19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til þess að vekja athygli á því, vegna þeirra orða sem hér hafa fallið, að með þeim frv. sem hér eru flutt hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst að náðst hefur samstaða meðal þeirra manna sem um þessi undanþágumál hafa fjallað á undanförnum árum. Það hefur náðst samstaða um ákveðnar aðgerðir til að vinna sig út úr þeim vanda sem er staðreynd í dag. Að vinna sig frá þeirri staðreynd að fjöldi manna gegnir ábyrgðarmiklum störfum á flotanum á undanþágum. Þetta eru góð tíðindi og á þeim grundvelli einum saman treysti ég mér til að styðja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Ég lít svo á að þar með séu þm. ekki, þó að þeir styðji þessi frv. bæði á þessum forsendum, að lýsa blessun sinni né ánægju með það ástand sem ríkjandi er í skólakerfinu og í menntunarmálum skipstjórnarmanna og vélstjóra, öðru nær.

Ég vil benda hv. 5. þm. Vestf. á, vegna þeirra orða sem hann lét hér falla, að með þessum frv. ganga til baka viss ákvæði til rýmkunar sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi hér í fyrravor. Ég endurtek það að ég treysti mér til, vegna þeirrar samstöðu sem náðst hefur, að styðja þetta sem jákvætt skref í þessum málum.