29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

118. mál, umhverfismál og náttúruvernd

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Helgi Seljan, Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson.

Mér þætti vænt um það, herra forseti, af því að ég sé nú enga hæstv. ráðh. hér í sal, ef einhver þeirra væri hér í húsinu og gæti verið viðstaddur, t.d. hæstv. félmrh., sem ég sá hér í þingsal ekki fyrir löngu síðan, þar sem hluti þeirra mála sem till. þessi varðar heyrir undir hans rn. og um þau hefur verið fjallað á undanförnum árum á vegum félmrn. þó að ýmis fleiri rn. komi þar við sögu. Efni þessarar þáltill. sem við fjórir þm. Alþb. flytjum er svofellt, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá til þess að undirbúin verði og framkvæmd eftirfarandi atriði til úrbóta í umhverfismálum og náttúruvernd:

1. Í tengslum við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands verði yfirstjórn helstu málaflokka á sviði umhverfisverndar sameinuð í einu rn. ekki síðar en í árslok 1985.

2. Undirbúin verði löggjöf um umhverfismál sem sérstaklega tæki til mengunarvarna á landi, í sjó og í lofti, svo og framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun frá frárennsli og verksmiðjum.

3. Endurskoðuð verði lög nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, m.a. til samræmis við nýja löggjöf um mengunarvarnir (skv. 2. lið) og breytta yfirstjórn umhverfismála (skv. 1. lið).

4. Lagt verði fyrir yfirstandandi Alþingi frv. til nýrra laga um náttúruvernd sem undirbúið hefur verið á vegum Náttúruverndarráðs og stjórnvalda.

5. Gripið verði til samræmdra aðgerða til verndar gróðri með friðun og hóflegri nýtingu eftir því sem við á og komið á virkri stjórn og eftirliti í þessu skyni. Næsta landgræðsluáætlun (1986–1990) verði mótuð með hliðsjón af slíku endurmati og nýjum viðhorfum.

6. Auknar verði rannsóknir á dýrastofnum á landi og í sjó við Ísland og tryggt að við nýtingu þeirra og verndun sé tekið mið af vistfræðilegum sjónarmiðum.

7. Gert verði átak í skipulagsmálum með lagabótum og með langtímasjónarmið í huga og tekið tillit til þess að landið allt er skipulagsskylt. Bætt verði hið fyrsta úr vöntun á kortum og öðrum grunnforsendum svo að unnt sé að koma við nútímalegum vinnuaðferðum við undirbúning og gerð skipulagstillagna.

8. Náttúruverndarráð undirbúi í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Slík áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar og staðfestingar.

9. Mótuð verði opinber stefna í ferðamálum sem feli í sér nauðsynlegar verndaraðgerðir fyrir náttúru landsins með tilliti til breyttra samgönguhátta og aukins ferðamannastraums.

10. Aukin verði fræðsla um íslenska náttúru, umhverfisvernd og auðlindir í fjölmiðlum og skólum, m.a. með því að nýta söfn, friðlýst svæði og náttúrulegt umhverfi við þéttbýli með skipulegum hætti í þessu augnamiði.

Ríkisstj. láti gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun til næstu 10 ára um æskilegar úrbætur skv. ofangreindu og leggi hana fyrir næsta reglulegt Alþingi til að auðvelda stefnumörkun og fjáröflun í þessu skyni.“

Þetta er efni þessarar þáltill. en með henni fylgir grg. þar sem almennt er vikið að þessum málum og einstökum þáttum sem þáltill. vísar til. Ég ætla ekki að taka tíma hv. þd. til þess að fjalla í ítarlegu máli um þá alla, svo sem vert væri þó að gert yrði, en leyfi mér þó að vitna til upphafs grg. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eftir mikla vakningu í umhverfismálum um 1970 og fram eftir síðasta áratug, sem m.a. birtist í lagabótum, margefldum umsvifum Náttúruverndarráðs og þróttmiklu starfi áhugafélaga um náttúruvernd, hafa umhverfis- og náttúruverndarmál lent í öldudal. Má segja að nú ríki ládeyða á þessu sviði miðað við það sem var fyrir nokkrum árum.

Að mati flm. stafar þessi öfugþróun m.a. af því að ekki hefur verið komið á nauðsynlegum endurbótum í stjórnkerfinu varðandi umhverfismál með því að sameina í einu ráðuneyti málaflokka á þessu sviði. Þannig er ábyrgð í umhverfismálum og náttúruvernd nú dreift á flest ráðuneyti og enginn einn ráðh. er öðrum fremur talsmaður umhverfismála. Nauðsynlegar lagabætur í mikilvægum málaflokkum hafa dregist úr hömlu og fjárveitingar til framkvæmda og eftirlits á grundvelli gildandi laga og reglugerða verið alls ónógar.

Í þáltill. þeirri, sem hér er flutt, er lagt til að Alþingi feli ríkisstj. að undirbúa og framkvæma mörg þau atriði sem brýnust eru á sviði umhverfismála og náttúruverndar og móta áætlun um aðgerðir til næstu 10 ára. Verði sú áætlun lögð fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Till. tekur m.a. mið af ályktunum síðustu Náttúruverndarþinga, en á fskj. I er að finna ályktun síðasta Náttúruverndarþings, sem haldið var vorið 1984, svo og ítarlegri samþykkt landsfundar Alþb., sem haldinn var í nóv. 1983, sem varðar umhverfisvernd og auðlindir. Eru þær ályktanir birtar á sérstöku fskj. með till.

Sú leið er valin með flutningi till. að benda á marga þætti, þar sem skórinn kreppir, í stað þess að flytja um þá sjálfstæðar tillögur. Er þá haft í huga að óvíða er jafnmikil þörf á góðri yfirsýn og á sviði umhverfismála og því æskilegt að Alþingi fjalli um þessi mál í samhengi.

Flm. er ljóst að ábendingar í till. eru engan veginn tæmandi og þess er að vænta að í meðferð þingsins bætist sitthvað við sem réttmætt er að taka inn í þennan áhersluramma.“

Fyrsti tölusettur liður þáltill. varðar umhverfisráðuneyti. Ég hef áður rifjað það upp hér við umr. um þessi mál að liðin eru nú nærfellt 13 ár síðan þessu máli var fyrst hreyft á Náttúruverndarþingi hinu fyrsta vorið 1972 og þá að frumkvæði Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Margir hafa orðið til að taka undir þá stefnu í orði, sem þá var mörkuð, og stjórnvöld hafa gert nokkrar atrennur til að koma þessum málum áfram svo sem nauðsynlegt er. Um stöðu þeirra mála á vegum stjórnvalda var rætt hér áðan í tengslum við fsp. sem hæstv. félmrh. svaraði. Ég tel að þessi þáltill. sýni betur en margt annað hvílík nauðsyn er á því að slík samræming eigi sér stað í stjórnkerfinu og hversu tímabært það er raunar fyrir löngu að sérstakt umhverfisráðuneyti verði sett á fót, eins og hér er gerð tillaga um.

Á sérstöku fskj. með till. er að finna yfirlit um málaflokka og stofnanir sem eðlilegt má telja að tengist umhverfisráðuneyti í heild eða að hluta. Er það fskj. IV með till. og á fskj. III er að finna skrá yfir þá mörgu málaflokka og lög á sviði umhverfisverndar sem þessum málum tengjast. Nú hefur það komið fram ítrekað að á vegum ríkisstj. sé unnið að tillögum til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands og raunar boðað að slíkar tillögur sjái dagsins ljós hér á hv. Alþingi innan skamms. Ég hlýt að treysta því, meðan annað ekki kemur fram, að þær tillögur feli í sér þá brýnu samræmingu er varðar umhverfismálin í þá átt sem hér er gerð till. um og ég heiti á hæstv. félmrh., sem hér hlýðir á mitt mál, að vinna að því að svo verði í reynd. Ég tel að sú endurskoðun á Stjórnarráði Íslands sem ríkisstj. hefur haft á dagskrá sé fyllilega tímabært verkefni, en ég legg að sjálfsögðu ekkert mat á þær tillögur sem þar eru í mótun, enda hefur stjórnarandstaðan lítið að því máli komið þó að fulltrúar hennar hafi verið kvaddir á fund viðkomandi nefndar til skrafs á liðnu sumri og kynningar á þeim tillögum sem þá lágu fyrir á vegum þessarar nefndar.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það sem snýr að stofnun umhverfisráðuneytis, en aðeins slá þann varnagla, sem líklegt er að heyrist í gagnrýnisátt gegn stofnun slíks rn., að engan veginn á að þurfa að fylgja því kostnaðarauki eða aukin útgjöld fyrir hið opinbera ef þess er gætt að nauðsynleg hagræðing og endurskipulagning eigi sér jafnframt stað. Hitt væri svo ekki óeðlilegt að til þessa málaflokks, umhverfismálanna, yrði varið auknu fjármagni einnig á stjórnsýslusviðinu á vegum hins opinbera svo mjög sem kreppir þar að á mörgum sviðum.

Varðandi 2. og 3. lið þáltill., þá snýr hann að mengunarlöggjöf og endurskoðun laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Sem kunnugt er eru miklar gloppur í núverandi löggjöf að því er mengunarmál varðar og brýn nauðsyn á því að á þeim málum verði tekið til samræmingar og aukins aðhalds. Ég minni einnig á það, sem fram kemur í grg., að gert er ráð fyrir því að fram fari endurskoðun laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ætti sú endurskoðun raunar að vera vel á veg komin þar sem ráð er fyrir henni gert í gildandi lögum, sem sett voru 1981 og áttu að endurskoðast innan fimm ára. Ég leyfi mér að inna hæstv. félmrh. eftir því hvað líði þeirri endurskoðun laganna og hvet jafnframt til þess að að þeirri endurskoðun verði unnið með tilliti til þess að þessi málaflokkur verði með eðlilegum hætti tengdur öðrum stjórnsýsluþáttum umhverfismála.

Varðandi 4. lið þáltill., endurskoðun laga um náttúruvernd, þá eru nokkur ár síðan slík endurskoðun hafði verið undirbúin. Raunar lá sérstaki endurskoðað frv. að nýjum náttúruverndarlögum frammi til kynningar á 4. Náttúruverndarþingi vorið 1981, en enn hefur slíkt frv. þó ekki verið lagt fyrir Alþingi. Skv. núverandi fyrirkomulagi þeirra mála í stjórnkerfinu er það menntmrn. sem fer með náttúruverndarlögin og framkvæmd þeirra.

Í 5. tölul. er vikið að gróðurvernd og lögum um landgræðslu og atriðum sem þeim tengjast. Þar er einnig um að ræða mikla brotalöm í okkar stjórnkerfi að því er varðar eðlilega framkvæmd gildandi laga um gróðurvernd, þar sem það liggur skýlaust fyrir að þrátt fyrir góðan vilja margra aðila til að draga úr þeirri gróðureyðingu, sem átt hefur sér stað hérlendis um aldir, þá er það álitamál hvort megi sín meir endurgræðsla eða uppblástur. Þau eru mörg og víðlend svæðin á landinu sem tvímælalaust eru ofnýtt og þar sem gróður er á verulegu undanhaldi. Það þarf því nauðsynlega að taka af mun meiri festu á þeim málum en verið hefur. Ég tel að eðlileg hlífð við landið sé sú aðgerð sem árangursríkust yrði og að mestu máli skipti að takist að tryggja að ekki sé um óeðlileg beitarafnot að ræða á landi sem er þegar fullnýtt eða ofnýtt og að brugðist verði við með ákveðnari hætti til varnar þar sem uppblástur er virkur.

Í 6. tölusettum lið þáltill. er fjallað um nýtingu og verndun dýrastofna. Þar er komið að þáttum sem snerta stóra hagsmuni. Þar er bæði vikið að nýtingu fiskistofna okkar og nauðsyninni á að efla hafrannsóknir og gæta þess að haga nýtingu fiskistofnanna sem næst vísindalegri þekkingu og mati á þoli þeirra. En þar er einnig vikið að nýtingu dýrastofna á landi og spendýrastofna í sjó, bæði sela og, hvala, en einnig stofna fugla og spendýra á landi. Ég ætla hér ekki að gera þau mál að umræðuefni, svo kært sem það stundum hefur orðið og notadrjúgt til umr. hér á Alþingi, en legg á það áherslu að á þessum málum, stjórnun dýrastofnanna, þarf að taka á grundvelli bestu þekkingar og að bæta úr með rannsóknum þar sem þekking er ónóg. Það skortir vissulega verulega á að svo sé í mjög mörgum efnum og umræða um þessi mál einkennist því miður oft af fordómum og vöntun á nauðsynlegri yfirsýn.

Í 7. tölusettum lið þáltill. er vikið að skipulagsmálunum og nauðsyn þess að unnið sé að þeim í ljósi þeirra ákvæða gildandi laga að allt landið er nú skipulagsskylt. Í því sambandi vil ég leyfa mér að inna hæstv. félmrh. eftir því hvernig háttað sé undirbúningi að aðgerðum í sambandi við þessi mál.

Lög til nýrra skipulagslaga hafa lengi verið í undirbúningi og áætlanir sem þeim tengjast þarf að sjálfsögðu að vinna. Náttúruverndarráð hefur fyrir sitt leyti sinnt skipulagsmálum kannske virkar en margir aðrir með.gerð náttúruminjaskrár og ákvörðunum um friðlýsingu sem teknar hafa verið að tillögum Náttúruverndarráðs. En í rauninni þurfa allir nýtingarþættir að koma inn í þessa skipulagsvinnu og þar vantar mikið á að menn hafi safnað nauðsynlegum tiltækum gögnum til þess að unnt sé að koma við þeirri landnotkun eða landnýtingu sem æskileg getur talist og víðtæk samstaða þarf að takast um.

Kortagerðin í landinu er Akkilesarhæll þessarar vinnu. Það vantar mjög mikið á að fyrir liggi þau grunnkort af landinu sem í rauninni þyrftu að vera til staðar til að unnt sé að standa að mótun heilstæðs skipulags með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Ég tel því að málefni Landmælinga Íslands séu einn sá þáttur sem taka þarf til róttækrar endurskoðunar í tengslum við skipulagsmálin.

Í 8. lið till. er vikið að verndun fossa og hvera. Þar er komið að sérstökum þáttum náttúruminja sem tengjast áætlunum m.a. og ekki síst um orkunýtingu og virkjanir í landinu. Þar hefur Náttúruverndarráð lagt fram allverulega vinnu og undirbúning með athugunum og tillögum af sinni hálfu, en nauðsynlegt er að mínu mati að tekið sé á þessum málum af meiri festu en hingað til og Alþingi hlutist til um það að mótaðar verði áætlanir um verndun og hugsanlega nýtingu er tengist þessum verðmætum, fossum landsins, vatnsföllum og hverasvæðum, þannig að ekki sé gengið nær þeim en víðtæk samstaða getur tekist um og réttlætanlegt er frá náttúruverndarsjónarmiði.

Í 9. lið till. er fjallað um ferðamál og umhverfisvernd. Það er mjög til umr. og er ekki óeðlilegt að ferðamennska geti verið vaxandi þáttur í okkar þjóðlífi og skapað hér undirstöðu í atvinnulífi til viðbótar við það sem fyrir er. Ég vil ekki draga úr möguleikum að því leyti. Gildir það bæði um ferðir okkar Íslendinga um eigið land og þeirra útlendinga sem okkur vilja heimsækja. En ef réttlætanlegt er að vinna að eflingu ferðamennsku sem atvinnurekstrar í landinu verða stjórnvöld líka að vera reiðubúin að kosta til því sem þarf til þess að sú starfsemi fari fram án þess að landið líði fyrir það og þau verðmæti sem ferðamaðurinn í reynd er að sækjast eftir. Og ég slæ varnagla í sambandi við það að hér sé efnt til aukinnar ferðamennsku og komu útlendra ferðahópa til landsins nema menn séu reiðubúnir að leggja það fram sem þarf til þess að unnt sé að standa að þeirri umferð með þeim hætti að landi bíði ekki hnekki af.

Í 10. og síðasta tölusettum lið þessarar till. er vikið að umhverfisfræðslu. Það mál var til sérstakrar umr. á 5. Náttúruverndarþingi vorið 1984 og því voru gerð mjög góð skil í erindi sem þar var flutt. Í rauninni er fræðsla eitt mikilvægasta tækið í hverjum málaflokki og það varðar ekki síst umhverfismálin. Vissulega hefur nokkuð verið að gert til að bæta stöðu þeirra mála í fræðslukerfi landsins í grunnskólum, m.a. með bættu kennsluefni, en nauðsynlegt er þó að herða þar mjög verulega róðurinn. Möguleikarnir á því að koma slíkri fræðslu við bæði innan skólakerfis og með starfi áhugamanna og sveitarfélaga er fyrir hendi aðeins ef viljinn er til staðar. Það þarf hins vegar að taka tillit til þessarar nauðsynjar í sambandi við skipulag, ekki síst innan þéttbýlisstaða og í næsta nágrenni þeirra, því að það er afar mikilvægt að uppvaxandi kynslóð eigi kost á því að njóta og kynnast náttúrlegu umhverfi sem næst sínum uppvaxtarstöðvum, sem næst sínum heimilum.

Um umhverfisvernd gildir svipað og um heilsugæslu, að fyrirbyggjandi aðgerðir skila bestum árangri og kosta minnst til lengri tíma litið. Ef brugðist er við á þeim sviðum sem að er vikið í þessari þáltill. er unnt í senn að bæta úr mörgu í umhverfismálum og náttúruvernd í tíð núlifandi kynslóða. Alþingi þarf hér nauðsynlega að vísa veginn og tryggja almannahagsmuni og verndun íslenskrar náttúru. Ég vísa að öðru leyti til grg. með þáltill. og þeirra mörgu fskj. sem rétt var talið að láta fylgja henni til þess að auðvelda hv. þm. umfjöllun um þetta mál.

Ég legg til að eftir að umr. hefur verið frestað um till. verði henni vísað til hv. allshn. og vænti að hún fái hljómgrunn og framgang á yfirstandandi þingi.