. Í samræmi við samkomulag heilbrmrh. og fjmrh. gerði yfirstjórn tillögu um að 25 millj. kr. yrðu veittar til K-byggingarinnar 1985. Var þá reiknað með að jarðvinnu lyki 1984, en á næsta ári yrði unnið að undirstöðum og byrjað á uppsteypu hússins. Við þessar áætlanir má standa ef ákvarðanir um framhald eru teknar fljótlega, þannig að enn sem fyrr er unnt að reikna með verklokum við krabbameinslækningadeild á árinu 1987.“

Herra forseti. Það er ljóst að mjög nauðsynlegt er að hraða framkvæmdum til að fullgera megi krabbameinslækningadeildina, sem ekki aðeins hefur sparnað í för með sér til lengri tíma litið heldur gerir og kleift að veita krabbameinssjúklingum þá lífsnauðsynlegu þjónustu hér á landi sem þeir þurfa. Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að mjög brýnt er orðið að leita allra ráða til að fullgera megi krabbameinslækningadeildina á sem skemmstum tíma og ef ekkert fjármagn verður veitt til framkvæmda á næsta ári er einsýnt að verulegur dráttur verði á að þær hefjist.

Þessi till., sem hér er mælt fyrir, var fyrst og fremst fram borin þar sem ekki var gert ráð fyrir neinu fjármagni á fjárlögum til þessa verkefnis. Hér er vissulega farin önnur leið en vanalega er farin, en það er ekki ólíklegt, miðað við hvað dregist hefur úr hömlu að hefja framkvæmdir, að þessi till. geti stuðlað að því að fyrr en ella yrði unnt að taka krabbameinslækningadeildina í notkun þannig að nútímameðferð í geislalækningum geti hafist hér á landi. Jafnvel þó nú við fjárlagaafgreiðslu yrði veitt fjármagni til krabbameinslækninga, sem fastlega verður að vona miðað við það samkomulag sem hæstv. heilbrmrh. og hæstv. fjmrh. hafa gert með sér, mætti einnig samhliða fara þá leið sem hér er lögð til, enda er ráð fyrir því gert í till. að auk þess sem gefinn yrði út sérstakur skuldabréfaflokkur kæmi einnig fé á framkvæmdatímanum úr ríkissjóði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till., en legg til að henni verði vísað til hv. allshn.