06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Áður en ég tek til að ræða það frv. sem hér liggur fyrir vil ég leyfa mér vegna þeirra ummæla sem féllu við þessa umr. um þetta mál á mánudaginn, að allir hefðu tekið undir þetta mál hér á þinginu nema fulltrúar BJ og að enginn væri viðstaddur umr. frá BJ, að benda viðkomandi á að ég var hér allan tímann, ég vék ekki af þingdeildarfundi. Ég var að vísu hluta tímans hér inni í hliðarherbergi að gera það sem ekki má tala um úr þessum ræðustól og helst ekki minnast á almennt, og það má helst ekki sjást, það má bara framkvæma það þarna megin en ekki hérna megin, svo ég segi ekki meir.

Ég taldi mig, eins og síðar kom í ljós, með rétti vera á mælendaskrá, en þegar ég átti viðræður við virðulegan deildarforseta kom í ljós að hann hafði skrifað niður annan þm. í minn stað, mann sem alls ekki var búinn að biðja um orðið. Af sinni alkunnu ljúfmennsku leiðrétti hann þetta auðvitað þegar í stað, og hér er ég nú. Hins vegar datt mér í hug augnablik að hann hefði haldið mig vera að heilsa sér eftir langa fjarveru mína, hérna utan úr sal með því að ég hefði verið að vinka honum. En þetta er sem sagt leiðrétt.

Með þessu frv. til laga, sem hér liggur fyrir til umr., er ekki verið að tala um að fella niður verðtryggingu lána. Það er verið að tala um að framlengja lánstímann til þess að létta greiðslubyrðina. Hér er sem sagt á ferðinni mál þar sem hugmyndin er að fresta greiðslu á þeim hluta verðtryggingarlána sem er umfram almennar launahækkanir í landinu. Þá er með því verið að tala um það að lánstíminn lengist þannig að afborgun lána á hverjum tíma verði ekki meiri en sem nemur hækkun almennra launa hverju sinni. Tilgangurinn er góður og nauðsynlegur. Þarna er í raun verið að fá fólk til þess að sætta sig við orðinn hlut, þ.e. að kaupgjaldsvísitalan sé ekki í samræmi við lánskjaravísitöluna. Þetta leysir að vísu vanda þeirra sem verst eru staddir en það viðheldur samt sem áður því óréttlæti sem kjaraskerðingarnar hafa leitt af sér undangengin ár. Hér þurfum við að ræða um sjálfsvirðingu og réttlæti. Það er ljóst að ef um væri að ræða eitthvert réttlæti þá mundi fjármagnskostnaður vegna húsnæðiskaupa þurfa að dreifast á a.m.k. heila mannsævi, þ.e. starfsævi hans. Það er bráðnauðsynlegt að aflétta þessu oki sem við lýði er og viðhelst. Þetta er ekkert annað en hróplegt óréttlæti eins og nú er. Það hefur auðvitað engum, sem talað hefur í þessu máli, dottið í hug að afnema beri verðtryggingu lána. Auðvitað ætlast menn til þess að þau lán sem tekin hafa verið séu borguð, en það verður bara að gera aðstæður þannig úr garði að það sé kleift, að það verði viðráðanlegt.

Það er vitaskuld með öllu ófyrirgefanlegt að lánstíminn skuli ekki hafa verið lengdur þegar verðtryggingin var tekin upp. Sú þróun má ekki halda áfram að menn þurfi sífellt að halda áfram að lengja vinnutímann til þess að standa við fyrir fram gerðar skuldbindingar og enn þá síður að menn þurfi sífellt að taka ný og ný lán til þess að geta staðið við afborganir af upphaflegum lánum. Auk þess sem það er nú ekkert auðvelt að fá lán.

Húsnæðislánakerfið eins og það er í dag er algerlega ónýtt. Það verður að færa það til betri vegar, þannig að fólk þurfi ekki að ganga eins og betlarar fyrir einn bankastjórann af öðrum. Það er verið að ganga af sjálfsvirðingu dauðri. Hér verður að koma til leiðrétting og það verður að koma til réttlæti. Sjálfsvirðing byggist á því að vera sjálfbjarga, hún byggist á því að sjá arð af starfi sínu. Eins og kerfið er nú byggir það ekki upp, það drepur niður. Við verðum að spyrja að því hvað sé réttlætanlegt að húsnæðiskostnaður vegi þungt af mánaðarlaunum fólks.

Í nágrannalöndum okkar er það viðurkennd staðreynd og hefur verið það í áratugi að það sé a.m.k. æviverkefni að koma yfir sig húsnæði. Hér á landi hefur hins vegar verðbólgan kastað glýju í augun á okkur og hindrað það að þessi staðreynd fengist viðurkennd. En nú er svo komið að þessi staðreynd dylst engum lengur. Og þá er komið að því að taka til höndunum og breyta þessu óréttláta kerfi. Það þýðir ekkert að vera að reyna að slá sig til riddara með því að taka sér í munn ummæli eins og þau að hafa á málinu velvilja, fullan velvilja og góðan skilning, hann nær ekki langt einn sér. Athafnir þurfa að fylgja í kjölfarið og það strax, vegna þeirrar einföldu og nöturlegu staðreyndar að nú er svo komið fyrir þeim fjölmörgu sem lagt hafa út í skuldbindingar vegna kaupa eða byggingar húsnæðis að þeir eru komnir á ystu nöf sjálfsvirðingar sinnar. Hvað tekur þá við? Ekkert annað en niðurlæging, niðurlæging sem felst í því að þurfa að horfa á eftir húsnæði, sem þrælað hefur verið fyrir hörðum höndum, hverfa á nauðungaruppboði. Og hvað tekur þá við? Leiga, ef nokkuð fæst þá, ef húsnæði er að fá á leigumarkaðnum. Og ef það fæst er þar yfirleitt um að ræða okurverð, verð sem nemur stórum hluta teknanna.

Hæstv. ríkisstj. ætti að taka sér tak og hressa upp á minnið með því að líta yfir kosningaloforðaþættina úr sjónvarpinu frá 1983 og hugsa svo rækilega út í það hvaða orð það eru úr þeim þáttum sem m.a. gera það að verkum að ríkisstj. er við völd í dag. Það voru greinilega margir sem treystu því að hæstv. ríkisstj. hygðist vinna vel og skörulega að þessum málaflokki, vinna að því að koma húsnæðismálunum í heilbrigðan farveg. En það hefur bara ekkert gengið eftir af þessum loforðum þeirra. Hins vegar voru þeir fljótir til, eftir að völdin komust í þeirra hendur, að afnema vísitölubindingu launa.

Mig langar til að vitna í áramótaávarp hæstv. forsrh. fyrir rúmu ári síðan, með leyfi forseta, en þar talar hæstv. forsrh. undir kjörorðunum: Framtíðin er björt ef vel er á málum haldið. Þar segir hann, m.a.:

„Í þeim tímabundnu erfiðleikum, sem við eigum við að stríða nú, hljóta kjör einstaklinga að skerðast og ýmiss konar sameiginleg þjónusta að dragast saman um skeið. Annað er blekking. Mikilvægast er að þessum byrðum sé dreift þannig að þeir beri sem borið geta. Mér er ljóst að þetta er ekki í fyrsta sinn sem minnst er á breiðu bökin. Eflaust er það einnig rétt að oft hefur mistekist að dreifa byrðunum réttlátlega. Engu að síður er krafan réttmæt og að því verður að stefna.“

Hæstv. forsrh. sagði að mikilvægast væri að byrðunum væri dreift þannig að þeir beri sem borið geta. Er það virkilega skoðun hæstv. forsrh. að eins og málum er nú háttað beri þeir byrðarnar sem borið geta? Geta þeir borið byrðarnar sem eru nú að missa og eru búnir að missa húsnæði sitt á nauðungaruppboði? Eru þeir að þessu bara að gamni sínu, að afsala sér húsnæði, til þess að sýna og sanna að þeir geti borið byrðarnar? Er þessi krafa réttmæt eins og hæstv. forsrh. lét um mælt?

Það deilir enginn um réttmæti þess að menn eiga og ætla að greiða til baka þau lán sem þeir hafa tekið. En til þess að svo megi verða þurfa laun að halda í við þróun lánskjaravísitölu. Öðruvísi er ekki hægt að ætlast til þess að fólk geti gert þá langtímaáætlun sem nauðsynleg er þegar það tekur á sig langtímaskuldbindingu.

Eins og kerfið er uppsett í dag virkar það hreinlega eins og eignaupptaka. Fólk leggur nótt við dag til þess að afla þeirra tekna sem til þarf til að standa undir skuldbindingum sínum. Þegar það hefur í því skyni nánast kreist úr sér hvern blóðdropa þá er svo komið að það er einungis hægt að líkja því við eitt og það er eignaupptaka. Hér ríkir hreint og beint neyðarástand í þessum málum og skylda stjórnvalda liggur í því að bregðast við með hverju því ráði sem til bjargar má verða og leysa allt þetta fólk af klafa þeirra skuldbindinga sem það er orðið vafið í og flækt.

Hér er verið að fara fram á framlengdan lánstíma. Ég get ekki séð annað en að það sé mjög svo sanngjarnt, miðað við þær aðstæður sem við búum við. Fólk verður að geta treyst því að greiðslubyrði lána verði aldrei meiri á hverjum tíma en sem nemur almennri launahækkun. Afborgun t.d. af lífeyrissjóðsláni, sem tók einn mánuð að vinna fyrir á fyrri hluta s.l. árs, má ekki, eins og nú er, taka sama mann einn og hálfan mánuð að vinna fyrir. Sú þróun sem átt hefur sér stað í þessum efnum hér á landi hefur einnig orðið þess valdandi að upp er komið nýtt vandamál í formi upplausnar innan fjölskyldna. Það er mjög svo alvarlegur hlutur. Og þetta vandamál hleður utan á sig því þó alveg sé sleppt að ræða um afleiðingar þess fyrir fólkið sjálft og börnin, sem oftast eru inni í myndinni, þá vefur þetta upp á sig í formi kröfu um aukið húsnæði á markaðinn. Þar sem hjónin eða sambýlisfólkið gátu áður notað eina íbúð þurfa þau nú tvær. Ég tel að hér sé á ferðinni mjög svo þarft mál og ég kem til með að greiða því atkvæði mitt komi það til atkvæðagreiðslu.