18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

135. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Með þessari fsp. er hreyft máli sem er mjög mikilvægt og verður oft tilefni vandasamra úrlausnarefna í sameiginlegum málum ríkis og sveitarfélaga. Þannig stendur á að fram hafa farið öðru hverju sérstakir fundir nefndar sem hæstv. félmrh. skipaði á síðasta vetri og fjallar um ýmis verkefni sem sameiginlega eru í höndum ríkis og sveitarfélaga. Það verkefni sem er stærst og jafnframt vandasamast, sem þessi nefnd fæst við, er einmitt að finna nýjar leiðir til að skipta kostnaði milli þessara aðila þar sem menn hafa þóst rekast á greinilega galla í núgildandi fyrirkomulagi.

Menn eru allir sammála um í þessari samráðsnefnd, og svo er um fleiri, að það væri af hinu góða að hafa reglurnar um kostnaðarskiptinguna einfaldari og skýrari, fækka þeim þáttum sem eru. sameiginlega kostaðir af ríki og sveitarfélögum, færa saman hina fjárhagslegu ábyrgð og reksturinn, þannig að ákvörðun og ábyrgð séu í hendi sama aðila. Þetta er ekki alltaf eftir núverandi kerfi. Það eru nokkur atriði á þessu sviði sem svo háttar til um að ákvörðun er að langmestu leyti og stundum alveg í hendi sveitarfélags t.d. en mikill meiri hluti kostnaðar greiddur af ríki skv. lögum.

Hitt er svo annað mál, að þegar að því kemur að breyta þessu skapast vandi af öðru tagi heldur en einungis það að ákveða að ábyrgð og ákvörðun séu á sömu hendi. Sá vandi sem hér er við að etja er fólginn í hinni mjög svo mismunandi stærð sveitarfélaganna. Örfámennt sveitarfélag er kannske með mjög þungan kostnað vegna skólaaksturs, en aftur á móti með litla sjóði til að standa undir þeim kostnaði. Þess vegna held ég að lykilatriðið, til að ná fram þeirri stefnu að færa saman ábyrgðina og ákvörðunina um útgjöldin, sé að fundin verði leið til að hlaupa undir bagga með litlum sveitarfélögum. Mér er ljóst að reglurnar um Jöfnunarsjóð duga þar e.t.v. ekki til. Svo hefur mér virst af umfjöllun sveitarstjórnarmanna um þetta að ágreiningur sé innbyrðis milli sveitarfélaganna um þær reglur sem farið er eftir við skiptingu framlaga innbyrðis milli þeirra. Í þessu tel ég meginvandann vera fólginn.

Í öðru lagi liggur það líka ljóst fyrir að nú árar ekki til að taka stórfelldar nýjar skuldbindingar á herðar ríkisins, t.d. eins og það að ríkið tæki allt í einu að sér að greiða að fullu rekstur þeirra skóla allra á framhaldsskólastigi sem nú eru í samrekstri ríkis og sveitarfélaga. Ég er þó þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegra að hafa sams konar kostnaðaraðild að öllum skólum sem reknir eru á menntaskólastigi, þ.e. þeim sem ekki eru einkaskólar. Aftur á móti tel ég að það sé skynsamlegt að ríkið styðji einkaskólana a.m.k. á þann veg sem gert er og það sé fallið til þess að auka fjölbreytni og hvatningu fyrir aðra skóla.

Í þessum fáu orðum er einungis talað mjög almennt um þá hluti sem hv. fyrirspyrjandi vék að. Ef ég nefni einstök atriði sem hann vék að, þá minntist hann sérstaklega á akstur, viðhaldskostnað og á gæslutíma minnir mig — hann notaði annað orð en ég hygg að það hafi verið það sem átt er við. — Það er t.d. gæsla í frímínútum og heimavistum skóla. Þetta nákvæmlega eru þau atriði sem einkanlega eru til umr. nú og að breytt verði um fyrirkomulag við. En til þess vantar þau skilyrði sem ég nefni og varða sérstaklega litlu sveitarfélögin. Ég held að á meðan það liggur ekki fyrir séu ekki efni til að bera fram nýtt frv. að þessu leyti. Ég held að það þýði ekki fyrir okkur að reyna að samþykkja lög um þetta efni með öðru fyrirkomulagi fyrr en við erum tilbúin til að geta framkvæmt þau, enda hefur reyndin verið sú að frv. um þetta hafa strandað í meðförum þingsins. Það gildir um frv. sem hefur í sér mörg ágæt ákvæði og flutt var af fyrirrennara mínum, hæstv. núv. forseta Nd., um skólakostnað. Einnig stöðvaði kostnaðarkaflinn í framhaldsskólafrv. jafnan það mál þegar það var á ferðinni þing eftir þing. Þess vegna er það að frv. hefur ekki verið flutt um nýtt fyrirkomulag þessara mála, en það er fullur vilji til þess strax og aðstaða verður til.

Ég vil taka fram eitt atriði, sem að vísu er lítið í öllum þeim kostnaði sem við ræðum hér um, og breytt hefur verið. Það varðar grunnskólann. Þar háttaði svo til að sex ára bekkurinn var kostaður með öðrum hætti heldur en aðrir árgangar grunnskólans. En um það hefur verið tekin ákvörðun að frá og með þessu skólaári fái sex ára börn sömu meðferð að þessu leyti eða njóti sama réttar og önnur börn í grunnskólanum.

Ég hygg, herra forseti, að nokkurn veginn liggi ljóst fyrir af hverju frv. hefur ekki verið fram borið um þetta. Meginstefnan er eins og ég hef áður sagt að í sem allra ríkustum mæli verði að því horfið að ákvörðun um útgjöld og hin fjárhagslega ábyrgð sé á hendi sömu aðila.