12.12.1984
Neðri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

176. mál, lyfjadreifing

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. það sem hér liggur fyrir frá heilbr.- og trn. með fyrirvara. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel að frv. á þskj. 188 leysi á engan hátt þann vanda sem fyrir er í lyfjadreifingu og þess vegna mun ég sitja hjá við atkvgr. um það. Til þess að þm. geri sér ljóst um hvað þetta frv. í raun og veru er skal ég reyna að upplýsa það í stuttu máli. Þar með er ég ekki að segja að hv. þm. Pétur Sigurðsson hafi ekki skýrt sitt mál, en hann skýrði aðeins aðra hliðina á því.

Með lögum nr. 76/1982 um lyfjadreifingu fluttist yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins frá fjmrn. yfir til heilbr.- og trmrn. Lyfjaverslun ríkisins hefur lengi verið í samfloti við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og með þessu frv. er verið að færa þessar stofnanir hvora nær annarri á ný. Ástæðan fyrir því er sú — og nú skulu þm. taka eftir — að sjúkrahús landsins standa mjög illa í skilum við Lyfjaverslun ríkisins og þess vegna er gróðinn af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins nauðsynlegur til að halda Lyfjaversluninni í rekstri. Það er því talið rétt að færa yfirstjórn Lyfjaverslunarinnar aftur til fjmrn.

Þetta þykir mér vera hið vandræðalegasta mál. Nær væri að sjá svo til að sjúkrahúsin hefðu rekstrarfé til að greiða þau lyf sem þau nota í stað þess að fleyta sér áfram með því að skulda Lyfjaverslun ríkisins sem þess vegna er háð ágóða Áfengisverslunarinnar. Um lyfjadreifingu almennt mætti margt segja. Eins og kunnugt er eru innflytjendur lyfja allmargir og heildsalar hafa margir hverjir umboð fyrir lyf á sama hátt og aðrar vörur. Mörg dæmi eru um að inn séu flutt lyf sem jafnframt eru framleidd hér á landi t.d. hjá Lyfjaverslun ríkisins eða Pharmaco eða í Reykjavíkurapóteki eða hvar sem er. Sýnist það harla óþörf gjaldeyriseyðsla. Erlend lyfjafyrirtæki leggja auðvitað mikla áherslu á að koma sínum vörum á markað og oft er sama lyfið framleitt í ólíkum litum og umbúðum á mörgum stöðum. Verð getur verið mjög mismunandi og verða læknar óneitanlega oft að gæta þess vel hvaða vörumerki þeir ráðleggja ef þeir bera fjárhag sjúklinga sinna fyrir brjósti því að áhrif lyfjanna eru oft nákvæmlega hin sömu en verðmunurinn gífurlegur.

Þá er og ljóst að læknar eru oft undir nokkrum þrýstingi framleiðenda og ýmsum ráðum beitt í því efni. Framleiðendur halda ráðstefnur og kynna vörur sínar eins og aðrir seljendur og greiða stundum umtalsverðar upphæðir í fargjöld fyrir lækna og gestrisni mikil viðhöfð. Eitt er víst að þeim er tæplega efst í huga hvort sjúklingarnir verða að greiða meira eða minna fyrir vöruna sem þeir eiga heilsu sína undir eða við öll gegnum tryggingakerfið og sjúkrasamlögin. Hér á landi er sem betur fer bannað að auglýsa lyf, en erlendis er það víða leyft.

Það er margt gott að segja um starf það sem unnið hefur verið á s.l. árum í heilbr.- og trmrn., ekki síst varðandi eftirlit með lyfjadreifingu. Það ber svo sannarlega að þakka. En þrátt fyrir það má hér enn bæta um. Að mínu viti ber að stórefla Lyfjaverslun ríkisins. Öll umr. um að leggja hana niður er fáránleg heldur ber að draga úr einkainnflutningi lyfja. Með skipulegri starfsemi í vel mannaðri stofnun, eins og Lyfjaverslun ríkisins ætti að vera, ætti fámenn þjóð að geta haft lyfjadreifingu á einum stað og undir eftirliti og stjórnun heilbr.- og trmrn. svo að unnt verði að gæta hagsmuna neytenda umfram allt annað og að sjálfsögðu skattborgaranna í landinu. Ég held að Afengis- og tóbaksverslun ríkisins og Lyfjaverslun ríkisins eigi í raun og veru ósköp litla samleið þó að ég geti mjög vel skilið í augnablikinu nauðsynlegt samflot þessara tveggja stofnana. Ég er ekki í vafa um að um þetta er hæstv. heilbr.- og trmrh. mér sammála.

Hv. þm. og herra forseti. Þessar skoðanir vildi ég láta í ljós sem skýringu á því að ég tek ekki þátt í atkvgr. um þetta frv. Mér þykir svona löggjöf satt að segja hálf hallærisleg.