17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það mætti margt segja um ræðu hæstv. iðnrh. áðan og sérstaklega þá aðferð, sem hann beitir hér til að vinna þessu máli stuðning, þessu frv. um verðjöfnunargjald af raforku, að útlista með allmörgum orðum og ítreka fyrir hv. þdm. hvað þetta sé afskaplega slæmt og óréttlátt gjald og það sé bara alveg ljóst að það sé enginn þingmeirihluti fyrir gjaldinu. Þetta er málflutningur fyrir frv. hér á Alþingi. Og ráðh. skýrir það að hann skipaði nefnd í fyrra eftir að honum var ljóst að það var enginn þingmeirihluti. Samt fór þetta nú í gegn og nú er sennilega aðferðin hjá hæstv. ráðh. sú til að ná þessu mjög svo óvinsæla og vitlausa gjaldi, svo að notuð séu efnislega nokkurn veginn hans orð, til þess að koma þessu frv. hér fram, að nú ætli hann að skipa enn aðra nefnd og hún eigi að vera þeirri fyrri betri að því leyti að þar fái hæstv. fjmrh. orð og eyru inn í þann hóp. Ekki skal ég spá fyrir hvernig það muni ganga og hver verði niðurstaða að ári þegar þessi mál verða rædd hér, hugsanlega á grundvelli nýrra yfirlýsinga frá hæstv. ráðh. Það er best að það komi fram. En mér finnst það vera með ólíkindum að maður sem er kosinn fulltrúi af landsvæði þar sem orkukostnaður er hvað hæstur á landinu, bæði raforkukostnaður og húshitunarkostnaður, skuli mæla þannig í máli þar sem er um stóra hagsmuni að tefla fyrir viðkomandi svæði, verðjöfnunarmálin, að útlista og úthrópa það verðjöfnunargjald, sem hann er að fá hér lögleitt og framlengt, áður en hann hefur nokkra vissu fyrir því að fá fram breytingar sem skili svipuðum árangri og þetta gjald. Það er einmitt það sem hefur gerst hér. Hann hefur hér gefið hverja yfirlýsinguna á fætur annarri um hvað hann vilji að nái fram í málinu, í fyrra og í haust og nú bætist enn í safnið, en tryggingin fyrir því að nú eigi að setja undir lekann endanlega er bréf sem hér var lesið upp, yfirlýsing frá ríkisstj. um að efndirnar eiga að sjást að ári liðnu.

Þetta er ekki vænlegt til þess að leita stuðnings í máli þar sem skoðanir eru nokkuð skiptar og hafa verið vegna þess að auðvitað er eðli þessa máls það að með þessu verðjöfnunargjaldi, hvað sem má segja um prósentuálagninguna, er verið að færa fjármagn frá þéttbýlissvæðunum hérna við Faxaflóann þar sem orkukostnaðurinn hefur verið hagstæður, en mjög slæmur annars staðar víða úti um landið, og með þessari tilfærslu erum við að færa fjármuni á milli. Það er auðvitað hægt í gegnum ríkissjóð með öðrum hætti, en niðurstaðan ætti ekki að vera umdeild, þörfin ætti ekki að vera umdeild. Undir hana hafa margir fulltrúar, m.a. þm. Reykv., tekið hér í atkvgr. ár eftir ár. A.m.k. þeir sem vilja telja sig jafnaðarmenn og rísa undir því nafni. Mínir flokksmenn, fulltrúar Reykv. og nágrannakjördæma, hafa tekið þátt í þessari gjaldtöku vitandi að það er verið að færa þarna á milli. En það eru ekki allir sem hafa verið það réttsýnir að styðja þetta mál með þeim hætti.

Síðan kemur hæstv. ráðh. hér og svarar fsp. og ég þakka fyrir þau svör svo langt sem þau ná. Hann var með fyrirvara varðandi verðbreytingar á raforkunni sem fram undan eru. Ég ætla ekkert að vefengja það sem hann kemur hér með, að það séu bestu fáanlegu upplýsingar til þessa. Og hvað er þar á ferðinni? Fram undan er 14% hækkun gjaldskrár hjá Landsvirkjun sem stjórn Landsvirkjunar hefur ein í hendi sinni því að ráðh. afsalaði sér öllum íhlutunarrétti um gjaldskrár Landsvirkjunar fyrr á þessu ári sem kunnugt er og nokkuð frægt að endemum að mati sumra a.m.k. Og þetta fyrirtæki telur sig nú þurfa á þessari hækkun að halda, fyrirtæki sem hefur þó verið að fá auknar tekjur og sem mjög hefur verið af gumað af hæstv. ráðh. í sambandi við leiðréttingu á raforkuverði hjá ÍSAL. Það telur sig núna frá næstu áramótum þurfa 14% hækkun ofan á þá tekjuaukningu sem fyrirtækið fær frá álverinu í Straumsvík, sem hæstv. ráðh. telur að liggi á bilinu 400–500 millj. kr. á komandi ári. Og þetta er fyrirtæki sem samkvæmt upplýsingum, sem hér komu fram á Alþingi um daginn og komu inn í þn. í tengslum við athugun á rafmagnssamningnum við Alusuisse, er með offramleiðslu á forgangsorku sem nemur nálægt einni virkjun af stærð Blönduvirkjunar og sem er enn að fjárfesta út í óvissuna til þess að auka við þessa orkuframleiðslu. Er ekki von að þetta fyrirtæki telji sig þurfa 14% hækkun frá næstu áramótum? Ráðh. hæstv. hefur afsalað sér öllum íhlutunarrétti um verðlagningu þessa einokunarfyrirtækis sem Landsvirkjun vissulega er. Þetta er ekki efnilegt. Og síðan er þessu velt yfir á Rafmagnsveiturnar og aðra sem kaupa raforku í heildsölu. Og Rafmagnsveiturnar segir ráðh. að þurfi að hækka sína taxta, almenna taxtann sem hér á í hlut um 22% og hitunartaxtann um 17% núna á næstunni, en gefur að vísu í skyn að hann geti haft einhver áhrif á verðlagningu hjá Rafmagnsveitunum. Það telur hann nú vera þó að hann hafi afsalað sér því með yfirlýsingu að vilja skipta sér af verðlagningu á raforku. Og þessar hækkanir, sem þarna eru að koma fram, verða grunnur undir verðjöfnunargjaldinu, prósentugjaldinu, sem ráðh. telur vera svo óréttlátt, og auðvitað má gagnrýna það gjaldform, form gjaldtökunnar sem slíkt.

Ég ætla að bæta hér við vegna þess að ég hef ekki fengið svör við öllu því sem ég spurði hæstv. ráðh. að. Nú þegar kemur hækkun á hitunartaxtanum um 17%, ef við gefum okkur það að þær upplýsingar séu réttar og verðið ákvarðandi, ætlar hæstv. ráðh., hefur hann vissu fyrir því að geta haldið niðri hitunartöxtunum þá með aukinni niðurgreiðslu? (Iðnrh.: Nei.) Eða munu þeir ganga fram án þess? (Iðnrh.: Ég hef ekki vissu fyrir því.) Og varðandi almenna taxtann og samanburðinn við Reykjavíkursvæðið. Hefur ráðh. vissu fyrir því að verðmunurinn á heimilistaxta rafmagns milli Reykjavíkursvæðisins og Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hins vegar aukist ekki? Hefur hann vissu fyrir því.? (Iðnrh.: Ekki vissu, líkur.) Nú segist hæstv. ráðh. telja líkur á því. Ég skildi ekki svarið til fullnustu. Eru líkur á því að það yxi bilið eða héldist hlutfallslega óbreyttur munur? (Iðnrh.: Ég hef ekki vissu fyrir því.) Hann hefur ekki vissu fyrir því, segir ráðh.

Nú var hann að segja okkur að hann gæti kannske haft einhver áhrif á gjaldskrárákvörðun Rafmagnsveitnanna. Og ég spyr ráðh.: Ætlar hann að beita áhrifum sínum til þess að þarna verði ekki um aukinn verðmun að ræða? (Iðnrh.: Það verður athugað.) Ætlar hann að gera það? Ég óska eftir því að hann svari ekki úr sínum sess, heldur ómaki sig hérna upp í ræðustólinn og veiti skýr og skilmerkileg svör við þessum atriðum, sem eru auðvitað það sem skiptir máli hér þegar við erum að tala um verðjöfnunargjald og að vinna gegn þeim óréttláta mismun sem hér er um að ræða. Ég hlýt að taka það til umr. í viðkomandi þingnefnd að það verði bundið í lög í sambandi við þessa lagasetningu að tryggt verði af stjórnvalda hálfu að ekki verði aukinn verðmunur milli þessara svæða, Reykjavíkursvæðisins og landsbyggðarinnar með Rafmagnsveiturnar og Orkubú Vestfjarða. Ég tel alveg nauðsynlegt að það verði þá bundið í lög ef hæstv. ráðh. getur ekki með sannfærandi hætti upplýst okkur um að slík öfugþróun eigi sér ekki stað á komandi ári. Og ég óska eftir skýrum svörum um þetta efni.

Ég ætla hér ekki að orðlengja þetta þó að ræða ráðh. gæfi vissulega tilefni til þess að ýmsu af þeim staðhæfingum, sem hann var að reiða fram, væri svarað og hálfkveðnum vísum um þróun mála á fyrri árum. Menn taka nú eftir því að ráðh. talar ekki mjög digurbarkalega um orkumálin og stöðuna þar. Það er kominn allbreyttur tónn frá fyrstu mánuðum hans valdaferils í þeim efnum og það er ofurskiljanlegt ef borin eru saman orð og efndir. Orkusóknin mikla, breytingin frá þeirri „kyrrstöðu og dauðu hönd“ sem ríkti í iðnrn. í minni tíð, sem átti að svipta burtu þannig að um munaði, húshitunarkostnaðurinn þar sem átti nú aldeilis að leiðrétta mismuninn og skila inn í vasa á hverju heimili í landinu, sem notaði raforku til upphitunar, 20 þús. kr. strax eftir kosningar, vorið 1983, bara ef íhaldið næði völdum í landinu og fengi áhrif á orkumálin. Það voru yfirlýsingar af þessu tagi sem reynt var að selja fyrir síðustu kosningar og tekið var undir í fullkveðnum og hálfkveðnum vísum af fyrrv. samstarfsflokki Alþb. í fyrri ríkisstj., Framsfl. Og var þeirra hlutur sannarlega ekki fagur í þeim kór. Ég ætla ekki að rifja það hér upp frekar.

En aðeins til upplýsingar fyrir ráðh. Ástæðan fyrir bráðabirgðalagasetningu varðandi íhlutun í orkuverðmyndun, brbl. sem sett voru í apríl 1983, var sú að úr gildi féllu lagaákvæði um áramótin 1981–1982 sem gáfu stjórnvöldum heimild til íhlutunar um orkuverð hjá Landsvirkjun og hjá öðrum aðilum, en alveg sérstaklega hjá Landsvirkjun. Deilt var um það atriði fram eftir árinu 1982 hvort stjórnvöld hefðu heimild til íhlutunar þarna eða ekki og það var reynt að ná samkomulagi við Landsvirkjun um að stilla verðhækkunum í hóf. En það stóðst ekki og það var sýnileg áframhaldandi þróun, hækkun á hækkun ofan hjá Landsvirkjun á þessum tíma. Þess vegna var gripið til þeirrar nauðvarnar að sett voru brbl. með samþykki ríkisstj. í apríl 1983. En þegar hæstv. núv. iðnrh. kom í valdastól, hvað gerði hann? Hann lýsti því yfir að hann vildi þessa heimild burt og hann heimilaði Landsvirkjun að hækka raforkuna á þremur mánuðum um 56%.