05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Það er í samræmi við fjárlagafrv. frá 1984 rétt að spyrja þeirrar spurningar sem ég ber hér fram í fsp.-formi á þskj. 448. Í fjárlagafrv. 1984 stendur eftirfarandi:

„Í þessu fjárlagafrv. eru tekin upp ný og breytt vinnubrögð. Þar er hvarvetna beitt ströngu aðhaldi, en þeir þættir í rekstri rn. og stofnana sem ætlunin er að haldist óbreyttir eru metnir á sem raunhæfastan hátt miðað við upplýsingar úr ríkisreikningi um hvað starfsemin raunverulega kostar.

Í því skyni að auka sparnað og stuðla að rekstrarjöfnuði hafa launaliðir stofnana verið lækkaðir frá þessu raungildi um 2.5% og önnur rekstrargjöld um 5%. Rn. og stofnanir“, segir þar, „munu fá fyrirmæli um að draga saman seglin á sínu sviði sem þessu nemur.“

Í fjárlagaumr. í okt. 1983 kom fram í máli hæstv. fjmrh. að hér væri um ný og breytt vinnubrögð að ræða. Tekið var til að umfang rekstrar væri metið á raunhæfan hátt miðað við haldbestu upplýsingar um hvað starfsemin raunverulega kostar. Orðrétt sagði hæstv. fjmrh. þá, með leyfi forseta:

„En jafnframt er beitt ströngu aðhaldi varðandi þá þætti sem lagt er til að haldi óbreyttu umfangi.“

Þá sagði hann enn fremur síðar, með leyfi forseta: „Ég vil taka það fram í upphafi að út fyrir þann ramma sem útgjöldum ríkisins hefur verið settur með fjárlagafrv. fyrir 1984 og lánsfjáráætlun verður ekki farið og það kemur ekki til greina að auka álögur á landsmenn við núverandi aðstæður. Eina færa leiðin er að draga saman seglin eins og ráðgert er.“

Vegna framangreindra staðhæfinga spyr ég nú hæstv. fjmrh. á þskj. því sem áður getur um niðurskurð og sparnað í rn. og stofnunum:

„Hvernig hefur tekist að ná yfirlýstum markmiðum um 5% sparnað eða niðurskurð rekstrargjalda rn. og stofnana árið 1984? Þess er óskað að fram komi hver er heildarsparnaður/niðurskurður og hvernig hann dreifist á rn. og stofnanir.“