18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

2. mál, þjónusta við farþega í innanlandsflugi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið hér, áður en þessari umr. verður frestað, til að þakka hv. þm. og hæstv. ráðh. fyrir þeirra orð og upplýsingar í sambandi við þessi mikilvægu mál.

Ég tek að sjálfsögðu undir það með hæstv. ráðh. að öryggismálin eru þáttur sem ber að hafa í forgrunni í sambandi við flugmálin og flugrekstur og skilyrði í sambandi við flugferðir og einkaleyfi þar að lútandi. En eins og fram kemur í þeirri till. sem ég flyt hér er verið að leggja sérstaka áherslu á að það verði settar inn í flugrekstrarleyfin, inn í sérleyfin, skýrar reglur um skyldur flugfélaganna gagnvart farþegum, þessum stóra fjölda sem skiptir við flugfélögin. Og ég tók eftir því að hæstv. ráðh. tilgreindi engar sérstakar reglur sem í gildi væru um þetta atriði. Ég vænti að það sé ágreiningslaust hjá hv. alþm. að eðlilegt sé að setja slíkar reglur, þannig að aðilar sem fá sérleyfi, hvort sem er til flugs eða til sérleyfisreksturs á bifreiðum í tengslum við flug, séu skuldbundnir um að tryggja ákveðin lágmarksgæði þeirrar þjónustu sem þeir fá sérleyfi til að annast. Ég tel að þessum þáttum hafi verið gerð allt of lítil skil, ekki bara í þessu samhengi heldur gagnvart fleiri aðilum sem fá einkaleyfi hérlendis, það séu gerðar ákveðnar skilmerkilegar kröfur til þeirra um þá þjónustu sem þeir fá einkaleyfi til eða sérleyfi til að annast.

Á þetta vil ég leggja mikla áherslu, og ég fékk ekki séð af skipunarbréfi þeirrar nefndar sem hv. 4. þm. Reykv. er formaður fyrir að henni væri ætlað að taka á þessum þætti. Hitt er mér alveg ljóst og var ljóst við undirbúning þessarar till. að endurbætur á flugvöllum og flugskýlum, fjárfestingar af því tagi féllu undir verksvið nefndarinnar.

Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. samgrh. varðandi áherslur á framkvæmdaþætti varðandi flugvelli. Eins og tekið var inn í skipunarbréf umræddrar nefndar er þar lögð áhersla á framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll og það er ánægjuefni að hæstv. samgrh. skuli setja þá framkvæmd efst á blað nauðsynjamála í sambandi við endurbætur á flugvöllum innanlands. Ástandið á Egilsstaðaflugvelli er með þeim hætti að það minnir nánast á sig á hverju ári þegar fella þarf niður flug þangað vegna ásigkomulags flugbrautar, sem getur verið lokuð dögum saman.

Á sama hátt tek ég undir það sem hér hefur komið fram um nauðsyn þess að bæta aðstæður á Reykjavíkurflugvelli til flugrekstrar með byggingu flugstöðvar og einnig ánægjuefni ef menn eru búnir að taka ákvarðanir í sambandi við staðsetningu slíkrar stöðvar og síðan uppbyggingu.

Vissulega höfum við allsendis ónógu fjármagni úr að spila í sambandi við flugmálin, jafngildur þáttur og þau eru orðin í samgöngum okkar innanlands. Það var ágreiningsefni stjórnarandstöðu, a.m.k. okkar Alþb.manna, við núv. hæstv. ríkisstj. að veita beri uppbyggingu flugstöðvar í Keflavík þann forgang sem ákveðið var með heimild til 600 millj. kr. lántöku, sem samþykkt var hér í des. s.l., á sama tíma og fjárveitingar til fjárfestinga í flugmálum innanlands eru 12 sinnum minni, að ég hygg, en lántökuheimildin vegna flugstöðvar í Keflavík. Mig minnir þessi tala á fjárl. yfirstandandi árs vera röskar 50 millj. kr. samtals til fjárfestinga á flugvöllum landsins. En ég ætla ekki að gera þau atriði að öðru leyti hér að umræðuefni.

Ég legg aðeins að lokum áherslu á að á þessum þætti verði tekið og sú till. sem ég hef hér flutt fái þinglega meðferð og ég vona stuðning því að þeir hagsmunir sem þar er lagt til að verði teknir til meðferðar varða mjög marga eins og tölur vitna um, þá 600 þús. farþega og vel það sem ferðast á flugleiðum hér innanlands.