19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

214. mál, söluskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tek tvær spurningar sem ég hef ekki svarað. Önnur var frá hv. 3. þm. Norðurl. v. Hún var á þá leið hvernig endurgreiðsla á söluskatti sjávarútvegs ætti að fara fram og hvernig væri háttað, ef ég skildi rétt, þeim útreikningum sem byggt er á. Er það ekki rétt skilið? Það er verið að reikna út núna þann þátt sem söluskatturinn er í rekstrarkostnaði sjávarútvegs. Það hefur verið gert í rn. og það hefur verið gert í Þjóðhagsstofnun. Þar stangast niðurstöðutölur verulega mikið á. Í rn. er talað um að endurgreiðsla fari í 450 millj. og það er sú tala sem ég hef notað. Aftur á móti hefur Þjóðhagsstofnun reiknað þetta hærra, líklega yfir 500, allt upp undir 540 millj. held ég, ef ég man rétt. Þriðji aðilinn hefur því verið beðinn um að reikna þetta út og er það löggilt endurskoðunarskrifstofa, viðurkennd, hér í bæ sem hefur mikið með uppgjör og eftirlit með útgerðarfélögum og fyrirtækjum í sjávarútvegi að gera. Ég vona því að það komi nokkuð ábyggileg niðurstaða fljótlega.

Um endurgreiðsluna, hvaða leið hún verður látin fara, er ég ekki enn alveg viss, en þetta eru tekjur innheimtar af ríkissjóði þannig að þær verða þá að ganga út úr ríkissjóði aftur. Það yrði þá sjútvrh. sem yrði að finna farveg frá ríkissjóði til réttra aðila. En ég get ekki svarað með meiri nákvæmni en þetta eins og málin standa í dag, enda er ekki búið að samþykkja fjárlög enn þá þó að ég geri ráð fyrir að þetta verði niðurstaðan. Ég skal fúslega viðurkenna að á óbeinan hátt var ég guðfaðir þeirrar ríkisstj. sem hv. 3. þm. Norðurl. v. starfaði í og starfaði vel í. Ég fylgdist vel með hans störfum og átti við hann ágætis samskipti og ég tel að hann hafi unnið gott starf sem fjmrh. En það er nú svo að börn bregðast til beggja vona. Maður veit aldrei hvað verður úr króganum þegar hann fæðist, en verður að viðurkenna hann svo lengi sem hann er við lýði og jafnvel lengur. Yfirlýstur stuðningsmaður ríkisstj. var ég að vísu aldrei, en studdi þó mörg góð mál sem frá henni komu á þeim tíma sem hún starfaði.

Það æxlaðist þannig til í málflutningi hv. 5. landsk. þm., Eiðs Guðnasonar, að ég fann ástæðu til að spyrja hvort hann væri að tala um nýjan forsrh. þegar hann hagaði orðum sínum eins og hann gerði. Ástæðan fyrir því var sú að formaður Alþfl. hefur sjálfur lýst því yfir að hann sé sá eini sem sérstaklega hefur lært til þessa embættis. Ég hef bara þeirra eigin orð fyrir því. Ég er ekki viss um að það sé til í öðrum flokkum sérmenntaður maður í þá stöðu. Ég veit líka að það var krafa Alþfl. og skilyrði fyrir þátttöku í þessari ríkisstj., sem nú er við lýði, að þeir fengju forsætisráðherraembættið. Það er þess vegna sem ég greip fram í í galsa.

Virðulegur 11. þm. Reykv. spurði mig hvenær fjmrh. mundi segja af sér og sagði að fjmrh. hefði lofað að segja af sér frekar en að auka skatta. Skattar til ríkisins minnkuðu í prósentum um 3.7% við gerð síðustu fjárlaga. En þeir hækkuðu kannske í heild vegna þess að sveitarfélögin fóru það mikið hærra að segja má að það sé rétt að skattar voru íþyngjandi s.l. ár. En það var ekki af völdum ríkisstj. og síst af öllu af völdum fjmrh. Ég tel því að þau orð mín standi, enda sýnir það sig að það er verið að lækka ríkissjóðstekjur um á annað þús. millj. Það er verið að lækka tekjuskatta, það er verið að lækka söluskatt á sjávarútveginum og ýmsum kostnaðarliðum sjávarútvegs á þessu ári og endurgreiða, t.d. af loðnuveiði, af olíuinnkaupum o.fl. Auknir skattar hafa því alls ekki komið til. Það er alveg öfugt. Tilefnið er ekki fyrir hendi af þeim ástæðum, en tilefnið gefst kannske af öðrum ástæðum, það getur vel verið, og eflaust eru tilefnin mörg í augum þeirra sem eru andmælendur mínir hér.

Virðulegur 8. þm. Reykv. kvartar um að ég sé nærgöngull í umr. við hann. Ég tók það upp strax og hv. þm. byrjaði á slíkum leik við mig, strax í upphafi setu hans og veru á Alþingi. En ég geri ekki ráð fyrir því að þm. hafi almennt nokkuð undan mér að kvarta. Þm. eru yfirleitt mjög góðir félagar mínir og vinir og ekkert ódrengilegt í orðaskaki okkar á milli jafnvel þó að hitni í kolunum. En þessum hv. þm. svaraði ég í sama dúr og ég mun gera það áfram eftir því sem hann býður upp á það. (StB: Ég hef ekki verið nærgöngull í orðum.)

Síðan spyr hann: Hvers vegna hefur fjmrh. ekki brotið upp fjárlagadæmið? Ég veit ekki betur en ég hafi gert það. Þetta er í annað sinn sem ég kynni fjárlög sem fjmrh. Við fyrstu fjárlagagerð kynnti ég að ég væri ekki ánægður með fjárlögin eins og þau voru gerð á hefðbundinn hátt og sagðist mundu taka þau upp og endurskoða. Það voru ekki svo lítil læti þegar það var gert. Ég trúi því varla að þm. séu búnir að gleyma því að það voru gerð ný fjárlög, að ég held um mitt ár, sem voru raunhæfari en þau sem samþykkt voru á eðlilegum tíma. Við gerð fjárlagafrv. nú hefur annað skeð. Tekin er upp ný reikningsaðferð sem Alþjóðabankinn hefur mælt með í mörg ár og sýnir raunverulega stöðu ríkissjóðs bæði út á við og inn á við á einum og sama stað, þannig að þm. geta notað fjárlögin sem stýritæki langt umfram það sem áður hefur verið. E.t.v. getum við hætt að tala um A- og B-hluta fjárlaga eða lánsfjárlög og lánsfjáráætlanir, en haft þetta allt í einu plaggi fyrir framan okkur. Þetta kalla ég að brjóta upp fjárlögin, gera þau aðgengilegri þannig að ekki bara þm. sem vilja kynna sér þau heldur fólkið í landinu geti skilið, án þess að hafa mikið fyrir því, hvað um er að vera. Ég held því að fjárlagadæmið hafi verið brotið upp, bæði hvað uppgjörsmáta snertir og eins við endurskoðun fjárlaga um mitt ár eða í maí s.l.