05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

17. mál, Skipaútgerð ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sönnu nokkuð frumleg till.-gerð og frumleg vinnubrögð sem hv. flm. Stefán Benediktsson 8. þm. Reykv. viðhefur með þessum málalista sem hér liggur fyrir á dagskrá Sþ. Ég er ekki endilega sammála hv. 2. þm. Norðurl. v. sem hér talaði og taldi að eðlilegast hefði verið að allar þessar till. hefðu verið sameinaðar undir einu og sama númerinu og ræddar í einu. Ég held nefnilega að hér sé um svo gjörólíka starfsemi að ræða og aldeilis mismunandi ríkisfyrirtæki að það sé eiginlega nauðsynlegt að ræða um þau hvert fyrir sig. Ég er til að mynda alveg til í að skoða það með hv. flm. að ríkið geti látið af afskiptum af vissum fyrirtækjum sem hér eru nefnd en í öðrum tilfellum er ég honum aldeilis ósammála og sé ekki að nokkur annar aðili en hið opinbera geti innt af hendi þá starfsemi sem um er að ræða.

Ég á t.d. erfitt með að koma auga á það að annar aðili en ríkið annist þá þjónustu sem Skipaútgerð ríkisins veitir og uppfylli þær skyldur sem því hafa verið lagðar á herðar, að jafna aðstöðumun manna eftir því hvar þeir búa á landinu með þessum hætti. Ég lít á rekstur Skipaútgerðar ríkisins sem anga af samgöngumálum landsmanna, að þetta er í raun og veru samgöngumál.

Ég hef fram að þessu haldið að ekki væri um það ágreiningur með þjóðinni að það opinbera annaðist í stórum dráttum rekstur samgöngukerfisins, a.m.k. vegi, brýr og byggði flugvelli, hafnir o.s.frv. Það er mismunandi auðvelt að innheimta fyrir þessa þjónustu. Í vissum tilfellum eru það fyrirtæki sem taka það gjald fyrir þjónustuna að þau geta haldið þeim rekstri uppi, í öðrum tilfellum borgar ríkið meira og minna með starfseminni. Þetta er alsiða með öllum þjóðum og ég held að við Íslendingar komumst ekkert fram hjá því frekar en aðrir, að það opinbera sé að meira og minna leyti aðili að öllum samgöngumálum, öllu sem það snertir hér.

Ég er út af fyrir sig einnig tilbúinn að ræða skipulag Skipaútgerðar ríkisins, en ég tel fráleitt að slá því föstu með till.-flutningi af þessum toga að heppilegasta leiðin sé að leggja fyrirtækið niður, leggja starfsemina niður. Kæmi það í ljós mundum við að sjálfsögðu kyngja því eftir vandlega könnun að heppilegra væri að gera þetta með öðrum hætti. En ég tel þann rökstuðning, sem hér er fram færður fyrir því, allsendis ónógan. Og mér finnst það allt of óljóst hvað við eigi að taka til þess að menn geti samþykkt slíkar tillögur. Ef ég fer rétt með þá kom það fram í framsögu hjá flutningsmanni að leggja bæri þetta niður og greiða sem bein framlög til viðkomandi byggðarlaga þær fjárhæðir sem hið opinbera yrði að inna af hendi af þessum sökum. Ég get sem sagt ekki séð í fljótu bragði að það séu efnisleg rök fyrir því, á þessu stigi málsins, að samþykkja slíka till.

Það hefur reyndar löngum vakið undrun mína hversu lítið er flutt á sjó á seinni árum hér á Íslandi. Að gefinni þeirri staðreynd, sem enginn mótmælir, að Ísland er eyja, þá finnst mér hlutfall flutninga á landi og í lofti ótrúlega hátt miðað við það hversu auðvelt það ætti að vera að skipuleggja hér góðar samgöngur á sjó með mátulega tíðum ferðum til þess að tengja alla strandlengju landsins saman með þeim hætti. Farþegaflutningar á sjó hafa að heita má lagst niður í seinni tíð. Og það er auðvitað vegna þess hvað áætlunin er gisin og langt líður milli ferða að menn taka jafnvel flugvél til Reykjavíkur frá einum stað á strandlengjunni og fljúga til baka til þess næsta, í staðinn fyrir að sigla kannske fyrir eitt annes, sem ætti að vera auðvelt ef áætlun skipaútgerðar ríkisins eða einhvers annars aðila, sem annaðist þessa þjónustu, væri sniðin með það fyrir augum. Inn í þetta spilar auðvitað batnandi vegakerfi og bættar samgöngur í lofti. Engu að síður teldi ég það stórt skref aftur á bak ef af legðist með öllu sú þjónusta sem Skipaútgerð ríkisins hefur haldið uppi. Því valda fyrst og fremst landfræðilegar aðstæður á ýmsum stöðum og mikill aðstöðumunur sem af því mundi leiða fyrir ákveðin byggðarlög.

Ég tel sem sagt, herra forseti, ekki efnisleg rök fyrir því að samþykkja slíka till. eins og málum er háttað og með þær upplýsingar sem þm. hafa í höndum um þessi mál. Hitt er í raun allt annað mál að fara ofan í saumana á rekstri og skipulagningu Skipaútgerðar ríkisins og það sama má reyndar segja um margar af þeim stofnunum sem hv. þm. leggur til að lagðar séu niður með samhljóða grg. á fjölmörgum þskj.

Það er ákveðin tíska í dag að sumir vilja sem ólmast selja ríkisfyrirtæki, aðrir vilja sem ólmast leggja þau niður. Ég held að það sé meira af einhverjum misskildum hugsjónalegum metnaði sem menn fara inn á þessa braut, gjarnan án þess að skoða nógu rækilega hvað eigi þá að taka við, hverjir eigi að annast þessa þjónustu og hvernig eigi að haga þeim málum. Menn taka hér allmörg skref í tilhlaupinu sem kannske verður svo mjög lítið stökk þegar lent verður á bakkanum hinum megin.