06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það heitir svo í dagskránni að við séum að ræða hér um breytingar á stjórn efnahagsmála, en við erum nú öllu heldur að ræða um viðbrögð vegna óstjórnar í efnahagsmálum og þá aðeins einn þátt þeirra mála. Flm. hafa tekið fram, eins og frv. ber reyndar með sér, að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um húsnæðismál. Ræðumenn hafa að vísu komið víða við og m.a. rætt um raunvaxtastefnuna. Þar á meðal flutti hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson aldeilis dæmalausa ræðu um raunvaxtastefnu þó að hann viti sjálfsagt og auðvitað, eins og allir aðrir í þessu landi, að ef ekki er haldið uppi hér raunvaxtastefnu er andstæðan neikvæð vaxtastefna sem reyndar ríkti hér um árabil með þeim afleiðingum að brask og spákaupmennska og misskipting á tekjum varð óskaplegri og ömurlegri en nokkur dæmi eru um í Íslandssögunni. Það var þá fyrst þegar neikvæðir vextir ríktu á Íslandi sem skuldakóngarnir og braskararnir blómstruðu og misskiptingin í landinu þreifst. Auðvitað veit hv. þm. Svavar Gestsson að við eðlilegar og heilbrigðar aðstæður í efnahagslífinu er skynsamlegt og sjálfsagt að fólk borgi þær krónur til baka sem það fær að láni og eðlilega vexti af því fjármagni sem það hefur til afnota í lengri eða skemmri tíma.

Á vaxtamálum og verðtryggingarmálum eru auðvitað tvær hliðar. Við vitum vel að sparifé og sjóðir brunnu upp á tímum hinna neikvæðu vaxta. Þetta mál, sem við erum að tala um núna, snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um verðbólguna og afleiðingar hennar vegna þess að rétt úttærð raunvaxtastefna yrði ekki verulegt vandamál og mundi ekki leiða til misskiptingar í þjóðfélaginu ef verðbólga væri í lágmarki og væri í núlli.

Vandamálið að því er varðar þetta sérstaka mál, í húsnæðismálum, stafar af því að eftir að búið er að kippa kaupgjaldsvísitölunni úr sambandi, eru enn þá aðrar vísitölur í gangi. Í þessu tilviki er gert ráð fyrir því að það fólk sem fær fé að láni í húsnæðismálasjóði eða byggingarsjóði endurgreiði þau lán skv. hækkun á byggingar- og lánskjaravísitölu. Auðvitað sjá allir sanngjarnir menn að það ástand getur ekki staðið lengur, enda er öllum ljóst, og er búið að viðurkenna m.a. í þessari umr., að það fólk, sem hefur þá fífldirfsku til að bera að slá slíkt lán nauðugt viljugt, fær ekki undir því risið þegar fram líða stundir og þegar vextir og verðbætur hlaðast á höfuðstólinn.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, er spor í þá áttina að draga úr þessum ókjörum og gerir ráð fyrir því að miðað sé við lánskjaravísitölu og ekki sé gert ráð fyrir að verðbætur séu hærri en sem nemur hlutfallslega þeim hækkunum sem verða með hliðsjón af öðrum viðmiðunum og þá hækkun á kaupgreiðsluvísitölu. Um leið og við viðurkennum að allar almennar fjárskuldbindingar eigi að bera eðlilega vexti og hugsanlegar verðbætur, þannig að lántakandi greiði þær krónur til baka sem hann fær að láni, þá viðurkennum við líka að á vissum sviðum í þjóðfélaginu er nauðsynlegt að veita önnur og betri kjör sem við oftast nær köllum félagslega aðstoð eða eitthvað annað í þá áttina. Ég skil frv. þeirra Alþfl.manna, sem hér er til umr., á þann veg að þeir vilji að því er varðar húsnæðismál veita þessa svokölluðu félagslegu aðstoð. Ég skil undirtektir annarra þm., sem hér hafa tjáð sig um málið og eru því samþykkir og lýsa yfir stuðningi svo að þeir séu líka sammála um að veita skuli vissa félagslega aðstoð svo að fólk hafi möguleika til að koma yfir sig þaki. Þetta hefur Sjálfstfl. líka viðurkennt í orði og á borði í gegnum tíðina og ég geri ráð fyrir því að það sé fyrst og fremst vegna þess að sá flokkur hefur haft það á stefnuskrá sinni að sem flestir einstaklingar í landinu eigi sínar eigin íbúðir.

Þetta frv., sem hér er á dagskrá, er nokkurs konar björgunarhringur sem verið er að kasta út til að halda þeim á floti um einhvern tíma sem hafa dottið í sjóinn og svamla þar í hafróti skulda, vaxta og vaxtavaxta, en það er öllum ljóst að þetta frv. er engin allsherjarlausn. Það er hvorki lausn fyrir þá sem nú þegar eru komnir í miklar skuldir né heldur nokkur lausn, minnsta tilraun til að leysa þann vanda þeirra sem standa frammi fyrir því að þurfa að koma sér upp húsnæði eða afla sér íbúða fyrir sig og sína. Satt að segja er ég alveg hissa á því að Alþfl., úr því að hann er á annað borð að hreyfa till. í þessum málaflokki, húsnæðismálunum, skuli ekki ganga miklum mun lengra en vera að flytja þetta frv. sem hefur ákaflega lítið að segja þótt það yrði samþykkt. Sannleikurinn er sá að í húsnæðiskerfinu eru engir peningar til lengur. Þeir sem fá lán fá 30% af byggingarkostnaði, sem er með allra lægsta hlutfalli sem þekkst hefur í tíð þessa sjóðs, og þeir sem fá þetta litla lán eru um leið komnir inn í þann vítahring sem hér hefur verið lýst í umr.

M.ö.o. blasir það við þeirri kynslóð sem vill nú gjarnan koma sér upp eigin húsnæði og framfylgja þeirri sjálfseignarstefnu sem verið hefur við lýði á Íslandi að hún hefur í engin hús að venda og er algerlega úti í kuldanum í vonleysi og ráðleysi. Það er af þessum sökum sem umr. um Búseta hafa vakið athygli og fengið hljómgrunn. Þar er um að ræða hóp fólks, þúsundir ungs fólks sem sér sér alls ekki kleift að sökkva sér í skuldir, sér sér ekki kleift að verða sér úti um sjálfseign og íbúð vegna þess að því fylgja óyfirstíganlegir skuldabaggar. Það er þetta fólk sem nú er að leita leiða til að koma sér upp byggingarsamvinnufélagi sem fylgir kaupleigufyrirkomulagi. Menn eru að rífast um hvort þetta form og þessi hópur, þetta félag Búseti, eigi að fá aðgang að kerfinu eða ekki. Menn eru m.ö.o. að rífast um hvort þetta félag eða einhverjir aðrir eigi að hafa forgang að þeim litlu peningum sem til eru, forgang að þeim vítahring sem kerfið býður upp á. Auðvitað er þetta algerlega óviðunandi ástand.

Því er haldið fram að forsvarsmenn og talsmenn þessa kaupleigufyrirkomulags, og þá líka þeir sem mæla því bót hér á þingi, séu að gera alla að leiguliðum í landinu, en ég leyfi mér að halda því fram að það sé hæstv. núv. ríkisstj. sem sé að gera alla hér, og sérstaklega unga fólkið, að leiguliðum í þessu landi með því að halda öllu niðri í húsnæðismálum, með því að veita ekki ríflegra fé til sjóðsins og með því að bæta ekki þau lánakjör sem þar eru við lýði.

Ég er sannfærður um að ungt fólk, jafnt mín kynslóð og þeir sem á undan hafa gengið, vill eiga sínar eigin íbúðir. Það vilja allir viðhalda sjálfseignarstefnunni. Þess vegna er það skylda þeirra flokka og þeirra ríkisstjórna sem hafa haft það á stefnuskrá sinni að stuðla að sjálfseign einstaklinganna að sjá til þess að úr þessu ófremdarástandi verði bætt hið fyrsta. Hvað er orðið um kosningaloforðin frá síðustu kosningum?

Það er ekkert nýtt af nálinni að húsnæðismál séu aðkallandi og brýn. Ég minnist þess úr síðustu kosningabaráttu, sem ég tók þátt í, að þá var þetta mál jafnvel efst á baugi að undanskilinni verðbólgunni sjálfri, og þá höfðu menn orð á því að það þyrfti að ná þegar á þessu kjörtímabili 80% í lánum af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Ég hef tekið eftir því að á þinginu 1982 fluttu þm. Sjálfstfl., það var að vísu fyrir kosningarnar, en þá fluttu fjölmargir þm. Sjálfstfl. í þessari deild ágæta þáltill. sem gekk í þessa átt, sem gerði ráð fyrir því að samanlögð lán húsnæðisstjórnar og lífeyrissjóða næðu 80% af byggingarkostnaði, og það átti að ná fram á kjörtímabilinu og lánin áttu að hækka mjög verulega strax á árinu 1983. Nú er komið árið 1985 og ég hef ekki orðið var við að stefnumótun nein sé í gangi. Hún er öll á reiki, hún er þá öll í huganum á hæstv. félmrh. sem talar út og suður, því miður, í þessu máli svo að ekkert er mark á takandi og enginn skilur upp né niður í. Hann er því miður ekki viðstaddur þessa umr. svo að ég mun ekki halda uppi mikilli gagnrýni á hann eða hans störf í þessum efnum sem væri þó full ástæða til.

Ég held því fram að sjálfseignarstefnan í húsnæðismálum sé þjóðhagslega sjálfsögð og mjög hagkvæm og það sé sjálfsagt að styðja fólk með félagslegri aðstoð í gegnum húsnæðismálakerfið, í gegnum Byggingarsjóðinn til þess að eignast sínar eigin íbúðir. Þetta frv., sem hér er á dagskrá, er góð viðleitni. Því fylgir sjálfsagt jákvæður hugur af flm. hálfu, en það er ákaflega lítið spor og hefur ákaflega lítið að segja frammi fyrir þeim risavaxna vanda sem nú ríkir. Ég hefði haldið að nær hefði verið að hv. Nd. hefði rætt um húsnæðismálin og lausnir á vandanum að frumkvæði ríkisstj. og að hér lægju fyrir tillögur frá hæstv. ríkisstj. um það hvernig hún ætlaði að bregðast við, um það hvernig hún ætlaði að koma til hjálpar, því að það eru þúsundir ungs fólks sem nú lifa í örvæntingu hér í landinu, ekki aðeins vegna atvinnu og vegna erlendra skulda, heldur líka vegna þess að það sér ekki fram á að geta fengið húsnæði fyrir sig og sína. Og það eru aðvörunarorð þegar fullyrt er að þetta unga fólk muni flýja land þó ekki væri af öðru en því að það getur ekki komið sér fyrir í þjóðfélaginu. Það þarf ekki að vísa til stúdentafunda í útlöndum eða einkaviðræðna til þess að komast að þeirri niðurstöðu að það er virkilega alvarlegt ástand fram undan. Og það eru mjög alvarlegir tímar ef ungt fólk í landinu sér sér ekki farborða og getur ekki komið sér upp eigin húsnæði fyrir sig og sína fjölskyldu. Ég skora því á hæstv. ríkisstj. að taka á sig rögg í þessu máli og leggja fram hið snarasta tillögur sem ekki gera aðeins ráð fyrir að vandi þeirra sem nú þegar eru með skuldabaggana á herðunum verði leystur, heldur líka að það verði einhver von fyrir þá sem enn bíða í biðröðunum þannig að þeir geti fengið fyrirgreiðslu hjá húsnæðismálastjórn og hjá Byggingarsjóði til þess að þeir geti ráðist út í það sem skiptir máli í húsnæðismálum, en það er að eignast sínar eigin íbúðir.