18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Svar við síðustu fsp.: Sú skýrsla liggur ekki endanlega fyrir. Hins vegar liggja fyrir allmiklar upplýsingar sem að er unnið í rn. um þessar mundir.

Samstarf við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina er þegar hafið með þeim hætti að við vinnum að því að reyna að fá Alþjóðaheilbrigðisstofnunina til samstarfs og fjárhagslegrar aðstoðar af því hér væri um viðamikið verkefni að ræða sem aðrar þjóðir gætu notið mjög góðs af og þar með starfsemi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Að þessu er unnið og þetta verður eitt af þeim verkefnum sem hinn nýi yfirlæknir tekur við, en hann byrjar í rn. eftir örfáa daga.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um heilsugæslustöðvar og forvarnarstarf. Ég hef fyrir löngu gert mér ljóst að forvarnarstarfið er mjög mikilvægt og tiltölulega ódýrt miðað við margt annað. Á öllum þeim fundum sem ég hélt í sumar vítt og breitt um landið, það voru 14 fundir, gerði ég þessi mál að umræðuefni í yfirlitserindi sem ég flutti. Ég tel að þeir fundir hafi verið mjög gagnlegir sem fræðslufundir fyrir almenning, sveitarstjórnarmenn og síðast en ekki síst starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Enn fremur voru á þessum fundum fluttir fyrirlestrar af sérfræðingum, bæði úr læknastétt og sömuleiðis einnig um rekstur sjúkrahúsa og sjúkrastofnanna, og þar komið mjög ítarlega inn á þessi mál, bæði ég og sömuleiðis þeir allir í sínum erindum á eftir.

Ég tek að mörgu leyti og eiginlega að öllu leyti undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði. Það er nauðsynlegt að ræða í hvaða röð við eigum að taka verkefni fyrir. Þegar ég sagði áðan að ég teldi framhald í hjartalækningum vera að koma á hinum almennu kransæðaskurðlækningum er mér alveg ljóst að meðferð sjaldgæfra hjartasjúkdóma tökum við ekki inn í landið á næstu árum. Við erum það lítið þjóðfélag. En þessi mál voru ítarlega rædd hér á Alþingi og þá voru allir á því og menn sættust á það að fyrsta skrefið væri að koma rannsóknastarfseminni í eðlilegt og fullkomið horf og síðan yrði undinn bráður bugur að því að hefja hjartaskurðlækningar. Enn fremur hefur mjög verið rætt um hina margumtöluðu K-byggingu sem ég hef átt í æðimiklu stríði við fjárlaga- og hagsýslustofnun um eins og fleira. Þau orð sem hv. 3. þm. Reykv. lét falla um þá stofnun ætla ég ekki að verja því ég sæki ekki mikinn læknisfræðilegan fróðleik til hennar, en því miður virðast stundum ekki vera allt of opin augu fyrir því sem nauðsynlegt er að gera og sem hefur einnig fjárhagslegan ávinning þegar fram líða stundir.