20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef beðið um orðið hér utan dagskrár til að ræða efni fréttatilkynningar sem utanrrn. sendi frá sér í gær, 19. des., og hafði að geyma það sem kallað er svar ríkisstjórnar Bandaríkjanna við fsp. Geirs Hallgrímssonar utanrrh. varðandi kjarnavopn. Tilefni þessarar fsp. hæstv. utanrrh. til bandarískra stjórnvalda var ljósrit af skjali sem William Arkin frá Institute for Policy studies í Washington afhenti utanrrh. og forsrh. 4. og 5. des. s.l. Skv. þessu skjali, sem talið var komið frá æðstu stjórn Bandaríkjanna, á Bandaríkjaforseti að hafa veitt bandarískum hermálayfirvöldum fortakslausa heimild til að koma megi fyrir kjarnorkuvopnum á Íslandi á ófriðartímum og þá væntanlega að miða hernaðaráætlanir sínar og aðstöðu hér á Íslandi við það.

Á árinu 1975 á þannig að hafa verið um að ræða leyfi þáv. forseta Bandaríkjanna um að flytja mætti 48 kjarnorkudjúpsprengjur til Íslands á ófriðartímum til nota gegn kafbátum. William Arkin staðhæfir að slík heimild hafi verið endurnýjuð árlega og segist hafa séð skjal þar að lútandi varðandi árið 1983 hjá embættismanni Bandaríkjastjórnar.

Ég hóf umr. um þessi mál hér á Alþingi 6. des. s.l. og vísa til þeirrar umr. og spurninga sem ég þá bar upp við hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. og til svara þeirra og útlistana sem skjalfest eru í þingtíðindum. Hæstv. utanrrh. tók þetta mál að vonum alvarlega og hæstv. forsrh. taldi vissulega koma til greina í þessu samhengi að Alþingi tæki af skarið og lýsti því yfir að á Íslandi skuli ekki staðsett kjarnorkuvopn án heimildar íslenskra stjórnvalda. Báðir viku ráðherrarnir sérstaklega að því heimildargagni sem William Arkin hefði afhent þeim og undirstrikuðu nauðsyn þess að fá haldgóðar skýringar á tilvist þess og stærra skjali sem hinn ljósritaði texti tengdist. Um þetta sagði m.a. hæstv. utanrrh. þann 6. des. s.l., með leyfi forseta:

„Ég tók þá afstöðu strax að rétt væri að fá fram skýringar Bandaríkjastjórnar á tilvist þessa skjals og innihaldi áður en ályktanir yrðu dregnar af því sem á þessum fjórum blaðsíðum má sjá. Ég tel það allsendis ófullnægjandi umræðugrundvöll að þessar fjórar blaðsíður einar séu forsenda umr. um svo alvarleg mál sem geymsla og notkun kjarnorkuvopna er. Þess vegna tel ég ekki tímabært að fara langt út í efnisatriði málsins og tel að það verði að bíða þess að frekari upplýsinga sé aflað, sem ég hef þegar gert ráðstafanir til að komi sem allra fyrst.“

Á þetta lagði ráðh. enn frekari áherslu í lok ræðu sinnar, að fyllstu upplýsinga yrði aflað varðandi þau skjöl sem afhent voru honum og forsrh. dagana á undan. Hæstv. forsrh. tók í svipaðan streng.

Ég hef leyft mér að óska eftir því við hæstv. ráðh. og þá sérstaklega utanrrh. að hann svari hér tilteknum spurningum varðandi þetta mál. Þá spyr ég í fyrsta lagi hvernig það erindi hafi hljóðað sem sent var Bandaríkjastjórn í tilefni upplýsinga Williams Arkin. Hver var viðtakandi þessa erindis sem ríkisstj. og hann fyrir hennar hönd sendi og hver er það sem svarar? Hver stendur að baki þessa bréfs sem birt var í fréttatilkynningu utanrrn. í gær? Er það bandarískur ráðherra, ráðuneyti eða er það Bandaríkjaforseti eða einhver fyrir hans hönd?

Í svari bandaríska sendiráðsins kemur fram eins og þar segir orðrétt: „Hefur um langt árabil verið fastmótuð stefna Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna að játa hvorki né neita heimildargildi skjala sem sögð eru trúnaðarskjöl Bandaríkjanna eða bandalagsins.“

Hér er hæstv. utanrrh. greinilega send mjög alvarleg sneið. En ég spyr hann: Hefur ráðh., sem virðist ekki hafa verið ljós þessi fastmótaða stefna þegar hann ræddi þessi mál hér á Alþingi 6. des., nokkra tryggingu fyrir að það plagg, sem William Arkin afhenti honum, hafi ekki verið rétt? Er svar Bandaríkjastjórnar ekki þvert á móti staðfesting á tilvist þessa plaggs og heimildar Bandaríkjaforseta um að miða áætlanir Bandaríkjahers við það að flutt verði kjarnavopn til Íslands á ófriðartímum?

Ég spyr í þriðja lagi: Í ljósi þess að nú kemur fram aðeins ítrekun af hálfu bandarískra stjórnvalda á fyrri ummælum og yfirlýsingum, hvers virði er þetta svar, sem nú er lagt fram, með hliðsjón af því trúnaðargagni sem William Arkin sýndi og afhenti hæstv. utanrrh. og forsrh.?

Ég spyr í fjórða lagi: Eru orðsendingar þær sem gengið hafa á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda ekki staðfesting á nauðsyn þess að Alþingi taki af skarið hið fyrsta með lagasetningu um það efni að aldrei megi staðsetja kjarnorkuvopn hérlendis, hvorki á svonefndum friðar- eða ófriðartímum? Ég inni báða hæstv. ráðh., utanrrh. og forsrh., eftir áliti á þessu.

Ég spyr í síðasta lagi hæstv. utanrrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn til að greina hv. utanrmn. Alþingis frá öllum efnisþáttum þessa máls og afhenda þar þau skjöl sem hann hefur fengið, skjal það sem Arkin afhenti honum og það stærra skjal sem það á að tengjast og gera verður ráð fyrir að hæstv. utanrrh. sjái til að aflað verði og að greina einnig utanrmn. frá þeim viðræðum sem hann hefur átt við bandarísk stjórnvöld, þ. á m. Shultz utanrrh. nú nýlega í Brüssel, væntanlega m.a. um þessi efni. Ég tel brýna nauðsyn til þess bera að fá þessi mál skýrt upplýst og því hef ég borið þessa fsp. fram við hæstv. ráðh., utanrrh. sérstaklega, en vænti þess að forsrh. tjái sig einnig um málið.