31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hefur kvatt sér hljóðs í dag hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson og borið fsp. fyrir hæstv. iðnrh. Ég hef ekki setið hér lengi á þingi, þetta er 6. þingið sem ég sit. Ég man sjaldan eftir því að einum alþm. hafi verið tekið með öðrum eins skætingi og hæstv. iðnrh. leyfði sér að hafa í frammi í umr. áðan. Hann svaraði í rauninni engu af því sem borið hafði verið fram og fór með gassa og stóryrðum bæði um þann hv. þm. sem fsp. bar fram, en einnig um hv. ýmsa fjarstadda þm. sem ekki hafa aðstöðu til að svara hæstv. ráðh., og vissi hann þó gjörla sjálfur skv. samtali sem ég átti við hann í gær að þeir menn hefðu ekki kost á því að bera hönd fyrir höfuð sér.

Þetta er kækur núv. hæstv. ráðh. Þegar eitthvert mál kemur upp á leggur hann yfirleitt leið sína austur á land og kennir forvera sínum um hlutina. Það er alveg sama hvað það er. Þegar hann er rökþrota, eins og hann er í þessu máli, grípur hann til þess, eins og Morgunblaðið yfirleitt, að segja: Þetta er allt saman Hjörleifi að kenna. Þetta er skífa sem er orðin nokkuð slitin. Hún er a.m.k. ekki brúkleg í umr. hér þegar sá forveri hans sem hann hér nefndi er fjarstaddur og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Við erum ýmsu vön af núv. hæstv. iðnrh. þegar hann fer hér upp með gassa og skætingi, en hann sló eigið met hér í ræðustólnum áðan.

Ég ætla ekki að blanda mér í þessa umr. með langri ræðu og ætla að virða tilmæli hæstv. forseta um að stytta mál mitt eins og kostur er. Ég ætla hins vegar í fyrsta lagi að vekja athygli á þeirri lítilsvirðingu sem kemur fram í máli hæstv. iðnrh. í garð vísindamanna okkar og þeirri lítilsvirðingu sem kom fram í máli hv. þm. Björns Dagbjartssonar í garð vísindamanna okkar sömuleiðis, sem hann kallaði gæðinga Háskólans sem væru aðallega að skemmta sér norður í landi. Hvað ætli þessir menn hafi nú verið að skemmta sér við? Þeir hafa verið að fara yfir, margir af þeim mönnum sem talað er um með þessum hætti, rannsóknir á þessu svæði og þeir hafa gefið út um það ítarlegar skýrslur sem liggja fyrir í þykkum doðröntum. Hæstv. iðnrn. hefði átt að sjá sóma sinn í að kynna sér þá áður en hann gaf þetta leyfi út. En svo virðist sem hæstv. ráðh. hafi ekki hugmynd um það að þessar rannsóknir séu til. A.m.k. fullyrti hann hér áðan að hann hefði ekkert ráðfært sig við náttúrufræðinga af því að þeir viti ekkert um málið.

Frá 1970 hafa verið í gangi rannsóknir á þessu svæði, fyrst á vegum iðnrn. en síðan hafa margir aðrir aðilar komið þar við sögu. Ég nefni þar Háskóla Íslands og Líffræðistofnun Háskóla Íslands, ég nefni þar Vísindasjóð, Þjóðhátíðarsjóð og ég nefni þar Kaupmannahafnarháskóla og það mætti nefna fleiri. Það er fjöldinn allur af vísindamönnum sem hefur fjallað um þetta merkilega svæði, en þegar iðnrn. á Íslandi gefur út leyfi kemur hæstv. ráðh. hér í stólinn og segir: Nei, ég hafði nú ekki mikið við þessa menn að tala vegna þess að það hefur ekkert verið unnið á þeirra vegum. Þeir vita ekki neitt.

M.a. hafa þessir aðilar gefið út tvær ítarlegar skýrslur, þá seinni á árinu 1984, um þetta svæði og í þeim skýrslum eru grunnrannsóknir, ekki neinar málamyndarannsóknir eða athuganir, eins og hæstv. ráðh. var að hafa í flimtingum áðan. Í skýrslunni sem er gefin út á árinu 1984, er að finna greinargerðir eftir u.þ.b. einn tug vísindamanna og í eldri skýrslu, sem kom út nokkrum árum fyrr, er einnig að finna ítarlegar greinargerðir um niðurstöður vísindamanna. Og það má benda á það hæstv. iðnrh. til fróðleiks að Skandínavíska vistfræðitímaritið Oikos fjallaði árið 1979 einvörðungu um þetta svæði í vönduðum greinum eftir íslenska og erlenda sérfræðinga sem höfðu kynnt sér þessi mál. Af þessu sést að það er með öllu fjarstæðukennt fyrir hæstv. iðnrh. að halda því fram, sem hann gerði áðan, að það séu engar rannsóknir og engar athuganir til á þessu svæði og þess vegna hafi hann ekki þurft að tala við náttúrufræðinga, enda er það svo að Náttúruverndarráð byggir sína niðurstöðu einmitt á áliti þessara athugana og í bréfi Náttúruverndarráðs, sem er dags. 18. des., til iðnrn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en ég hygg að það bréf hafi ekki verið lesið hér enn og því nauðsynlegt að halda því hér til haga:

„Í bréfi iðnrn. frá 1. okt. s.l. er óskað umsagnar Náttúruverndarráðs varðandi endurnýjun á námaleyfi Kísiliðjunnar hf. við Mývatn. Náttúruverndarráð hefur nú fjallað um ósk rn. og ákveðið að mæla með framlengingu námaleyfis Kísiliðjunnar til fimm ára, eða til ársins 1991, ef ákveðnum skilyrðum verður fullnægt. Ráðið getur ekki mælt með lengri framlengingu a) vegna þess að sýnt þykir að kísilgúrvinnsla hafi veruleg áhrif á lífríki vatnsins, b) vegna mikilvægis Mývatns í náttúru landsins og Evrópu, c) vegna þess hve rannsóknir á Mývatni eru skammt á veg komnar, d) vegna þeirrar alþjóðlegu ábyrgðar á vernd Mývatns sem Íslendingar tóku á sig við undirritun Ramsar-sáttmálans.“

Hér er um að ræða þau aðalatriði sem Náttúruverndarráð hefur fram að færa til rökstuðnings því að ekki sé rétt að veita leyfi til lengri tíma en fimm ára.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson, sem mun vera þm. þess kjördæmis sem hér um ræðir, Norðurl. e., lýsti því áðan að það væri merkilegt að menn væru að vitna í þennan Ramsar-sáttmála, sem var gerður í Íran 2. febr. 1971, og hann vitnaði þannig til hans að þetta væri ekki mjög merkilegt plagg. Þetta væri eitt af þessum plöggum sem UNESCO væri alltaf að gefa út. Þá man ég eftir því að hv. þm. var einn af þeim sem greiddu atkv. á móti fjárveitingum til UNESCO við afgreiðslu fjárlaga núna í vetur. Það sýnir hug hans til þessarar stofnunar. En er þetta bara einhver snepill sem Alþingi á ekki að gera mikið með? Svo vill til að hv. Alþingi Íslendinga hefur staðfest þennan sáttmála þó að hann sé gerður í Ramsar í Íran og að undirlagi UNESCO. Þessi sáttmáli var samþykktur á Alþingi 4. maí f977 og þar sem hv. þm. hefur hann ekki við höndina hef ég gert ráðstafanir til að útvega honum þennan sáttmála og rétti honum hann hér með yfir á borð þm. þannig að hann megi kynna sér þetta plagg. Sömuleiðis skal ég gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðnrh. fái þetta plagg í hendur til þess að hann megi kynna sér hvaða alþjóðlegar skuldbindingar það eru sem Íslendingar hafa gerst aðilar að í þessum efnum.

Hæstv. iðnrh. segir í ræðu sinni að leyfið sé eins og 1966 og eins og þá þurfi ekki frekari vitnanna við. Ætli lögin hafi ekki verið samþykkt hér mörgum árum seinna? Mér finnst að tilvitnunin í árið 1966 sýni virðingarleysi hæstv. iðnrh. við lögin frá 1974 og skilningsleysi hans á því að með þeim lögum um verndun svæðisins tók löggjafinn af skarið með afgerandi hætti.

Ég ætla hér, herra forseti, að gera aðallega að umtalsefni þá skoðun hæstv. ráðh. að lögin taki í raun og veru aðeins til nýrra framkvæmda og mannvirkjagerðar. Það eru rökin. Hæstv. ráðh. segir að lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu fjalli aðeins um ný mannvirki, nýjar framkvæmdir á svæðinu, en ekkert annað og þ. á m. ekki um botninn og ekki um það rask sem hugsanlega yrði á honum. Ég fullyrði það úr þessum ræðustól, að þessi lagatúlkun hæstv. iðnrh. er hæpin að ekki sé meira sagt. Og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef Náttúruverndarráð og menntmrn. ætla að tryggja að þessi lög séu meira en pappírsins virði, að fara í mál við iðnrn. út af þessari leyfisveitingu til þess að tekin verði af öll tvímæli um hver hefur valdið í þessu efni. Ef lögin eru eins og hæstv. iðnrh. heldur fram, þá eru þau gagnslaus sem náttúruverndarlög. Og ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Er það svo að þessi mál hafi verið tekin fyrir í ríkisstj? Ríkisstj. er að vísu þannig skipuð að hver ráðh. hefur vald á sínu málssviði. En ég tók eftir því að hæstv. iðnrh. sagði þegar hann var spurður um menntmrh. í þessu efni, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hef sýnt menntmrh. þetta og ekki meira um það.“

Ekki kom það fram hjá hæstv. ráðh. hvaða skoðun hæstv. menntmrh. hefur á þessu máli. skyldi hæstv. menntmrh. ekki hafa neina skoðun á málinu? Ég trúi því ekki. Ég fer fram á það að ráðh. iðnaðarmála svari því hér á eftir: Var þetta mál einhvern tíma borið upp í ríkisstj.? Var það einhvern tíma kynnt í ríkisstj.? Og hver er afstaða hæstv. menntmrh.? Mér er tjáð að hæstv. menntmrh. sé erlendis eða a.m.k. með fjarvistarleyfi í dag. Hver gegnir störfum menntmrh. í dag? Vill sá ráðh. koma hér og svara fyrir menntmrn. í þessu máli? Er það kannske hæstv. iðnrh. sem gegnir í dag störfum menntmrh.? Ræddi hann þetta mál við sjálfan sig? Er það skýringin á þeim snubbóttu aths. sem hann hafði um menntmrh. hér áðan?

Ég held að þetta, herra forseti, sé kjarni þessa máls. Eru lögin um verndun Mývatns og Laxár einhvers virði eða eru þau aðeins ómerkilegt pappírsgagn og ekki meira virði en pappírinn sem þau eru prentuð á? Ég tel að afstaða iðnrh. bendi til þess að hann telji lögin í rauninni einskis virði og marklaus.

Hæstv. iðnrh. ber mönnum á brýn hér í umr. að það sé verið að leyna staðreyndum, m.a. því að þeir sem skrifa undir bréf landeigenda frá 16. jan. 1985 séu eingöngu að fjalla um efnistöku í svokölluðum Syðri-Flóa og í rauninni sé útúrsnúningur að nefna hann í þessu sambandi. En ég vek athygli hæstv. ráðh. á því, ef hann hefur ekki tekið eftir því, að leyfið er ekki aðeins um efnistöku á Ytri-Flóa. Leyfið er ótakmarkað fyrir allt Mývatnssvæðið og í rauninni gengur þetta leyfi óvenjulangt að því leytinu til að það er ekki aðeins um að ræða réttindi til efnistöku í þeim hluta kísilgúrnámunnar í Mývatni sem liggur utan netalaga, heldur er einnig gert ráð fyrir því að það verði hægt að semja um efnistöku innan netalaga, og í þessum plöggum kemur það einnig fram að þegar hafi verið gerðir samningar um efnistöku innan netalaga nyrst á svæðinu. Og ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Er honum kunnugt um hvað greitt var fyrir þá efnistöku sem hugsanlega færi fram innan netalaga, hvernig þeir samningar eru sem landeigendur hafa þar gert við umrætt fyrirtæki?

Í rauninni er talið svo þrengt að svæðinu á Ytri-Flóa að óhugsandi sé að ná þar efni í 15 ár nema það verði gengið svo að þessu svæði að það beri þess aldrei bætur og þess vegna þýði 15 ára leyfi í raun og veru að það sé verið að leyfa efnistöku á Syðri-Flóa. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að þessu og hverju hann svarar þessum aths.

Ég vil einnig spyrja hæstv. iðnrh. um eitt atriði, þar sem mér sýnist að verið sé að reyna að fara á bak við menn, og ég vil spyrja ráðh. beint út um það atriði. Það er tölul. 3 í plagginu frá 30. jan. 1985 sem heitir „Iðnaðarráðherra gerir kunnugt“, en þar segir í tölul. 3, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnrh. er heimilt að endurskoða skilmála leyfis þessa verði verulegar breytingar til hins verra á dýralífi eða gróðri við Mývatn sem rekja má til námurekstrarins og hafi í för með sér alvarleg og varanleg áhrif til hins verra á dýralíf og gróður Mývatns.“

Í þessu stendur ekki að iðnrh. hafi heimild til að svipta leyfi. Það stendur aðeins í þessu að iðnrh. hafi heimild til að endurskoða skilmála. lítur iðnrh. svo á að hann hafi þrátt fyrir þetta bréf heimild til að svipta fyrirtækið vinnsluleyfi? Ég vil að svör hans í þessu efni liggi hér fyrir þannig að þau megi færa í þingtíðindi svo að þar fari ekkert á milli mála.

Hæstv. iðnrh. veitist svo að mönnum fyrir það að þeir hafi tekið þetta mál of snemma upp. Það finnst mér nokkuð sérkennilegt satt að segja. Ef eitthvað er, þá er það fullseint sem við hér á Alþingi tökum á þessu máli. Við hefðum átt að gera það fyrir löngu. En einkum gagnrýnir hæstv. ráðh. að bréfið hafi verið skrifað í gær og skv. póstsamgöngum komist það ekki strax og við hefðum átt að bíða eftir því að tryggt yrði að bréfið kæmist á leiðarenda áður en málið yrði rætt utan dagskrár.

Blað nokkurt heitir Morgunblað og ég veit að hæstv. ráðh. er það ekki alltaf kært að vitnað sé í það blað, en það er þó óhjákvæmilegt að gera það hér að gefnu tilefni. Í dag er 31. janúar og í gær hafði hæstv. iðnrh. viðtal við Morgunblaðið og sagði þar frá öllu því sem stendur í því bréfi sem hann sendi norður og er að skamma hv. þm. Guðmund Einarsson fyrir að taka hér upp. Ef einhver kann sig ekki í þessu máli er það hæstv. iðnrh. ellegar þá blaðið, sem hann talar við, sem hann veit eins og ég að er oft vont blað, en það þýðir ekki fyrir hann að vera að skjóta sér á bak við það því að hann hefur örugglega vitað hvað hann var að gera þegar hann talaði við blaðið í gær. Það er sérkennilegt að koma hér upp með gassa gegn hv. þm. út af þessu máli, þegar hann sjálfur hefur í málgagni sínu, þó honum líki það misvel, greint frá málinu í smáatriðum. Námaleyfi endurnýjað til 15 ára stendur þar og þar er náttúrlega passað að setja í undirfyrirsögn að það eigi að tryggja fjármuni til rannsóknastarfa við Mývatn skv. þessu námaleyfi. Bréfinu sem hann sendi í gær og kemst ekki norður fyrr en á morgun eða kannske á mánudaginn og er verið að ræða hér hefur hann forustu um að koma í Morgunblaðið í dag. Hann er ekki fyrr búinn að skrifa undir en hann hringir í vini sína á Morgunblaðinu til að tryggja að þetta komi út í 40 þús. eintökum til landsmanna allra burtséð frá því hvort pappírinn er kominn í hendur á viðtakendum eða ekki. Ég held að iðnrh. fari illa að vera að skattyrðast við þm. út af broti á einhverjum siðareglum þegar hann gengur fram með þeim hætti sem raun ber vitni um.

Herra forseti. Aðalatriði málsins er það í mínum huga: Er Náttúruverndarráð myndug stofnun? Eru lögin um verndun Laxár og Mývatnssvæðisins einhvers virði eða ekki? Iðnrh. hefur sagt: Þau eru ekki pappírsins virði. Ég fer mínu fram hvað sem þessum lögum líður. — Það er kjarni málsins og svo líka hitt að lokum, herra forseti: Þegar kemur að því að vernda heildarhagsmuni þjóðarinnar, og mér liggur við að segja þjóðanna, eins og hér eru í húfi, eru skammtímasjónarmið fjármagnsins ævinlega tekin fram yfir. Það er ekki nýtt að núv. ríkisstj. geri það. Þetta er enn ein staðfestingin á því hvernig hún hagar málum sínum þegar henni var útlátalaust að fallast á tillögur Náttúruverndarráðs. Það hefur engin skýring komið fram af hálfu iðnrh. á því af hverju honum lá þessi ósköp á að gefa út þetta leyfi. Hann hefur enga skýringu gefið á því. Og ég vil endurtaka þá spurningu sem fram var komin í þeim efnum: Hvernig stóð á því að það þurfti endilega núna að gefa þetta leyfi út þegar umræður og viðræður um þessi mál eru í miðjum klíðum? Það er ekki of sagt að hér hafi verið illa farið með vald. Ég vænti þess að þessi umr. verði til þess að hæstv. iðnrh. geri sér ljóst að það eru hér vafalaust margir þm., einnig í hans flokki, sem telja að hérna hefði átt að fara varlegar að hlutunum. Ef Náttúruverndarráð verður einskis virt í þessu efni, ef lögin um verndum svæðisins er einskis metin, þá er greinilegt að Alþingi verður að taka af skarið á ný. Þá verður að flytja hér á Alþingi frv. til 1. um breyt. á lögum um verndun Laxár og Mývatnssvæðisins sem taka af öll tvímæli um að óheimilt sé fyrir ráðh. að fara fram með gassagangi eins og hæstv. núv. iðnrh. hefur gert.