17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

5. mál, útvarpslög

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að það er minn skilningur að þetta frv. fjalli um fólk, réttindi þess og skyldur á viðkvæmu sviði þjóðlífsins. Tæknin eða tækin eru annar handleggur og hljóta umfjöllun annars staðar. Annars, herra forseti, er mér ekki ljóst hvað hv. þm. úr menningarmálanefnd þessarar deildar, sem mun væntanlega taka þetta mál til rækilegrar athugunar, gengur til með þeim einkennilegu langhundum sem þeir hafa flutt hér í dag.

Hér er lagt fram frv. til nýrra útvarpslaga. Þetta frv. er lagt fram í skugga þeirrar fjölmiðlamóðursýki sem greip um sig í upphafi vinnustöðvunar BSRB samhliða verkfalli prentara. Það verður ekki séð af efni þessa frv. að það gangi langt til móts við þær væntingar sem atburðir síðustu daga hafa vakið með þjóðinni, eða a.m.k. hluta hennar, um aukið sjálfræði og frelsi í fjölmiðlun. Bandalag jafnaðarmanna hafnar þessu frv. í núverandi mynd og mun flytja við það brtt.

Það verður ekki fallist á ákvæði um útvarpsráð og útvarpsréttarnefnd, hvorki skipun þeirra né hlutverk. Við teljum sanngjarnt og verðugt að varðhundar stjórnmálaafla sitji við sama borð og aðrir þegnar þessa lands hvað varðar áhrif á og aðstöðu til að gagnrýna útvarpsrekstur og útvarpsefni í landinu. Við leggjum áherslu á að þjóðin, hlustendur, áhorfendur, lesendur, er rétti aðilinn til að veita fjölmiðlum nauðsynlegt aðhald og hljóta gildandi lög að vera nægileg trygging, t.d lög um höfunda- og flutningsrétt og meiðyrðalöggjöf. Ekki verður fallist á samræmingar- og verðjöfnunarhugmyndir um auglýsingar.

Herra forseti. Sérhver þegn skal og verður að taka afleiðingum gerða sinna og orða. Þess vegna verður ekki fallist á eftirlitshlutverk útvarpsréttarnefndar né annað það sem þessa nefnd varðar, svo sem áður er sagt. Óheft fjölmiðlafrelsi getur vissulega orðið andstyggilegt vopn í höndum samviskulausra hagsmunaafla og vondra manna. Það verður þess vegna að leggja á það áherslu að Alþingi fylgist grannt með framkvæmd þessara laga sem og annarra laga. Ástæðulaust sýnist þó að gera ráð fyrir hinu versta og gera þjóðina ósjálfráða í þessu efni að óreyndu.

Bandalag jafnaðarmanna mun leggja fram brtt. við þetta frv. og freista þess að þoka því fram á veg skynsemi og aðstæðna í upplýstu samfélagi.

Herra forseti. Það hefur komið fram hér á Alþingi með nokkrum afbrigðum að ríkisvaldið hefur í umboði þegnanna á launaskrá þúsundir kennara sem hafa það hlutverk helst skv. lögum að búa börn og unglinga undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Ef það fólk, sem gengur í gegnum þennan lýðræðislega hreinsunareld skólakerfisins, þarf yfir sig apparöt á borð við útvarpsréttarnefnd er þessu fé illa varið.

Herra forseti. Um einstök atriði frv. munum við þm. Bandalags jafnaðarmanna fjalla í tengslum við þær brtt. sem við hyggjumst gera.