19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það liggur hér fyrir á þskj. 384 brtt. sem ég flyt og lætur lítið yfir sér, enda varðar hún einungis einn tölustaf í öllu því talnaflóði sem menn geta séð í því frv. sem hér er til umr. Hún varðar 4. tölul. 1. mgr. þar sem gert er ráð fyrir að tiltekin tala, sem hafi verið 25 500 kr., verði 31 880. Ég flyt sem sagt till. um að í staðinn fyrir 31 880 komi 58 þús. kr. Þetta varðar svokallaðan námskostnaðarfrádrátt eða námsfrádrátt hjá mönnum sem eru 16 ára og eldri.

Ég get rakið fyrir deildinni hvers vegna vaknaði hjá mér áhugi fyrir þessu máli. Það vildi svo til að í sumar fór ég að kynna mér það hvernig væri hagað námsfrádrætti og hvernig hann nýttist námsmönnum og framfærendum. Ég komst þá að því að þessi tala, sem við samþykkjum hér á hverju ári, fær ýmiss konar meðferð áður en endanleg frádráttartala kemur svo á framtalið. Ég komst að því að það væru tvær aðferðir í gangi og að sú tala sem hér er tilgreind sem námsfrádráttur, ætti harla langa leið og ýmis ævintýri fyrir höndum áður en einhver tala kæmi á framtali til frádráttar. Þetta á að vísu ekki við í öllum tilvikum. Ef námsmaður hefur tekjur, þannig að honum nýtist þessi frádráttur, kemur þetta sem frádráttarliður á framtal námsmannsins og lækkar skatta hans þá að einhverju leyti, nýtist náttúrlega misvel, en hefur fyrst og fremst þau áhrif að hann lendir þá ekki í skatti. En í mjög mörgum tilvikum eru námsmenn tekjulitlir, þannig að þessi frádráttartala nýtist þeim ekki og við þekkjum það öll, að börnin okkar eru kannske meira og minna á framfæri okkar, sérstaklega á milli 16 ára og tvítugs og kannske eitthvað fram eftir því. Og þá er hugmynd skattalaganna sú að það geti nýst til frádráttar hjá framfæranda. En þá flækist málið vegna þess að þó að það sé ótvírætt gefið í skyn í lögunum að menn skuli njóta slíks frádráttar og við fyllum út alls konar eyðublöð um þetta, þá er það nú ekki afgangurinn af þessari tölu sem kemur til frádráttar eða það sem ekki nýttist hjá námsmanninum, hvað þá þessi tala öll sem kemur til frádráttar hjá framfærandanum, heldur eru tvær aðferðir í gangi og bið ég nú menn að taka eftir.

Ég held að það sé best að rekja þetta með dæmi. Þá er fyrst þess að geta að á s.l. ári var námsfrádráttur 25 500 kr. Við skulum hugsa okkur námsmann sem hafði 51 þús. kr. í tekjur. Þá er fyrri aðferðin af því tagi að þriðjungurinn af vinnutekjunum er dreginn frá og það eru þá 17 þús. kr. Þá eru eftir 8500 kr. sem koma til greina til frádráttar hjá framfæranda.

Skv. mati ríkisskattstjóra kostar nám hér heima, þegar menn eru heimabúandi, um 90 þús. kr., 91 723. Ef námsmaður hafði þessar 51 þús. kr. í tekjur og hefur ekki tekið nein námslán, verið á framfæri heima hjá sér, þá hefur heimilið skv. þessu mati tekið á sig rúmar 40 þús. kr. Maður hefði þá haldið að þessar 25 500 mættu nýtast til að lækka skatta hjá framfærendum, en svo er ekki. Það má einungis nýta 8500 kr., mismuninn á námsmannafrádrættinum og þriðjungi af vinnutekjum námsmanns. Hvers vegna hafi verið staðnæmst við þriðjung hef ég ekki fengið neinar skýringar á. Þá kemur út að hér geti orðið til frádráttarliður upp á 8500 kr. vegna kostnaðar sem skv. mati ríkisskattstjóra er 41 þús. Þessu á svo að skipta á báða foreldrana eða ef þeir eru tveir framfærendur og þá kemur frádráttarliður á framtalið upp á 4250 kr. Sá maður sem er með jaðarskatt upp á 35% fær hér 1488 kr. í skattafslátt eða í skattalækkun vegna þess að hafa tekið á sig útgjöld upp á 41 700 kr. skv. mati skattstjóra. Ég var svo gáttaður á þessu, svo að ég segi ykkur alveg eins og er, að mér fannst ástæða til að gera þetta að sérstöku umræðuefni. Þegar hið opinbera viðurkennir að heimill hafi orðið fyrir útgjöldum upp á 41 700 kr. er skattalækkunin sem mönnum er boðin út á það 1488 kr. Ég held að þm. hafi ekki verið þetta ljóst. Og í umr. um þetta mál á nefndarfundi og við ýmsa embættismenn viðurkenndu þeir að þessi tala, sem hér væri, námskostnaðarfrádrátturinn, væri svo lág að auðvitað væri spursmál að það tæki því að vera með hana. Það getur ekki verið að foreldri sé eitthvað miklu betur statt út af þessum 1500 kr. eða hafi raunverulega verið tekið tillit til þess að menn voru með börn á framfæri sem kostuðu svona og svona mikið.

Sagan er reyndar ekki alveg öll sögð því að skattakerfið hefur líka fundið upp aðra aðferð til að reikna út kostnað sem getur fallið á framfæranda út af námsmanni. En hún er því miður enn þá óhagstæðari og verða ekki fundin fyrir henni nein einhlít rök. Þar er gengið út frá þessum 91 723 kr., sem er mat á þeim lægsta kostnaði sem fyrir hendi er af því að vera með mann í námi, dóttur eða son, heima hjá sér. Síðan eru vinnutekjurnar í heild dregnar frá þannig að 41 þús. kr. standa aftur þarna til viðmiðunar, þær sem framfærendur tóku á sig. En svo er framhaldið. Síðan á að draga 95% frá þeirri tölu. Þá kemur afgangur sem í þessu dæmi væri 2000 kr. og á að skiptast til helminga á foreldrana. Það er 1000 kr. frádráttur. Það getur verið skattalækkun upp á 500 kr. eða eitthvað slíkt svo að hún var enn þá fjarstæðukenndari.

Nú hefði ég í sjálfu sér haft áhuga á því að finna einhverjar nýjar og réttlátari leiðir í þessu. En það hefur ekki gefist til þess tóm og kostar sjálfsagt frekari athugun. En meðan málið stendur svona finnst mér einhlítt og hafði samráð við embættismenn um það, því að sú tala sem er hér varðandi námskostnað er svo hlægilega lág að það kemur ekkert út úr henni eða mjög lítið, að það sé fyllsta ástæða til að hækka hana. Hvers vegna þá 58 þús. kr., geta menn spurt, frekar en einhver önnur tala? Ég skal viðurkenna að þegar maður stendur frammi fyrir því að geta ekki ráðist algerlega að kerfinu, heldur verður að vinna að því verður maður stundum að stytta sér leið. Ég hefði kannske valið að hér væri enn þá hærri tala. En ég skal segja ykkur hvernig þessi tala, 58 þús., er fundin.

Ég tók þessar 91 700, sem er opinbert mat á því hvað það kosti að vera hér í námi og heimabúandi, og hækkaði hana með tilliti til verðlags um 25%. Þá fæ ég út því sem næst 115 þús. kr. Og ég hugsaði með mér: Það ætti þó a.m.k. að vera óhætt að stíga þetta skref þannig að helmingurinn af þeirri tölu, helmingurinn af 115 þús. eða 58 þús. kr., það væri öruggt, og við værum þá a.m.k. svolítið að liðka til í þessum efnum. Mér er ljóst að þetta er alger lágmarkstillaga, en ég held að með því að samþykkja hana forðum við Alþingi frá því að verða hlægilegt áfram í þessum málum. Ég verð að segja að eins og þessi tala er núna eru þær útkomur, sem ég hef fengið úr þessum dæmum sem ég hef skoðað, nánast af því taginu að Alþingi verður til athlægis.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða öllu frekar um þetta. Það eru margir liðir í þessu frv. til l. og í skattalögunum sem maður hefði vissulega áhuga á því að líta nánar á og margar endurbætur sem maður hefði áhuga á því að gera. En ég hef í þessu máli valið að fylgja meiri hlutanum og láta þetta gott heita að öðru leyti en að því er varðar þetta eina mál sem mér finnst að beri nauðsyn til að breyta strax svo að við séum ekki til athlægis í þessu efni.