05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

270. mál, aukafjárveitingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það hafa verið gerðar hér að umtalsefni þær aukafjárveitingar sem viðgengist hafa í fjmrn. og íslensku stjórnkerfi. Spurningin er ekki einungis sú hvað aukafjárveitingar séu samtals há fjárhæð, heldur í hvað þær fara. Það vekur athygli að með ríkisreikningi fyrir árið 1983 eru upp taldir milli sex og sjö hundruð liðir aukafjárveitinga. Þar eru einungis upp taldir þeir aðilar sem aukafjárveitinguna hafa fengið, þannig að afgreiðslurnar eru a.m.k. jafnháar þessari tölu, afgreiðslurnar eru a.m.k. einhvers staðar á bilinu 600–700 á árinu 1983 að því er aukafjárveitingar varðar. Menn hljóta þá að spyrja í fyrsta lagi, úr því að hæstv. fjmrh. hefur gefið svo strangar yfirlýsingar um að ekki muni duga að koma í fjmrn. til að fá aukafjárveitingar, hvort þeim hafi eitthvað fækkað á árinu 1984, hvort enn þá séu einhvers staðar á bilinu 600–700 afgreiðslur á aukafjárveitingum.a.m.k. hafa þær verið 2–3 á hvern virkan dag á árinu 1983. Er það enn svo? Sú fjárhæð sem fjmrh. tilgreinir hér, 421 millj. kr., er nokkuð há. Mönnum hlýtur að leika forvitni á því hvaða samdrátt sé í raun og sannleika um að ræða, að teknu tilliti til þess að verðlagsbreytingar voru alls ekki jafnmiklar á milli áranna 1983 og 1984 og þær voru á milli 1982 og 1983.

Í annan stað hlýtur það að vekja athygli í því yfirliti sem hæstv. fjmrh. gaf áðan að af þessum 421 millj. kr., sem hann upplýsir að varið hafi verið í aukafjárveitingum á árinu 1984, sem alls ekki áttu að verða til að því er manni skildist og eins og hv. fyrirspyrjandi hefur hér rakið, eru einungis 66 millj. vegna verðlagsbreytinga skv. upplýsingum fjmrh. Allt hitt er af einhverjum öðrum orsökum. 355 millj. eru af öðrum orsökum en vegna verðlagsbreytinga. Þm. muna það væntanlega að venjulegast þegar um aukafjárveitingarnar hefur verið rætt hér í þinginu þá hafa fjmrh. tilgreint að þetta sé allt vegna verðlagsbreytinga. Það kom m.a. fram í máli hæstv. ráðh. að af þessum 421 millj. væru 266 millj. skv. ákvörðunum ríkisstj. og einstakra ráðh. Þá var hlutur ráðh. reyndar hærri. Það voru nefnilega 146 millj. eða u.þ.b. þriðjungurinn af þeirri upphæð sem hér er verið að gera að umtalsefni. Ég hefði haldið að miðað við þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar að undanförnu mundu alþm. hafa áhuga á að vita hvernig þetta skiptist á ráðh., hversu mikið hver einstakur ráðh. hefur ákveðið í þessum efnum. Er það kannske svo að fjmrh. eigi ekkert í þessu og standi þannig við sína yfirlýsingu um það að ekki skuli vera um aukafjárveitingar að ræða? (Forseti hringir.)

Ég vil gjarnan beina þeirri ósk til hæstv. ráðh. að hann svari því hversu margar ákvarðanirnar hafi verið á árinu 1984 í samanburði við árið 1983, hvernig ákvarðanir ráðh. hafi skipst, hver sé skýringin á því að svo lítill hluti upphæðarinnar sé vegna verðlagsbreytinga og hversu stór hluti upphæðarinnar sé nú skv. ákvörðunum ráðh. og ríkisstj.