17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

214. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. virðist vera mjög hógvært og sú grg. sem með því fylgir. Það er sagt í grg. að frv. þetta sé lagt fram til tekjuöflunar til þess að minnka fjárhagsvanda ríkissjóðs sem er enn nokkur, eins og stendur í grg. Segi menn svo að grg., eins og frv. sjálft, sé ekki hæverskt.

Grg. með frv. er um önnur atriði ákaflega athyglisverð. Þar er gerð grein fyrir því hvernig þessi hækkun sölugjaldsins muni geta fært ríkissjóði auknar tekjur. Sú áætlun er gerð í tvígang í grg. Hún byrjar á sömu hógværðinni og inngangssetningar frv. um að vandi ríkissjóðs sé enn nokkur.

Fyrsta áætlun skv. grg. er sú að þetta muni geta skilað 200–210 millj. kr. En fáeinum línum neðar er þessi tala tekin til endurskoðunar og því er haldið fram að þetta muni reyndar ekki verða 200–210 millj. kr., heldur 250 millj. kr. Grg. færist því heldur í aukana þegar fram í sækir. Það þarf ekki nema fjórar línur til að hækka sig úr 200 millj. upp í 250 millj. kr.

Það er sagt að þetta gerist með bættu söluskattseftirliti í tengslum við söluskattshækkunina. Þetta orðfæri hlýtur að vekja nokkrar spurningar. Var ekki hugmyndin að bæta söluskattsinnheimtuna og söluskattseftirlitið nema af því að það var ákveðið að hækka söluskattinn um hálft prósent? Í því orðalagi sem hér er birt verður þetta ekki skilið öðruvísi en það sé vegna þeirrar breytingar sem hér er lögð til, um að hækka söluskattinn um hálft prósent, sem menn ætli að leggja það á sig að bæta innheimtuna.

En 40 millj. kr. eru verulegir peningar. Er það svo að þessar 40–50 millj. kr., sem menn ætla að fá með bættum innheimtuaðgerðum, eigi einungis við þessar 200 millj. kr. og það megi ætla að menn fái hliðstæðar endurbætur í hinum 23.5%, þ.e. að menn eigi eftir að fá þessar 40–50 millj. 47.5 sinnum ef menn stæðu sig eins vel í innheimtunni á hinum 23.5% eins og menn ætla skv. þessu að standa sig í innheimtunni á þessu seinasta hálfa prósentustigi?

Hver er hugmyndin með því sem hér er fram sett? Það verður ekki endanlega af þessu ráðið hvort það eigi bara að herða innheimtuna á þessu seinasta hálfa prósenti eða hvort það eigi að herða innheimtuna á öllum hinum prósentunum líka.

Síðan kemur eins konar syndaaflausn í grg. því að sagt er að allt það sem hér gangi yfir í söluskattsmálum sé, þrátt fyrir þetta framlag, ríkissjóði mjög í óhag, eins og hér er tekið fram. Það er tekið sérstaklega fram í grg. að það sem ríkisstj. hafi hér ákveðið að gera sé ríkissjóði mjög í óhag. En engu að síður, segir í frv., þykir ekki fært að hækka sölugjaldið um meira en hálft prósent. Hér er aftur staðfest að menn fara fram af mikilli hógværð í þessu máli.

Það er kannske ekki nema von með tilliti til þessa að stjórnarþm. hver á fætur öðrum skuli vera í kapphlaupi frá þessu frv. Menn skulu veita því athygli að formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, vill ekki ljá þessu allan stuðning sinn, heldur undirritar nál. með fyrirvara. Og það eru fleiri sem gera það. Það eru ekki hinir lægst settu eða óbreyttustu í flokkunum sem eru á hlaupum frá þessu hógværa frv. því að í fylgd með formanni þingflokks Framsfl. er sjálfur varaformaður Sjálfstfl., stærsta flokks þjóðarinnar. Hann hefur líka þann háttinn á að undirrita nál. með fyrirvara.

Það er kannske ekki nema von að mennirnir þvoi hendur sínar. Það gerðist nefnilega jafnframt í n., þegar málið var til umfjöllunar, að það hrökk upp úr einum embættismanni fjmrn. að áætlaðar tekjur af söluskattinum á næsta ári væru 10.3 milljarðar kr. Það vildi svo til að ég hafði nýlega litið í fjárlagafrv. og gætt að því hvaða fjárhæð væri í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir. Þar eru 8.4. Hér var komin gjörsamlega ný tala og skeikaði næstum 2 milljörðum. Menn hljóta auðvitað að spyrja hvað verið sé að vandræðast með 200 millj. þegar það hrökkva 2 milljarðar upp á borðið aldeilis óforvarandis sem allir virtust verða gáttaðir á. Það eru þess vegna fleiri tölur en þær sem varða uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi sem hafa tekið myndarlegum breytingum í dag.

En hvers vegna ræðst ríkisstj. í að hækka söluskattinn? Þetta mál á sér sérkennilegan aðdraganda. Það stendur í frv. til fjárlaga að til þess að mæta lækkun tekjuskatts eigi að hækka söluskattinn og svo stóðu sakir hér fram eftir hausti að sú stefna var gildandi. En þegar fram fór 1. umr. um fjárlög var því afdráttarlaust neitað af hæstv. fjmrh. og talsmönnum ríkisstj. að til stæði nokkur hækkun á söluskattinum. Það stóð alls ekki til nokkur hækkun á söluskatti. Það var ekki hugmyndin að taka neitt af tekjuskattslækkuninni til baka með þeim hætti. Þannig stóðu sakir í nokkra daga. En Adam var ekki lengi í Paradís því að nú er komið upp á borðið að það sem menn afneituðu hvað harðast og ákveðnast við 1. umr. um fjárlög, nefnilega að söluskatturinn yrði hækkaður, er nú eina ráðið sem menn fundu til að stoppa í gatið sitt og gátu komið sér saman um. Sú ákvörðun að hækka ekki söluskattinn fékk ekki að standa nema í fáeina daga.

En það gerðist annað merkilegt í millitíðinni. Nú er okkur talin trú um að þessi söluskattshækkun sé alls ekki vegna tekjuskattslækkunarinnar eins og stóð í fjárlagafrv. Nú er reynt að halda því fram að þessi söluskattshækkun sé vegna sjávarútvegsins. Hún er allt öðruvísi söluskattshækkun en sú sem var í fjárlagafrv. Hún var nefnilega vegna tekjuskattsins. Það sjá allir menn að það hlýtur að vera reginmunur á því hvað það er langtum betri söluskattshækkun sem menn borga vegna sjávarútvegsins en sú sama söluskattshækkun var meðan hún var vegna tekjuskattsins. Snilld ríkisstj. í þessu á sér greinilega engin takmörk. Menn hafa sett á langar tölur í dag, bæði á nefndarfundum og eins hér í þingsölum, um hver væri nú uppsafnaður söluskattur hjá sjávarútveginum. Eins og það væri málið! Það kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við vegna þess að það lá fyrir frá upphafi að ríkisstj. ætlaði að leggja þennan skatt á almenning í landinu af því að hún væri að lækka tekjuskattinn. Flækjan um söluskattsuppsöfnun í sjávarútvegi kemur þessu máli vitaskuld ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Það er merkilegt og til votts um hvernig ríkisstj. heldur á málum að enginn af þessum háttsettu forustumönnum í stjórnarflokkunum, hvorki formaður þingflokks Framsfl., hvorki formaður né varaformaður Sjálfstfl. né heldur varaformaður þingflokks Sjálfstfl., sem allir sátu nefndarfundi um þessi mál, gat upplýst nokkurn skapaðan hlut um hvað væri hér á ferðinni, hvernig menn hefðu komist að einhverri niðurstöðu varðandi það hver væri uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi, hvers vegna upphæðin breyttist á nokkurra daga fresti og jafnvel tvisvar á dag eða hvernig þessum fjármunum öllum, hvort heldur það voru 380 eða 550 millj. kr., yrði úthlutað. Um það gátu þeir ekki nokkurn skapaðan hlut upplýst og hafa verið hér á handahlaupum annað veifið í allt kvöld til að reyna að fá einhverjar smáræðis upplýsingar um það sem hv. þm. Halldór Blöndal og varaformaður þingflokks Sjálfstfl. var svo að leitast við að gera grein fyrir hér áðan í ákaflega skýru máli eða hitt þó heldur.

En það er ekki málið. Málið er að nú er það komið fram, sem við bentum á í stjórnarandstöðunni við 1. umr. um fjárlagafrv., að ríkisstj. ætlaði sér að taka til baka með skatti á almenning í landinu, m.a. með söluskattshækkun, þá tekjuskattslækkun sem er verið að færa með hinni hendinni. Það var gefið í skyn í fjárlagafrv. og nú er það komið fram. Það er staðreyndin í þessu máli.

Það heyrir svo sögunni til að hæstv. fjmrh. hefur margsinnis sagt við fólkið í landinu og leyft þessari hv. deild og þinginu öllu að heyra að síst af öllu skyldi hann nokkurn tíma verða til þess að hækka skattana á fólkinu í landinu. Ef sú yfirlýsing á að standast er söluskatturinn ekki skattur. Mjög einfalt mál. Söluskattur er ekki skattur ef þessi yfirlýsing á að standast. Það sóru þeir stjórnarþm. af sér, en enginn betur en ráðh., að ekki kæmi til greina að hækka skattana á fólkinu í landinu. Þetta gerðist líka þegar endurskoðuð tekjuáætlun var birt. Þetta gerðist við 1. umr. fjárlaga. En engu að síður er hér verið að hækka skattana enn einu sinni nema ef hæstv. fjmrh. lítur svo á að söluskattur sé ekki skattur.

Ríkisstj. hefur líka lýst því yfir að það væri höfuðmarkmið hennar að sjá til þess að verðbólga yrði sem minnst í landinu. Maður hefði haldið að þegar ríkisstj. hefði slíkt markmið mundi hún gjarnan velja sér tekjuöflunarleiðir sem hefðu sem minnsta tilhneigingu til að breyta verðlagi. Hvernig má það þá vera að það eina sem ríkisstj. getur fundið upp á til þess að stoppa í gatið sitt skuli einmitt vera sú eina tegund af skatti og gjaldtöku sem einmitt fer beint út í verðlagið? Það er merkilegt að ríkisstj. skyldi ekki hafa komið auga á að þarna gæti verið eitthvert samhengi, að með því að velja einmitt þessa leið til tekjuöflunar er hún að vinna gegn því markmiði sem hún taldi þó vera aðalmarkmið sitt.

Það eru allir sammála um það, trúi ég, að söluskattskerfið sé hriplekt. Og hvers vegna er það hriplekt? geta menn spurt. M.a. vegna þess hve söluskattsprósentan er há, hafa menn svarað. Það hefur komið fram í máli ýmissa stjórnarþm. að eitt af því sem ráði því að söluskattskerfið leki svo illa sem raun ber vitni, að svo mikil tilhneiging sé til að skila ekki söluskattinum, sé hve há söluskattsprósentan er orðin. Þegar menn standa með kerfi í höndunum sem lekur af því að söluskattsprósentan er svo há finna menn það eitt til ráða að hækka söluskattsprósentuna einu sinni enn. Það er alveg lygileg hreinskilni sem kemur fram í grg. hæstv. fjmrh. með þessu frv. því að hann segir að þegar þetta sé orðið að lögum gerist æ brýnna að fljótlega verði lagt af það kerfi sem er söluskattur hér á landi og hann er að leggja til að verði hækkaður. Það er eins og meginröksemdin fyrir því að hækka þessa söluskattsprósentu sé sú að þá verði kerfið enn þá ónýtara og menn geti svo lagt það af.

En menn hljóta vitaskuld að spyrja: Hverju skilar það að hækka söluskattinn um hálft prósent? Getur verið að kerfið fari að leka meira fyrir hvert hálft eða heilt prósent sem bætt er við í söluskattsprósentu? Það skyldi þó ekki vera að þessi tilhneiging, sem menn hafa talað um, til að skila ekki söluskattinum færi vaxandi eftir því sem prósentan yrði hærri? Þeirrar spurningar hljóta menn að spyrja.

Það er kannske ekki nema von að ýmsum stjórnarþm. líði illa með þessa framkvæmd sína, að þeir segi í raun að af öllu vitlausu sem ríkisstj. gat gert var þetta það alvitlausasta, eins og mér heyrðist einn þeirra segja í dag. Og það skyldi þó ekki vera rétt. Ríkisstj. átti nefnilega ótal möguleika ef nauðsyn bar til að afla viðbótartekna. Hér hafa verið lækkaðir skattar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, hér hafa verið lækkaðir skattar á banka. Ekki kemur það eins beint inn í verðlagið þó að kannske hafi það einhver áhrif þegar fram í sækir. Það hafa farið hér fram umræður um stóreignaskatt. Það hefði líka getað verið leið til að jafna metin. Ýmis launþegasamtök í landinu hafa lýst því yfir, m.a. Bandalag háskólamanna, sem einn af þm. hér er í forsvari fyrir og hefur verið í forsvari fyrir, að það væri leið sem vissulega væri unnt að fara.

Það hefði líka getað komið til greina, úr því að ein af orsökum þess að söluskattskerfið heldur svo illa sem raun ber vitni er sú hversu undanþágur eru margar, að fækka þeim undanþágum eitthvað. Það kom mjög glögglega fram í máli embættismanna, sem komu á fund n., að ein af skýringunum á því að söluskatturinn skilaði sér ekki nógu vel væri hvað undanþágurnar væru miklar og flóknar og það væri ómögulegt að henda reiður á hvað væri í raun söluskattskylt og hvað ekki.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða öllu frekar um þetta. En ég hygg að það sé rétt, sem heyrst hefur frá stjórnarþm., að af öllu vitlausu sem ríkisstj. hefði getað gripið til hafi þessi söluskattshækkun verið það alvitlausasta. Og það hlýtur að vera umhugsunarefni að það skuli nú vera orðin örlög þessarar ríkisstj. að sameinast í hverju málinu á fætur öðru um að velja vitlausustu leiðina.

Í því nál. sem ég mæli hér fyrir er lagt til að þetta frv. verði fellt. Undir það rita auk mín Svavar Gestsson og Guðmundur Einarsson. Guðrún Agnarsdóttir sat einnig fundi n. og er samþykk þessu áliti. Í samræmi við þetta nál. og þá grein sem ég hef hér gert í örstuttu máli fyrir þessu máli legg ég áherslu á að þd. felli nú þetta frv. og forði ríkisstj. þannig frá þessum ömurlegu örlögum sínum.