19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa heldur betur staðfest að ekki var vanþörf á að ýta við þessu máli. Ég átti ekki von á því að hæstv. ráðh. treysti sér til að svara þessum fsp. g skal bæta því við að þó hann hefði haft nægan tíma til þess í venjulegum fsp.-tíma, þá er ég engan veginn viss um að svörin hefðu reynst fullnægjandi, tel það reyndar í hæsta máta ólíklegt. Það er ekki nóg hjá hæstv. ráðh. að vísa til þess að sá sem hér talar hafi ekki verið viðstaddur 1. umr. og væri nær að lesa þingtíðindi. Það hef ég að vísu gert og sannleikurinn er sá, hæstv. ráðh., að lestur þingtíðinda svarar ekki þessum spurningum heldur, því að þær umr. sem fram fóru við 1. umr. voru ekki af því taginu að þær svöruðu þessum fsp. Þetta eru spurningar m.ö.o. sem ákaflega fáir treysta sér til að svara og svo vitlaust og flókið er kerfið orðið og erfitt að það þarf verulega vinnu að leggja í það til að geta svarað þeim. Skætingi hæstv. ráðh. um fjarvist í n., hvort sem þau mannlegu mistök voru mér að kenna eða öðrum, hirði ég ekki um að svara.

Ég ætla að lokum að leggja áherslu á eitt. Það er ákaflega auðvelt í pólitísku starfi að skýla sér á bak við sérfræðinga. Það er ákaflega auðvelt að segja lon og don, kjörtímabil eftir kjörtímabil, ríkisstj. eftir ríkisstj. og áratug eftir áratug að málið sé í nefnd og sérfræðingar séu að vinna. Hitt vita allir menn, sem nálægt slíku hafa komið, að sérfræðingarnir vinna ekki neitt nema á bak við liggi pólitískur vilji og skýr pólitísk fyrirmæli um að það eigi að hraða málinu og að finna eigi einfaldar, skýrar og réttlátar lausnir. Sérfræðingar, sem sitja 7 ár, 14 ár, 17 ár í nefnd, eru auðvitað þegar búnir að sanna að þeir eru óhæfir um að vinna verkið og ætti löngu að vera búið að reka þá alla saman heim og setja nýja menn í verkið.

En þetta mál er um pólitískan vilja. Er mönnum ekki farið að ofbjóða að sitja hér eins og embættismenn? Það eru eiginlega orðin hlutverkaskipti. Pólitíkusarnir eru farnir að verða að embættismönnum sem sitja og bíða. Ef menn vilja una því áratug eftir áratug að mál verði gerð svo flókin og vittaus, einföldustu réttindamál almennings í landinu, þá er það bara pólitískt mál, það er ekki spurning um sérfræði. Það er ástæða til þess að staldra við vegna þess að ágreiningurinn sem núna er uppi er út af fyrir sig ekki ýkja stór. Það er alveg augljóst mál að úr því sem komið er verður auðvitað að bjarga þessum málum fyrir horn. Það er enginn að tala um að fólkið í landinu eigi að standa uppi réttindalaust og allslaust. Spurningin er: Þegar menn eru búnir að framlengja og fresta í 14 ár, telja þeir þá rök fyrir því að framlengja frestinn fimm ár í viðbót? Ég segi: Nei. Það á ekki að veita meiri framlengingu í þessu en að hámarki tvö ár. Á bak við það ætti að vera pólitísk viljayfirlýsing um að tvö ár dugi til að stokka þetta kerfi upp ef það er pólitískur vilji fyrir því.