05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

253. mál, vistunarvandi öryrkja

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. verður að minna á að á síðasta þingi var lögð fram till. til þál. þar sem lagt var til að Alþingi skoraði á ríkisstj. að beita sér fyrir því að leysa vandamál þeirra öryrkja, sem sakir andlegrar og líkamlegrar fötlunar eiga örðugast um vistun á þeim stofnunum sem fyrir eru, eins og fyrirspyrjandi hefur rakið að nokkru í sínum formálsorðum. Í þáltill. var rætt um að efla stuðning við hjúkrun í heimabyggð eða stofna sérdeild við ríkisspítalana. Þessi þáltill. var afgreidd með rökstuddri dagskrá 12. apríl s.l. Þar segir:

„Í trausti þess að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra, sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar, að staðið verði við fyrirheit um fjárframlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra svo að markmiði ályktunarinnar verði náð á þessu ári telur Alþingi að ekki sé þörf á samþykkt þessarar till. og samþykkir að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Sú samþykkt sem um er rætt í þessari rökstuddu dagskrá var gerð af stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja í nóvember 1983. Jafnframt lét stjórnarnefndin í ljós þá skoðun að eðlilegast væri að þessi deild yrði stofnuð við Kópavogshælið og þar yrði gert ráð fyrir vistun 6–10 einstaklinga, en jafnframt yrðu útskrifaðir á sambýli 10 einstaklingar af þeirri stofnun.

Stjórnarnefndin lýsti því einnig yfir að hún mundi beita sér fyrir því að fé yrði varið úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til að ná markmiði þessarar ályktunar á árinu 1984. Mjög fljótt var ljóst að mikil andstaða væri gegn því hjá ýmsum aðilum, sem þetta mál varðar, að vistunarvandi þessi yrði leystur á Kópavogshæli. Komu fram í því máli þau viðhorf sem ýmsir aðstandendur þroskaheftra höfðu gagnvart þeirri stofnun. Ég er persónulega andvígur því að stofna til slíkrar deildar á Kópvogshæli.

Í ágúst 1984 óskaði rn. eftir því að stjórnarnefnd um málefni fatlaðra kannaði það hjá svæðisstjórnum í landinu, og vitna ég þá í lög nr. 41 frá 1983, hver hin raunverulega þörf væri í þessu sambandi og hvernig svæðisstjórnir teldu hagkvæmast að leysa úr málum. Rn. hefur enn ekki fengið þær upplýsingar. En til að fyrirbyggja allan misskilning verður að taka fram að þeir öryrkjar, sem hér um ræðir, hafa verið í vistun á sjúkrahúsum og endurhæfingarstofnunum þannig að þeim hefur á engan hátt verið ýtt út úr meðferðarkerfinu. Margir þessara sjúklinga hafa verið í vistun á mjög góðum endurhæfingarstofnunum, en það fer auðvitað eftir ástandi hvers sjúklings fyrir sig. Þegar upplýsingar liggja fyrir um fjölda þessara einstaklinga og skoðanir svæðisstjórna á meðferð málsins, einkum skoðanir svæðisstjórna, því að hitt er auðvitað mjög fljótlegt að kanna á hverjum stað og hvar hver þessara einstaklinga er, þá mun rn. leggja fram tillögur sínar í málinu.

Ég tel að ekki verði stofnað til sérstakrar nýrrar deildar nema fyrir liggi hvernig ástandið er fyrir hvern einstakling um sig. En áhersla er lögð á það að allir þessir sjúklingar fái eins góða umönnun og hægt er að veita og greitt sé fyrir því hverju sinni ef um einstaklinga er að ræða sem er lagt mjög hart að heimilum að hafa en geta ekki þar verið. Þegar menn tala um að stofna til einstakra deilda, sjúkradeilda, þá er það meira en orðin tóm því að víðast hvar er ástandið þannig í hjúkrunarmálum að mikill skortur er á hjúkrunarfólki, einkum hjúkrunarfræðingum, svo að það er ekki alls staðar auðvelt að koma slíku við.

Þess er að vænta að tillögur í þessu efni liggi fyrir fyrir gerð næstu fjárlaga sem hefst yfirleitt alltaf á vordögum. Þm. geta þá tekið afstöðu til þess hvort lausn þessa vistunarvanda verði forgangsverkefni ríkisspítala eða annarra stofnana, en svo sem kunnugt er höfðu önnur verkefni á ríkisspítölum forgang við gerð fjárlaga ársins 1985. Ég endurtek að ég er andvígur því að stofna til sérstakrar deildar á Kópavogshæli, þvert ofan í skoðun þessarar nefndar. Og ég mun ekki beita mér fyrir lausn á því sviði, nema síður sé, en við munum í rn. fylgjast mjög vel með vandanum og hvar hver einstaklingur, sem þarna á hlut að máli, er og reyna að búa þannig um hnútana að hann njóti umönnunar eins og best er hægt að sýna hverju sinni þó að þessi bið hafi orðið — og verði á því að til sérstakrar deildar sé stofnað í þessu augnamiði.