29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

184. mál, fullvinnsla kjötafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Málflutningur og framkoma hæstv. landbrh. út af þessari litlu fsp. er með endemum. Í nóvember er fsp. lögð fyrir hann. Fyrri fsp. er: Hversu mörg tonn af óunnu kjöti eru flutt frá Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum til vinnslu í Reykjavík? Mér skilst að allt landbrn. sé á öðrum endanum síðan í nóv. til að reyna að afla þessara upplýsinga. Ég er nú ekki starfsmaður landbrn., en ég skyldi afla þessara upplýsinga fyrir hæstv. landbrh, á hálftíma. Þetta er einfalt símtal. Hvað hefur mörgu fé verið slátrað? Hver er meðalþyngd? Gróft svar. Kannske þekkir landbrh. indælan mann sem heitir Gunnar Guðbjartsson og er formaður Framleiðsluráðs. Þetta eru þrjú símtöl og reyndar ekki nema eitt. Það er enginn vandi að fá þessar upplýsingar á hálftíma.

Hæstv. landbrh. leyfir sér að færast undan að svara þessu viku eftir viku þótt hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sé að víkja af þingi og verði sennilega ekki nema í hæsta lagi þessa viku. Þó að það hafi verið gerð aths. við þingsköp út af þessum vinnubrögðum ráðh. kemur hann hér í lok janúar og upplýsir að hann hafi ekki getað, því miður, fengið þessar upplýsingar.

Það sem verið er að forðast er að verulegar umr. verði hér um að Sláturfélag Suðurlands er að hefja byggingu á einni stærstu höll í Reykjavík. Fyrirspyrjandi fer varlega í sakirnar. Hann talar um 100–150 millj. Það var nú sumarverð. eins og þeir segja á sláturhúsamáli, eða haustverð. Þetta hefur hækkað síðan. Þetta eru á milli 100 og 200 millj. Þetta er stór höll, upp á 100 þús. rúmmetra. Það má vera að það séu einhverjar greinir um það hvort hægt sé að vinna kjöt í Reykjavík eða á Selfossi, en meginþorra þessa kjöts er mjög auðvelt að vinna á Selfossi og aka eftir steyptum vegi til Reykjavíkur. Það getur verið að einhverjar vörur verði að vinna hér en meginþorrann er hægt að vinna þarna. Ef vefengt er það sem sagt er um þessa höll, þá er Sláturfélagið búið að greiða á aðra milljón í byggingargjald til Reykjavíkurborgar. Það er hægt að fá teikninguna. Það hafa sennilega allir séð hana nema hæstv. landbrh.

Hæstv. landbrh. segir að þetta sé ekki á færi landbrh. Það er aðeins verið að spyrja um hvort rn. hafi gert einhverjar áætlanir, hvort það ætli á einhvern hátt að stuðla að. Það kemur ekkert fram um það. Það er sama þokukennda móðan og þegar hann getur ekki aflað upplýsinga um hvað það hafi mörgu fé verið slátrað á Suðurlandi.

(Forseti hringir.) Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil fyrir hönd Reykjavíkurkjördæmis færa Sláturfélagi Suðurlands og landbrh. þakkir fyrir að hugsa vel um atvinnumál þess með aðgerðarleysi sínu í máli þessu.