18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í hádegisfréttum útvarpsins birtist ákveðin yfirlýsing frá hæstv. forsrh. um stöðuna í kjaramálum. Ég náði í hæstv. ráðh. kl. 13.30 og í forseta Sþ. kl. 13.45 og síðan var ákveðið kl. nákvæmlega 2 að þessi umr. færi fram utan dagskrár. Hæstv. forsrh. þarf að vera á fundi annars staðar kl. 3 þannig að svigrúm til að láta menn vita var mjög lítið. Umræðuefnið er hins vegar brýnt og þess vegna óhjákvæmilegt að það verði hér tekið fyrir.

Í fréttatíma útvarpsins í gærkvöld birtist eftirfarandi frétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í yfirlýsingu frá viðræðunefnd Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks er lýst áhyggjum nefndarinnar af þeirri kúvendingu sem orðið hafi í samningamálum nú síðustu daga. Í yfirlýsingu viðræðunefndarinnar segir:

Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks hafa undanfarnar vikur unnið að gerð kjarasamnings sem tryggt hefði áframhaldandi hjöðnun verðbólgu, traustari kaupmátt ásamt miklum raunverulegum skattalækkunum, aðhald í verðlagsmálum og úrbætur til handa þeim sem að undanförnu hafa mátt þola hinn illræmda sjúklingaskatt. Skipst var á hugmyndum um nýsköpun í húsnæðismálum og uppbyggingu sjávarútvegs. Frekari skilyrði fyrir samningum voru afnám lánskjaravísitölu og almenn vaxtalækkun. Þessu hefði fylgt afnám tvöfalda kerfisins og almenn kauphækkun. Stefnt var að samningsgerð er tryggði ákveðinn kaupmátt sem ekki fælist allur í beinum launahækkunum, þannig að þær kjarabætur, sem næðust, yrðu ekki aftur teknar.

Ríkisstjórnin hafði á formlegum fundi með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar boðið alls 1400 millj. kr. í hreina skatta- og útsvarslækkun og skipuð var sérstök nefnd til að úttæra þessa lækkun. Með aðild sinni að gerð samnings Reykjavíkurborgar hefur ríkisstj. afturkallað fyrri yfirlýsingar um 1400 millj. kr. skattalækkanir og gerir nú samninga sem engar tryggingar eru fyrir. Hún hyggst því fara þekkta leið gengisfellinga og verðhækkana í stað nýrrar leiðar varanlegri kaupmáttar. Þykir viðræðunefndinni það köld kveðja til verkafólks sem á allt undir því að raunverulegur kaupmáttur vaxi, að verðbólgu verði haldið í skefjum og atvinna treyst. Lýsir viðræðunefndin fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna slíkra vinnubragða“.“

Hér er sem sagt ljóst að þessi samtök lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir í kjaramálum. Í framhaldi af því birtist í hádegisfréttum útvarpsins í dag sú frétt sem er tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár. Fréttin var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Forsrh. hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ályktunar viðræðunefndar Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks sem birt var í gær. Í yfirlýsingu forsrh. segir: „Um leið og ég tek undir þá almennu stefnu í kjaramálum, sem fram kemur í yfirlýsingu Verkamannasambandsins og Landssambands iðnverkafólks, tel ég nauðsynlegt að leiðrétta þá fullyrðingu að ríkisstj. sé aðili að gerð kjarasamnings Reykjavíkurborgar. Svo er ekki“, segir í yfirlýsingu forsrh. Þá segir: „Ríkisstj. er enn þeirrar skoðunar að leggja hefði átt áherslu á meiri skattalækkun, en minni peningalaunahækkanir, enda er ljóst að það er eina leiðin til að koma í veg fyrir verðbólgu á nýjan leik með víxlhækkun verðlags og launa“, segir að lokum í yfirlýsingu Steingríms Hermannssonar forsrh. sem hann sendi frá sér í morgun.

Í tilefni af þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. er nauðsynlegt að þegar í stað komi fram hvort líta beri á þessa yfirlýsingu hans sem framhald af yfirlýsingu formanns Sjálfstfl. 14. sept. s.l. þar sem hann lýsti því yfir að samþykkt sáttatillögu ríkissáttasemjara mundi hafa í för með sér gengislækkun, óðaverðbólgu og atvinnuleysi, m.ö.o. hvort yfirlýsingu forsrh. beri að skilja sem svo að ríkisstj. ætli sér að taka hvað eina aftur með efnahagsráðstöfunum sem rætt hefur verið um sem hugsanlega samningsniðurstöðu. Ég held það sé útilokað annað en að yfirlýsing hæstv. forsrh. sé skilin á þennan veg og að sá skilningur, sem í hana verður lagður, skipti ákaflega miklu máli í sambandi við þá atkvæðagreiðslu sem fer senn að hefjast um samninga Reykjavíkurborgar. Ég held að óhjákvæmilegt sé að yfirlýsing forsrh. sé skoðuð sem framhald af hótun formanns Sjálfstfl. um að svipta launafólk þeim árangri sem hugsanlega verður í kjarasamningunum. Þess vegna er það sem ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár. Hvort er það ætlun ríkisstj. samkvæmt þessari yfirlýsingu að taka það aftur sem samið kann að verða um og er umfram þá sáttatillögu sem formaður Sjálfstfl. taldi að mundi stefna hér öllu í bál og brand og efnahagslegan voða?