05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

194. mál, höfundalög

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að bera upp þær fsp. sem hér hafa verið lagðar fram og svarað. En tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er að rætt er um lögmæti myndbandaleiga. Ég vil taka undir þá fullyrðingu hv. þm. Péturs Sigurðssonar að þar eigi sér stað stórfelld svik, eins og hann hefur mjög skorinort bent á í þessum ræðustól. Þóttu mér svör dómsmrh. ansi lítil við þeim ásökunum.

Ég vil líka taka fram að þrátt fyrir að það sé réttur hvers einstaks manns að kæra svona lögbrot er það staðreynd að með þessar kærur er ekki farið eins og eðlilegt væri að gera og því kemur ekki að neinu gagni að kæra. Þessi verslun veður uppi hér með hvers konar svikum og prettum, vil ég segja, og það er ekkert gert.

Ég skora á dómsmrh. að taka rögg á sig og fyrirskipa að betur verði að þessum málum staðið. Ég minntist á það í fyrra í Ed. hvernig söluskattsmálum myndbandaleiga væri háttað. Þar var fjmrh. viðstaddur, en hann hafði lítið um það að segja. Þessar fullyrðingar hafa komið fram hvað eftir annað og ég tel að þær hafi við fyllstu rök að styðjast, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson greindi frá áðan. En það skeður ekkert. Ráðamönnum virðist vera alveg sama. Við svo búið verður ekki unað og má ekki við una.