20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Í umr. utan dagskrár um þetta mál í Sþ. 6. des. s.l. spurði ég hæstv. utanrrh. fáeinna spurninga sem snerta kjarna þess máls sem hér er til umr. Ég spurði: Hversu ítarlegar og haldgóðar upplýsingar er í reynd að hafa um hlutverk Íslands í vígbúnaði og áætlunum Atlantshafsbandalagsins? Og ég spurði: Hvernig hefur hæstv. ráðh. hugsað sér að sannreyna þær upplýsingar og þau svör sem hann kann að fá í þessu máli? Svör hæstv. ráðh. voru á þessa leið, með leyfi forseta, við fyrri spurningunni:

Ég tel að það sé hægt að fá bæði ítarlegar og haldgóðar upplýsingar um þessi efni ef Íslendingar leita eftir þeim og fylgjast vel með.“

Og við seinni spurningunni:

„Ég tel nauðsynlegt í hverju máli að leita upplýsinga alls staðar þar sem hugsanlegt er að upplýsingar sé að fá. M.a. er unnt með samanburði við aðrar bandalagsþjóðir að sannreyna hvort upplýsingar frá einni þeirra eru réttar, svo ég nefni eitt dæmi.“

Þetta voru svör hæstv. ráðh. 6. des. s.l. Síðan hafa umbeðin svör borist frá Bandaríkjunum. Og nú spyr ég þingheim: Er hér um ítarleg og haldgóð svör að ræða, svör sem hægt er að sannreyna t.d. með samanburði við aðrar bandalagsþjóðir eins og hæstv. ráðh. nefndi hér fyrir tveimur vikum síðan? Fyrir hönd Samtaka um kvennalista svara ég þessum spurningum neitandi. Hér er ekki um slík svör að ræða. Á meðan Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hvorki játa því né neita hvort skjöl séu sönn eða fölsuð, er auðvitað um engin svör að ræða, engar upplýsingar, ekkert sem hægt er að sanna eða afsanna. Hæstv. utanrrh. hefur því í rauninni engin svör fengið við spurningum sínum, aðeins viljayfirlýsingu. Og það er því engan veginn ljóst eins og segir í fréttatilkynningu utanrrn., með leyfi forseta: „Að heimild til geymslu kjarnavopna á Íslandi á ófriðartímum hafi ekki verið veitt.“

Meginmálið er að skjali Arkins hefur hvorki verið játað né neitað. Við höfum ekkert í höndunum nema viljayfirlýsingu og eigum við að treysta slíkum yfirlýsingum frá mönnum sem ekki vilja svara því hvort eitthvað sé satt eða ekki? Slíkt tel ég harla hæpið og varla í samræmi við nokkurt þekkt skynsemislögmál. Ég skora því á hæstv. utanrrh. að láta hér ekki staðar numið í þessu máli, að hann útvegi þær haldgóðu, ítarlegu og sannanlegu upplýsingar sem hann taldi að hægt væri að hafa um þessi mál í ræðu sinni hér á Alþingi 6. des. s.l., ella falli þau orð hans ómerk niður og gengið verði út frá því sem vísu á Alþingi við mótun utanríkisstefnu Íslendinga að slíkar upplýsingar sé ekki að hafa og stefna mótuð skv. því.