04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Mér datt í hug undir ræðu hv. 4. þm. Austurl. að það væri gaman að lesa smáklausu upp úr grein sem Vilhjálmur Jónsson forstjóri Olíufélagsins hf. skrifaði í Morgunblaðið fimmtudaginn í síðustu viku. Það er aðeins smáhluti úr greininni sem mig langar til að lesa, með leyfi virðulegs forseta:

„Mismunur á þessu“ — þar er hann að nefna olíuverðið eða álagninguna á það verð sem leyfilegt er — „mismunur á þessu, hvort sem um er að ræða of hátt eða of lágt útsöluverð, er færður á svokallaðan innkaupajöfnunarreikning sem færður er af verðlagsstjóra. Of lágt útsöluverð skapar skuld á þessum reikningi.“

Síðan lýsir forstjórinn því hvernig skuld hefði skapast á undanförnum mánuðum, á þeim tíma sem hv. þm. var að lýsa framkvæmdagleði eins af þessum fyrirtækjum. Hvaða fyrirtæki skyldi vera svo gulltryggt í rekstri sínum að verðmyndun þeirrar vöru, sem það er aðallega með í sölu sé færð annaðhvort í plús eða mínus á opinberum reikningi eftir einhverri ákveðinni reikningsformúlu, burtséð frá því raunverulega hvernig rekstur fyrirtækisins gengur? Það er greinilegt að á þeim tíma sem var að myndast hundraða milljóna skuld á þessum innkaupareikningi voru þessi fyrirtæki sóandi tugum milljóna út um allt land í byggingu þjónustustöðva í sambandi við þessi lög. Það getur ekki fallið saman að þessi fyrirtæki hafi verið með stórkostlegan hallarekstur á sama tíma og þau gerðu slíkar rósir sem hv. 4. þm. Austurl. lýsti hér áðan. Vitaskuld er það rétt sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér áðan, þetta eru fyrst og fremst gulltryggðir kálfar ríkisvaldsins og fyrst og fremst gulltryggðir kálfar Framsfl. og Sjálfstfl.