05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög afgerandi svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Ég held að mér hafi tekist, þrátt fyrir rösklegan upplestur ráðh., að taka niður þau svör sem hún lagði fram. Fyrir liggur að í landinu eru nú einungis sex hússtjórnarskólar. Í þeim eru 117 nemendur, en það þýðir 19 nemendur að meðaltali. Það er auðvitað ærið fámennur hópur í svo miklu skólarými sem þarna er um að ræða. Fimm af hússtjórnarskólum landsins hafa hreinlega verið teknir til annarra nota, án þess í raun og veru að sú stefna væri nokkurs staðar mörkuð. Það einfaldlega gerðist, eins og svo margt í okkar þjóðfélagi, sem gerist raunverulega án þess að t.d. hv. alþm. hafi haft þar mikið um að segja. (Gripið fram í: Sem betur fer.)

Ég get tekið undir að Húsmæðraskóli Reykjavíkur er, eins og hæstv. ráðh. sagði réttilega, eitthvert fegursta hús í Reykjavík og afskaplega stórt, það eitt veit ég. Hæstv. ráðh. harmaði að hafa ekki rúmmetratöluna, en þetta er með stærstu húsum sem upphaflega voru íbúðarhús hér í Reykjavík, enda rúmaði þetta hús tugi nemenda á árum áður í heimavist, en í þessum skóla eru nú átta stúlkur í heimavist. Fyrir þessa átta nemendur verður auðvitað að halda uppi eldhúsrekstri eins og um miklu fleiri nemendur væri að ræða, þar þarf allt sama starfslið og annars þyrfti. Þetta er auðvitað, hvað sem öðru líður, afskaplega óhagkvæmur rekstur. Hins vegar hefur aukist mikið áhugi á námskeiðum sem gripið hefur verið til að halda, hreinlega til að nýta þessi skólahús til einhvers. Í fæstum þeirra eru reglulegir nemendur sem eru að læra hússtjórn samkvæmt lögum um hússtjórnarmenntun.

Í lögum um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Hússtjórnarkennaraskóli Íslands skal starfa í tveimur deildum, kennaradeild og matráðsmannadeild.“

Þessi lög eru nr. 26 frá 1975, þau eru ekki eldri en það. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta: „Kennaradeild býr nemendur undir kennslu í hússtjórn, svo og þeim greinum öðrum, er reglugerð ákveður, í grunnskólum og framhaldsskólum ásamt störfum við rannsóknir og leiðbeiningaþjónustu neytenda og atvinnuvega.

Matráðsmannadeild menntar starfsmenn til þess að veita forstöðu mötuneytum sjúkrahúsa, heimavistarskóla, vistheimila og annarra stofnana.“

Þessi lög gerðu m.ö.o. ráð fyrir að Hússtjórnarkennaraskóli Íslands menntaði menn til ákveðinna atvinnugreina en jafnframt að skólinn skyldi vera þriggja ára skóli. En síðan gerist það, og ég skal viðurkenna að ég veit ekki nákvæmlega hvernig það gerðist, að þessi skóli, sem stendur að vísu enn þá á sínum stað hér uppi í Háuhlíð, er nú hluti af Kennaraháskóla Íslands. Þar með hefði mér fundist það eðlileg atburðarás að lög um Hússtjórnarkennaraskóla Íslands frá 1975 væru afnumin en önnur sett um að nú skyldi kennslan fara fram í Kennaraháskóla Íslands.

Í lögum um hússtjórnarskóla segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Hlutverk hússtjórnarskóla er að veita verklega og bóklega menntun í hagnýtum greinum heimilisfræða og búa nemendur undir: 1. Hirðingu og umönnun heimilis og fjölskyldu. 2. Störf og þjónustu í hússtjórnargreinum og félagsmálum. 3. Framhaldsnám í æðri skólum, t.d. kennaraskólum, félagsmálaskólum, fósturskólum, hjúkrunarskólum, hótelskólum o.fl.“

Það hlýtur að vera undrunarefni að lög, sem ekki eru eldri en frá 1975 og hafa í fyrsta lagi aldrei komið til framkvæmda, skuli hreinlega að engu gerð og eitthvað allt annað tekið upp.

Það er rétt, sem hér kom fram, að með grunnskólalögunum verða heimilisfræði skyldunámsgrein í grunnskólum. Þau lög eru frá 1974. Á sama tíma og heimilisfræði eru gerð skyldunámsgrein í grunnskólum eru hússtjórnarskólar aflagðir og Hússtjórnarkennaraskólinn meira og minna felldur inn í almennt kennaranám. Maður hlýtur því að spyrja: Hver á að kenna hússtjórnarfræði í grunnskólunum? Þessi lög, sem ég hef nú lesið greinar úr, eru svo til jafngömul og grunnskólalögin. En það er ákaflega erfitt að sjá að unnið hafi verið markvisst að því að öll þessi lög tækju gildi og væru framkvæmd.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að hússtjórnarfræði séu ákaflega mikilvæg og merkileg námsgrein. Ég held að öll börn hafi ákaflega gott af að læra þau og sú kennsla ætti að vera þýðingarmikið spor í áttina að jafnrétti kynjanna t.d., auk þess sem það er hverjum manni nauðsynlegt að vera sjálfbjarga, að vera frumbjarga, vera fær um að hirða, fæða og klæða sig og sína. Ég hef þess vegna af því áhyggjur að þessi fræði séu í mikilli hættu og að hreinlega sé ekki unnt að fara að grunnskólalögunum vegna skorts á kennurum. (Forseti hringir.)

Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég harma það enn og aftur að hæstv. ráðh. lesi mér aðeins staðreyndir og svör við mínum spurningum, án þess að ég geti fundið það af einhverju að hæstv. ráðh. hafi áhuga á þessu máli, hafi eitthvað hugsað um það og geti kannske ofurlítið sagt okkur frá því hvað hún hyggist gera.