16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. og hæstv. ráðh. sem hafa tekið þátt í umr. um þetta mál eða önnur skyld mál og þakka þeim stuðning sem hafa látið hann í ljósi.

Ég verð þó að lýsa yfir leiða mínum yfir því að hæstv. heilbrmrh. hefur ekki séð sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu en vona að hann finni til þess tíma að lesa hana þegar hún kemur í Alþingistíðindum og kynna sér málavöxtu. En framgangur málsins byggist að sjálfsögðu á velvilja hans og skilningi.

Mig langaði til þess að svara hv. þm. Friðriki Sophussyni lítillega þó hann sé ekki hér staddur nú. Hann tíundaði mjög þann kostnað sem fylgir heilbrigðisþjónustunni, einkum hérlendis. Það er rétt, hann er mikill og úr honum þyrfti að draga t.d með því að auka fyrirbyggjandi aðgerðir. Þó vil ég hugga hv. þm. með því að allt þetta framlag og allir þessir læknar hafa e.t.v. stuðlað að því að við höfum lengstan meðalaldur í heimi. Þann meðalaldur væri þó kannske hægt að öðlast alveg eins með því að beita fyrirbyggjandi aðgerðum og það er svo sannarlega leið framtíðarinnar en ekki að halda úti dýrri viðgerðaþjónustu.

En í þessu sambandi vil ég undirstrika að það sem verið er að tala um hér er ekki einungis meðferð á þessum 20–30 einstaklingum sem um er að ræða. Það er jafnframt fyrirbyggjandi aðgerð með því að taka þá úr umferð frá þeim stað þar sem þeir eru nú og veita þeim aðgang inn í lífið á nýjan leik. Eftir að búið er að reyna að gera fyrir þá það sem hægt er til þess að opna þeim leið inn í einhvers konar tilveru þar sem þeir liggja ekki vegalausir utangarðs, þá um leið er fjarlægður kjarni sem smitar út frá sér til annarra. Og það er alveg rétt hjá hv. þm. Haraldi Ólafssyni, það þyrfti að gera frekari kannanir á þessu en það er mjög erfitt að fá marktækar tölur.

En eins og ég sagði áðan, mér finnst ekki að við höfum efni á að missa eitt einasta ungmenni í súginn á þennan hátt og þess vegna kannske skipta tölur ekki meginmáli.

Varðandi nánari skilgreiningu á þessu athvarfi þá tel ég að það sé einmitt þess vegna sem þarf að skipa þessa reyndar fámennu nefnd þriggja aðila. Meðferðarúrræðin eru á hendi þeirra sem stunda lækningar og hjúkrun og eins á vegum þeirra sem veita félagslegan stuðning, félagsráðgjafa, sálfræðinga og annarra. Og líka þeirra sem fara með mál unglinga. Þess vegna tel ég réttilega skipað í nefndina ef þar eru fulltrúar frá þessum þremur aðilum, sem munu sameinast um það að finna þau meðferðarúrræði sem vonandi duga.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar en ljúka máli mínu með því að skora á hæstv. heilbrmrh. að kynna sér málavöxtu og vísa ég síðan málinu til allshn.