05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

264. mál, framhaldsskólar og námsvistargjöld

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin þó að ekki geti ég nú sagt að ég sé ánægður með efnislegt innihald þeirra. Það virðast sem sagt engin áform hafa verið gerð um að reyna að samræma þessa þætti, annars vegar þátttöku sveitarfélaganna í kostnaði við menntaskólana og hins vegar við fjölbrautaskólana, jafn nauðsynlegt og brýnt og það verkefni raunar er. Það er heldur ekkert gert í þeim málum að fella niður námsvistargjöldin.

Það er sem sagt ekkert fyrirhugað til þess að ná þessum réttlætismálum fram sem ég hef hér bent á og vakið athygli á. Frá rn. er einskis frumkvæðis að vænta undir stjórn hæstv. núv. ráðh. En aðalatriði þessa máls er misrétti milli byggðarlaganna, sem ég hef gert hér svo mjög að umtalsefni.

Ríkið hefur komið upp menntaskólum, t.d. á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og víðar, og byggðarlögin, sem þessara skóla njóta, hafa enga hlutdeild þurft að greiða í byggingarkostnaði né rekstri. Hins vegar hafa verið stofnsettir fjölbrautaskólar á Norðurlandi vestra, Vesturlandi, Suðurnesjum, Suðurlandi og víðar með ærnum tilkostnaði sveitarfélaganna á svæðinu, sérstaklega í sambandi við uppbygginguna. Rekstrarhlutdeildin dregur sig líka saman þegar til lengri tíma er litið. Enginn getur þó haldið því fram að þessi síðasttöldu sveitarfélög séu eitthvað betur í stakk búin til að kosta framhaldsmenntunina en hin, þar sem menntaskólarnir eru. Þvert á móti er hér jafnvel um að ræða byggðarlög þar sem tekjur eru lágar og greiðslugeta sveitarfélaganna þar af leiðandi hvað minnst.

En það er líka önnur hlið á þessu máli. Hvað er um allt talið um nauðsyn þess að efla verkmenntunina í landinu? Meðan þetta misrétti er við lýði milli menntaskóla og fjölbrautaskóla er ljóst að allt slíkt hjal um jafnræði milli bóknáms og verknáms er aðeins töluð orð en ekki efnd. Þessa þætti verður að samræma og menntmrn. þarf tafarlaust að hafa um það frumkvæði að móta og setja fram tillögur í þessum efnum, en að sjálfsögðu í samráði við sveitarfélögin og samtök þeirra.

Um námsvistargjöldin þarf ég að vísu ekki að hafa mikið fleiri orð. Það er leitt til þess að vita að hæstv. ráðh. skuli ekki gera sér grein fyrir því misrétti sem framkvæmt er við innheimtu þessara gjalda. Allt talið um mikinn kostnað Reykjavíkurborgar vegna utanbæjarnemenda er tóm vitleysa. Auðvitað hefur borgin ómældar tekjur af kennurum og öðru er skólarekstrinum fylgir.

Skólakerfið hér í borginni hefur löngum sogað til sín fjármagn af landsbyggðinni sem ekki skilar sér þangað aftur, því að að menntun lokinni eru takmörkuð atvinnutækifæri úti á landi og þeim mun vandfengnari og sjaldgæfari sem menntun og skólaganga hefur staðið lengur og verið dýrari. Það hefur því lengi verið hlutverk landsbyggðarinnar að ala upp og kosta fólk til náms sem síðan hefur eytt sinni starfsævi hér. Í ljósi þessara staðreynda er innheimta borgarinnar á námsvistargjöldum þeim mun harðneskjulegri og óréttlátari auk þess sem lagastoð hennar er hæpin og raunar engin hvað námskostnað í fjölbrautaskólum varðar.

Í því sambandi vil ég minna á dóm er kveðinn var upp í aukadómþingi Árnessýslu í júlí 1982, en málsatvik voru þau að bæjarstjórinn í Hafnarfirði hafði stefnt Skeiðahreppi vegna vangoldinna námsvistargjalda vegna nemenda er stunduðu nám í fjölbrautaskóla. Dómsniðurstöður voru þær að Skeiðahreppur var sýknaður af kröfum Hafnarfjarðarbæjar á þeirri forsendu að engin bein ákvæði væru í lögum um greiðslu námsvistargjalda vegna skólavistunar í fjölbrautskólum og ekki var fallist á að lög um grunnskóla né iðnskóla ættu við í þessu efni. Þrátt fyrir þennan dóm heldur Reykjavíkurborg áfram ákafri innheimtu námsvistargjalda vegna námsvistar í fjölbrautaskólum sem engin lagastoð virðist fyrir og það með fullri velþóknun og stuðningi menntmrn. M.a. vegna þeirrar dómsniðurstöðu er ég hef hér lýst og menntmrn. hefur vafalaust kynnt sér, þá hefði ég vænst þess að afstaða þess til innheimtu námsvistargjalda væri breytt. Svo virðist þó ekki vera og hlýt ég að harma þá óskiljanlegu niðurstöðu.