04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Frv. það er hér hefur verið lagt fram, um flutningsjöfnunarsjóð olíu og bensíns, boðar óneitanlega nokkra breytingu frá gildandi lögum. Meginbreytingin er sú að fallið verði frá svokölluðu verðjöfnunargjaldi, sem í gildi hefur verið frá 1953, en í staðinn tekinn upp flutningsjöfnunarsjóður eins og þessi póstur nefnist í frv.

Ég vildi fara um þetta nokkrum orðum. Hér er svo veigamikill málaflokkur á ferðinni, svo stórt atriði í okkar þjóðarbúskap, olíuverð og hvernig það er samsett og hvernig með það farið, að það er rétt að við glöggvum okkur aðeins á því hvað hér er um að ræða. Verðlagning á olíu og bensíni hefur verið mjög til umr. að undanförnu, einkum eftir að beiðni olíufélaganna um verulega hækkun á þessum vörum kom fram nú fyrir skömmu. Almenningi gengur illa að skilja þær röksemdir sem liggja til grundvallar slíkum hækkunarbeiðnum þar sem olíuverð virðist hafa farið lækkandi á heimsmarkaði, að undanskildum nokkrum dögum nú í janúarmánuði þegar olía hækkaði í verði á Rotterdammarkaði vegna kuldakastanna í Evrópu.

Í grein Vilhjálms Jónssonar, forstjóra ESSO, sem hann ritar í Morgunblaðið 31. janúar, kemur fram að á s.l. ári fluttum við til landsins 499 þús. tonn af olíuvörum í heilum förmum. Þar af voru 329 þús. tonn frá Rússlandi, eða 66%, og frá Vestur-Evrópu 170 þús. tonn eða 34%. Af þessu var gasolía 214 þús. tonn, þar af 125 þús. tonn frá Rússlandi en 89 þús. tonn frá Hollandi og Portúgal. Öll svartolían, 130 þús. tonn, var flutt frá Rússlandi. Verðlagning á olíu varðar þjóðina alla miklu, eins og ég sagði áðan, en ekki hvað síst okkar undirstöðuatvinnuveg, sjávarútveginn. Útgerðin notar rösklega 50% af allri gasolíu og svartolíu sem flutt er til landsins og vegur olíukostnaður mjög þungt í rekstri skipa. Það má segja að það sé vægt áætlað 30–35% af útgerðarkostnaði stærri báta og togara. Einnig nota loðnubræðslurnar verulegt magn af svartolíu. Miðað við þann aflakvóta sem nú er búið að afgreiða, sem er ca. 800 þús. tonn á ársgrundvelli, má ætla að til þeirra nota fari 35–40 þús. tonn. Við þær aðstæður sem enn þá eru í okkar verksmiðjum má ætla að það þurfi frá 40 og allt að 50 kg á hvert hráefnistonn sem unnið er.

Ég vil benda hv. þm. á að þetta er einn dýrasti rekstrarliðurinn í loðnubræðslunum. Og þetta hefur veruleg áhrif á hráefnisverðið, það sem greitt er fyrir loðnuna. Oft er haft á orði að við greiðum hér mun lakara verð en annars staðar bæði fyrir þennan fisk og annan. Það er rétt að benda á að einmitt þessi póstur vegur mjög þungt í þeirri verðlagningu og væri hægt að borga betur fyrir hráefnið ef við byggjum við sömu skilyrði í þessum efnum og þær erlendu verksmiðjur sem hafa verið að keppa við okkur undanfarið, eins og dönsku verksmiðjurnar síðast í haust. Ætla má að við borgum nálægt 35% meira fyrir olíu en borgað er fyrir hana erlendis.

Það er þess vegna eðlilegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, einkum útgerðarþátturinn, leiti mjög eftir haldbærum skýringum á þessari verðlagningu. Það er nauðsynlegt og hollt fyrir alla að líta yfir það svið og reyna að kynna sér hvernig þetta er saman sett.

Á s.l. hausti skipaði stjórn LÍÚ starfshóp til að fara ofan í þessi mál og kynna sér verðlagninguna og hvaða þættir þar væru helstir sem mætti e.t.v. hafa áhrif á. Þetta kom fram frá síðasta aðalfundi landssambandsins nú í haust. Ég er með skýrsluna hér undir höndum og vildi leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna lítillega í það hvað þessi nefnd hafði um þetta að segja. Það yrði málinu nokkuð til glöggvunar.

Í fyrsta lið, sem heitir „Verðjöfnun á gasolíu og svartolíu,“ segir:

„Ætla má að miðað við núverandi verðlagningu“ — Þarna er átt við verðlagninguna frá því í júní 1984 þegar verð á gasolíunni var 8,90 kr. og á svartolíunni 8 100 kr. tonnið. — „Ætla má að með núverandi verðlagningu nemi greiðslur í verðjöfnunarsjóð gasolíu um 125 millj. kr. á ári og í verðjöfnunarsjóð svartolíu 70.5 millj. kr., eða samtals 195.5 millj. kr. á ári. Til samanburðar má geta þess að á árinu 1982 námu útgjöld verðjöfnunarsjóðsins vegna þessara tegunda um 60 millj. kr. sem skiptist þannig að útgjöld vegna gasolíu námu 41 millj. kr. og vegna svartolíu um 19 millj. kr. Þannig hefur verðjöfnunargjaldið vegna gasolíu hækkað um 206% á þessu tímabili og vegna svartolíu um 268%. Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um ca. 100%. Þannig hefur kaupgjald hækkað um 75.9%, en meðalgengi erlendra mynta hækkað um 115%.

Á þessari gífurlegu umframhækkun verðjöfnunargjaldsins hafa engar viðhlítandi skýringar fengist aðrar en þær að flutningstaxtar skipa olíufélaganna hafa verið hækkaðir í hlutfalli við flutningstaxta skipafélaganna. Það er skoðun LÍÚ að þessi hækkun verðjöfnunargjalds umfram verðlagsþróun, sem nemur á bilinu 74–80 millj. kr. á ári, sé í raun dulin viðbótarálagning á olíuvörur. Af þeim 195.5 millj. kr. sem verðjöfnunargjaldið nemur er hlutur íslenskra fiskiskipa rúmar 100 millj.“

Hér má geta þess að heildarkaup útvegsins á olíuvörum s.l. ár voru um 2 milljarðar, ef ég man rétt. Þarna er vegið þungt að ákveðnum aðilum, látið að því liggja að þaðan sé eitthvað ekki í lagi með þetta verðjöfnunargjald. Við komum nánar að því síðar. Ég vitna aftur í umrædda skýrslu, 4. lið:

Miðað við núverandi verðlagningu á olíu (júníverðið) og það magn sem fiskiskip keyptu á árinu 1983 eru opinberar álögur eftirfarandi á gasolíu og svartolíu:

1. Bein gjöld til ríkisins. Það eru magntollur, sem er sáralítill, eða 8921 kr., og innflutningsgjald eru 2 372 700 kr.

2. Óbein gjöld til ríkisins. Mismunur á kaup- og sölugengi, sem er frekar bankamál en ríkismál, er að upphæð 1 530 916 kr. Leyfisgjald er upp á 939 563 kr., en ef ég man rétt var það fellt niður af hæstv. viðskrh. nú fyrir síðustu áramót, enda var það, ef ég man rétt, ekki nema 1 eyrir af lítra. Bankakostnaður er þarna talinn verða 10 795 754 kr.

3. Önnur gjöld. Vörugjald má segja eingöngu bundið við Reykjavíkurhöfn sem er innflutningshöfnin fyrir þessar vörur. Þar er vörugjaldið upp á 4 621 108 kr. og landsútsvarið upp á 22 916 311 kr.

Samtals leggjast á olíu í þessum liðum, sem fiskiskipaflotinn notar, 43 185 273 kr.

Ég les þetta hér upp bara til skýringar svo að við getum frekar glöggvað okkur á málum. En ég vil taka það fram að þarna er um stórar upphæðir að ræða og vegur þar þyngst landsútsvarið. Ég ætla þó ekki að leggja til að það verði fellt niður sem slíkt því að sveitarfélögin geta ekki lagt á olíufélögin neitt annað en landsútsvarið.

En það er annað sem væri forvitnilegt að vita: Hvernig er þetta verð samsett? Hvernig er verðið samsett sem myndar þennan umdeilda póst allan sem heitir verð á olíuvörum? Verðið sem er enn þá í gildi á gasolíu þó að búið sé að sækja um meira, er 10,70 kr. Það flokkast þannig að cif-verð olíunnar er 8,28 kr. Leyfisgjaldið er 1 eyrir en það er búið að fella það út. Verðjöfnunargjaldið er 52 aurar, bankakostnaður 10 aurar, álagning 1,02 kr. á lítra, vörugjaldið 2 aurar, tollar og innflutningsgjöld 2 aurar, landsútsvar 14 aurar, uppskipun og geymsluleki 8 aurar og innkaupajöfnunarreikningur sá margumtalaði 52 aurar. Samtals gerir þetta 10,70 kr. Af þessu má sjá að um marga pósta er að ræða sem þarna koma til greina. Svipað er að segja um svartolíuna þannig að ég ætla ekkert að fara að tefja deildina á að fara yfir það frekar, en þetta er gert til að benda okkur á hvað þessir póstar gefa nú hver fyrir sig.

Það er áætlað að seldir séu 250 þús. lítrar af gasolíu á árinu. Af því er tekið í verðjöfnunarsjóð 130 millj. kr. þó það séu ekki nema 52 aurar á lítra. (Gripið fram í: Í innkaupajöfnunarsjóð?). Það er sama gjald í hvorn sjóðinn fyrir sig, 52 aurar í verðjöfnunarsjóðinn. Álagningin hjá olíufélögunum á þessa sölu er 255 millj.

Áætluð svartolíunotkun er 140 þús. tonn. Þar af er tekið í verðjöfnun 70 millj. og í álagningu 76 millj. 860 þús. Úr þessum pakka koma því 200 millj. í verðjöfnunarsjóð og 331 millj. 860 þús. í álagningu, eða rúmlega 530 millj. alls af þessum tveim aðalolíutegundum. Þarna er ég enn að tala um þessa tvo þætti, verðjöfnun og álagningu. Auk þess er áætlað að tæpar 50 millj. komi í verðjöfnun vegna bensíngjaldsins. Verðjöfnunarsjóðsgjaldið eitt er því áætlað 250 millj. af þessum olíuvörum.

Þarna er um svo stóra upphæð að ræða að það hefði verið ástæða til að kannað væri hvernig þessi pakki er samsettur. Það hefur kannske verið gert en ég hef ekki um það frétt.

Frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að þetta verðjöfnunargjald falli niður en í staðinn komi svokallað flutningsjöfnunarsjóðsgjald. Og það á að nægja til þess að greiða flutningskostnað á því magni af olíuvörum frá innflutningssvæði til útsölustaða. Þetta ákvæði tel ég vera til bóta.

Frv. gerir einnig ráð fyrir því að breyting verði á stjórn viðkomandi sjóðs. Það var fimm manna stjórn í verðjöfnunarsjóðnum en verða núna þrír skv, frv. Ég tel það mjög til bóta. Þar er verðlagsstjóri í forsvari, annan skipar viðskrh. og svo einn frá olíufélögunum. Þetta tel ég mjög til bóta.

Þó að ég hafi haft uppi miklar efasemdir um verðjöfnunarsjóðinn vil ég taka það fram að ég mæli ekki með því að við höfum ekki sama hámarksverð á olíu um allt landið. Ég tel að dreifbýlið eða hin afskekktari svæði á landinu megi ekki við því að vera pínd með hærra olíuverði en þéttbýlissvæðið. Ég vil láta hámarksverð gilda þar. Hins vegar verða olíufélögin að finna leiðir til þess. Ég segi það alveg eins og er að mér finnst það óeðlilegt að þessir aðilar, sem eru þrír í þessari svokölluðu „frjálsu samkeppni“, skuli í skjóli laganna frá 1953 halda sig við það að selja allir olíu á sama verði hvar sem er á landinu. Ég vil fá það fram hjá þeim aðilum sem eru í þessari dreifingu að þeir geti sýnt það í sínum rekstri að þeir geti boðið mönnum upp á hagkvæmari verðlagningu þar sem þeim finnst því verða við komið. Ég hef ekkert á móti því t.d. að sjá það á bensíntönkum í Reykjavík eða einhvers staðar hér í nágrenninu eða úti um land að það væri ekki endilega sami prís á hverjum einasta bensínlítra á hverjum tank. Ef það er mismunandi hagkvæmni hjá olíufélögunum, það geta verið misjafnar aðstæður, — og ef sumir vilja selja þessar vörur ódýrar þá á að leyfa þeim það. Það á ekki að halda því til streitu eins og gert er að hegna mönnum fyrir það að selja ódýrar. Það á ekki að vera skylda að selja á sama verði.

Ég gleymi því ekki í sumar þegar ungur piltur hér uppi við Botnsskála var að bjóða bensínverðið niður. Hann var skammaður og fékk ekki leyfi til þess, og mikið ef það átti ekki að kæra hann fyrir þetta. Þetta var ekki löglegt. En drengurinn seldi þarna sitt bensín, ég man ekki hvað, 70 aurum ódýrara heldur en aðrir, og það þótti slík himinsynd.

Þetta vil ég fá fram hjá olíufélögunum eða þeim aðilum sem dreifa þessari vöru, að það myndist þarna frjáls samkeppni og að það sé sett hámarksverð. Ég vil ekki una því heldur að ég eða aðrir sem kaupa olíu t.d. á togara hér í Reykjavík eða hvar sem er, við skulum segja 50 þús. lítra, þetta eru svo sem engir smásopar sem maður þarf af þessu, það er eitthvað um 500 þús. kr. úttekt, þurfi að borga það sama fyrir þetta eins og ef verið væri t.d. að afgreiða eina jarðýtu hér inni í Grafarvogi eða hvar sem er. Þetta er ekki sanngjarnt. Og fyrir þetta taka olíufélögin, skv. verðskrá sem hér er, 1,02 kr., fyrir að selja hvern lítra af gasolíu. Það eru þá 1020 kr. á hvert tonn. Þau fengju m.ö.o. eitthvað um 50 þús. kr. fyrir að dæla þessu um borð í togarann. Ég nenni ekki að reikna hvað þau fengju fyrir jarðýtuna.

Mér sýnist að það sé verið að reyna að opna þetta í frv. En mér finnst því miður, og segi það beint við hæstv. viðskrh., að frv. gangi ekki nógu langt í frjálsræðisátt. Þó svo að ég vilji hafa um það fastar reglur að menn selji ekki olíuna dýrara en það hámarksverð sem gilti og landsmenn eigi kost á því allir verður að gefa tækifæri til þess að geta boðið viðskiptavinum upp á einhvern afslátt. Annars er ekki frelsi í þessum málum.

En mér finnst gæta dálitillar tvíræðni í frv. sjálfu og vildi því gjarnan spyrja hæstv. viðskrh. hvað átt sé við þar sem segir í 4. gr. frv.: „Söluverð á ofangreindum olíuvörum skal vera hið sama til sömu nota hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans hvar sem er á landinu.“ Ég held að það sé hægt að skilja þetta á tvennan veg. Á sama hátt segir í aths. við einstakar greinar frv. um 1. gr.: „Ákvæði 1. gr. laga nr. 34 18. febrúar 1953, um verðjöfnun á olíu og bensíni, um sama söluverð á olíu og bensíni hvar sem er á landinu, falla niður ef frv. verður samþykkt, en áfram er gert ráð fyrir því að verðlagsráð ákveði hámarksverð á olíu og bensíni.“ Þetta er ágætt. Ég vil hafa þetta svona. Og svo bætist við: „Hér skapast því möguleikar til þess að lækka verðið niður fyrir hámarksverðið til hagsbóta fyrir atvinnuvegina og aðra notendur þessara vara.“ En svo kemur klausa sem ég skil ekki og vildi spyrja um: „Hver innflytjandi og útsölumenn hans, sem fara niður fyrir hámarksverðið, skulu þó hafa sama söluverð um land allt, sbr. 4. gr. frv.“

Ég er í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallar. En ég held að rétt sé að fá þetta sem fyrst og greinilegast upp á borðið því að olíumálin eru svo mikið stórmál hér og eru undir mjög mikilli smásjá alls almennings, sem eðlilegt er, að það er skylda okkar hér á löggjafarsamkomunni að koma þessu í það form sem hægt er við að una. En ég tek það fram að mér finnst sú breyting sem gerð er á frv. í sambandi við að breyta þessu í flutningajöfnunarsjóðinn mjög til bóta og eins ef ég skil það rétt að þetta geti gengið í þá frjálsræðisátt sem hér er boðað. En ég óttast mjög að það náist ekki út úr þeirri grein með þeirri túlkun sem hér liggur fyrir.