20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

238. mál, frestun á fundum Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er höfum við Alþfl.-menn mjög gagnrýnt það misrétti sem virðist hafa magnast í þjóðfélaginu á undanförnum árum og misserum og við höfum bæði fyrr og síðar hvatt til þess að fram færi könnun á tekjuskiptingunni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt um það tillögur hér í þinginu eins og þingheimi á að vera kunnugt. Við erum þess vegna mjög áhugasamir um það að úttekt af því tagi sem hér er gerð að umtalsefni fari fram og ég fagna þeim stuðningi sem hefur komið fram við þetta sjónarmið frá hv. 1. þm. Suðurl.

Það leikur enginn vafi á því að eitt af því sem gerir efnahagsstjórn á Íslandi mjög erfiða um þessar mundir, frekar en oft endranær, er að ákveðnir hlutar þjóðarinnar upplifa það mjög eindregið að misrétti sé mikið og hafi farið vaxandi. Við höfum verið talsmenn þess að ráðist yrði gegn þessu meini og reynt að stefna hér að meiri jöfnuði. Minn skilningur er sá að könnun af því tagi, sem hv. 1. þm. Suðurl. gerir hér till. um að gerð verði, geti verið undirstaðan að frekari aðgerðum í efnahagsmálum, þannig að menn byggi mál sitt á traustum grundvelli. Þess vegna vænti ég þess að sú hugmynd sem hann hefur hér talað fyrir bæði í dag og eins í umr. um stefnuræðu forsrh., hljóti góðar undirtektir í ríkisstj. og forsrh. beiti sér fyrir því að fram fari hlutlæg könnun af þessu tagi sem stjórnarandstaðan eigi aðild að svo að undirstaða hennar verði sem traustust og hún verði ekki vefengd. Við teljum að það muni vera til góðs.