07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

101. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 105 flytjum við allmargir þm. Sjálfstfl., þ.e. allur þingflokkurinn utan hæstv. ríkisstj., till. til þál. um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, og ekki síst kjarnorkuveldin, sameinist um raunhæfa stefnu í afvopnunarmálum, sem leitt geti til samninga um gagnkvæma og alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti.

Jafnframt ályktar Alþingi að fela utanrrh. að láta gera úttekt á þeim hugmyndum sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, með sérstöku tilliti til legu Íslands og aðildar þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi. Á grundvelli slíkrar skýrslu verði síðan leitað samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um sameiginlega stefnu í þessum málum.“

Till. þessi hefur verið flutt a.m.k. tvisvar sinnum en ekki náð fram að ganga. Þá var flutt með henni ítarleg framsaga. Till. fylgir nokkuð ítarleg grg. Af þeim sökum sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það sem þar hefur komið fram nema í mjög litlum mæli. Till. þessi er tvíþætt, eins og fram kemur. Það er annars vegar almenn stefnuyfirlýsing um nauðsyn raunhæfrar stefnu í afvopnunarmálum sem geti orðið grundvöllur samkomulags milli þjóða heims. Eftir að þessi till. var flutt hafa þau góðu tíðindi borist að nýjar afvopnunarviðræður á mjög breiðum grundvelli muni fljótlega hefjast milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna og hljóta allir þeir sem vilja stuðla að friði í heiminum að líta til þeirra viðræðna með bjartsýni og von um að þær beri raunhæfan árangur.

Í annan stað er í till. ályktun um að fela utanrrh. að láta gera úttekt á þeim hugmyndum sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar með sérstöku tilliti til legu Íslands. Slík úttekt gæti orðið grundvöllur samstöðu meðal stjórnmálaflokka um sameiginlega stefnu í þessum málum. Þessi till. er því fyrst og fremst flutt til að leitast við að sameina menn um stefnu í einstökum þáttum friðar- og afvopnunarmála, þ.e. sérstaklega þeim þáttum sem snúa að Íslandi öðrum fremur.

Þessi mál eru auðvitað alþjóðleg í eðli sínu og engin þjóð getur látið þau fram hjá sér fara. En það eru þó ýmsar hugmyndir sem komið hafa fram og ræddar hafa verið, sem snerta Ísland meira en aðrar þjóðir. Ég nefni t.d. takmörkun vígbúnaðar í hafinu, ég nefni friðlýsingu ákveðinna hafsvæða og ég nefni hugmyndir um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, sem reyndar sérstök till. hefur verið flutt um hér á hv. Alþingi. Hlutlaus rannsókn, sem t.d. öryggismálanefnd gæti framkvæmt, mundi örugglega auðvelda íslenskum stjórnmálamönnum að taka afstöðu til þessara mörgu hugmynda sem uppi eru og snerta okkur Íslendinga sérstaklega.

Ég tek það sérstaklega fram að hefði þessi till. náð fram að ganga, sem er í eðli sínu þess efnis að allir stjórnmálaflokkar ættu að geta sameinast um hana, þegar hún var fyrst flutt fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan má vænta þess að fyrir hefðu legið nú upplýsingar og úttekt á hugmyndum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Sú till., sem hér hefur verið flutt sérstaklega um það efni, hefði þá hugsanlega verið óþörf. Um það skal ég þó ekki fullyrða en benda á að því fyrr sem starf af þessu tagi hefst því betra fyrir íslenska stjórnmálaflokka og íslenska stjórnmálamenn að átta sig á þessum mikilvæga málaflokki.

Ég ítreka að þessi till. er þess efnis að það ætti að vera unnt að ná samstöðu um hana. Í fyrra eða á síðasta þingi voru fluttar allmargar till. um friðar- og afvopnunarmál og þá var þess freistað í utanrmn. að ná samstöðu og sameinast um eina till. í því efni. Því starfi var ekki lokið þegar þingi var slitið á s.l. vori. Sameiginleg till. kom því ekki fram. Ég tek það sérstaklega fram að mér finnst að þessi till. sé þess eðlis að hún þyrfti ekki að lenda í slíku sáttastarfi því að efnislega ættu allir að geta sameinast um hana. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta en ég legg til að áður en umr. lýkur fari þessi till. til meðferðar utanrmn.