11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

198. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að þurfa að segja það sem ég nú þarf að segja. Mörg eru plöggin vitlaus sem koma hér inn á borð okkar þm. En þetta plagg, frv. þeirra hv. Kvennalistakvenna, eins og þær kalla sig, til útvarpslaga er tvímælalaust eitt allra vitlausasta plagg sem nokkurn tíma hefur verið lagt fram sem þskj. á hinu háa Alþingi. Ég skal rökstyðja þessi orð mín. Það er vandalaust.

Þetta er afturhaldsfrv. Í þessum efnum eru fulltrúar Kvennalistans afturhaldssamari en Alþb. og er þá langt til jafnað og mikið sagt. Þær vilja viðhalda einokun Ríkisútvarpsins. Þetta frv. gengur út á það. Það er bundið hinu gamla skipulagi og fulltrúar Kvennalistans heyra greinilega ekki kall hins nýja tíma. Sem sagt skilyrðislaus einkaréttur Ríkisútvarpsins.

Hvað er svo sagt hér? A.m.k. þrjár útvarpsrásir. A.m.k. ein sjónvarpsrás, staðbundið útvarp og staðbundið sjónvarp. Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir nefndi hér nokkrar tölur áðan. En staðreyndin er sú að fjármálahlið þessa plaggs, þessa frv. sem hér hefur verið lagt fram, er öll í myrkri, hún er öll í óvissu. Hv. flm. nefndi tölur um það að Ríkisútvarpið fengi tolltekjur og afnuminn yrði söluskattur af auglýsingum. Þetta er bara dropi í það kostnaðarhaf sem fylgja mundi ef þessar tillögur væru framkvæmdar, bara dropi í það kostnaðarhaf. Það eru engar áætlanir í þessu frv. um það hversu mikið þetta muni kosta, ekki nokkrar.

Auðvitað er vandalaust, hv. þm., að búa til tillögur sem kosta peninga. Það er enginn vandi. Það er hægt að unga þeim út á færibandi og það hafa þm. Kvennalistans gert á Alþingi. En þegar kemur til alvörunnar um það hvernig eigi að fjármagna þessa ágætu hluti, þá verður færra um svör og oftast engin svör. Öll fjármálahlið þessa máls er í brúnamyrkri. Þetta eru óljósir þankar út í loftið. Það eru sko hreint ekki hagsýnar húsmæður sem hafa samið þetta frv. Það eru ekki hagsýnar húsmæður. A.m.k. vildi ég ekki halda heimili með þeim.

Það er t.d. gert ráð fyrir óbreyttu skráningarkerfi og afnotagjaldafyrirkomulagi eins og raunar er í frv. hæstv. menntmrh. Það kerfi er hrunið. Það hefur verið sagt frá því í fréttum að dæmi séu um það að allt að fimm sjónvarpstæki sitt í hverju horni bæjarins séu skráð á sama nafn. Þetta kerfi er úr sögunni. Það er orðið ónýtt. Það er ekki hægt að nota það lengur til að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins. Og það ber að viðurkenna. Þá meginstaðreynd verða menn að viðurkenna. Útvarpsráð, sú vonda stofnun, á að leggjast af í núverandi mynd og það er talað um að þar eigi tilviljunarúrtak að ráða. Það er ekkert tilviljunarúrtak sem ræður ef menn gefa sér það fyrir fram að það eigi að vera sjö konur og sjö karlar, þetta fólk eigi svo e.t.v. að vera á ákveðnum aldri og búa á ákveðnum stöðum á landinu. Þá er ekki lengur um að ræða neitt tilviljunarúrtak. Og ef útvarpsráð er svona vont, þá spyr ég hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur: Hvers vegna sótti Kvennalistinn það í fyrra af slíkum ofurþunga að fá fulltrúa í þetta vonda, pólitíska útvarpsráð sem sífellt er að misnota aðstöðu sína, eftir því sem hér er sagt?

Hér segir á bls. 9, með leyfi forseta, í grg. frv. og á því óska ég skýringa:

„Það getur einnig reynst starfsmönnum erfitt að gæta fyllsta hlutleysis í starfi þegar úrslitavald til að ákveða dagskrá er að lokum í höndum fulltrúa pólitískra afla“, m.a. í höndum fulltrúa Kvennalistans. Ég spyr: Hvað þýðir þessi setning? Hún er mér torskilin.

Það mætti kannske í þessu sambandi líka víkja að tillögum Bandalags jafnaðarmanna sem einnig vill leggja niður útvarpsráð. En hvað á að koma í staðinn í tillögum Bandalags jafnaðarmanna? Jú, menntamálanefndir Alþingis. Nú eru það ágætar nefndir. En halda menn að það yrði til sérstakra bóta að menntamálanefndir Alþingis tækju að verulegu leyti við hlutverki útvarpsráðs? Ég efast um það. Ég hef miklar efasemdir um það.

Hv. þm. nefndi hér tvö nöfn sem höfunda frv. Það kom mér ekkert á óvart. Ég er ekki ókunnugur innanhúss í sjónvarpinu og útvarpinu og það þarf engan fingrafarasérfræðing til þess að sjá hverjir hafa farið höndum um þetta frv. Og það eru fleiri en ég, hv. þm. Sigríður Dúna, sem telja þetta plagg ekki mjög gáfulegt.

Í leiðara Dagblaðsins hinn 7. febr. s.l., sem er skrifaður af Jónasi Kristjánssyni ritstjóra, segir, með leyfiforseta:

„Í Ríkisútvarpinu hefur verið búið til frv. til l. um að einokun þess skuli ekki rofin, heldur á formlegan hátt breytt í einokun starfsmanna.“ Taki menn síðan eftir: „Kvennalistinn hefur verið gabbaður til að flytja frv. sem er vitlausasta plaggið á Alþingi um þessar mundir.“

Nú veit ég ekki í sjálfu sér hversu kunnugur þessi leiðarahöfundur er innanstokks hjá Kvennalistanum. Þó segir mér svo hugur um að hann sé þar ekki allsendis ókunnugur. Hann hefur a.m.k. hárréttar upplýsingar um það hvernig þetta frv. hefur orðið til. Og eins og mér hefur verið tjáð á mínum gamla vinnustað, þá var það nákvæmlega svona sem þetta frv. varð til. Ég er hjartanlega sammála Jónasi Kristjánssyni ritstjóra DV í þessum leiðara þar sem hann segir að þetta sé vitlausasta plaggið á Alþingi um þessar mundir. Það er dagsatt. Og mér segir svo hugur um, þó að ég ætli að eyða nokkrum tíma í að tala um þetta mál núna, að Alþingi muni ekki verja miklum tíma í að fjalla um þetta mál. Með fullri virðingu fyrir hv. þm. Kvennalistans, þá verða þær að viðhafa vandaðri vinnubrögð en þetta ef þær vilja láta taka mark á sér hér á hinu háa Alþingi.

Við skulum skoða aðeins það sem voru meginatriðin í ræðu hv. þm. Sigríðar Dúnu hér áðan. Það er þetta mikla tal um valddreifingu. Er verið að tala um atvinnulýðræði? Nei, aldeilis ekki. Valddreifing, það er þetta uppáhaldslykilorð þeirra hjá Kvennalistanum, orð sem ég held að þær viti bara ekkert hvað þýðir.

Í vikuritinu Time 23. des. s.l. var grein um þann stjórnmálaflokk í Þýskalandi sem kallaður hefur verið Græningjarnir og ber mjög fyrir brjósti sum þau sömu mál og Kvennalistinn hér. Það var uppi ágreiningur í þeim flokki. Það eru nefnilega sumir þar sem telja að ekki sé rétt að skipta um menn í öllum trúnaðarstöðum á árs fresti eða tveggja ára fresti með réttlætingunni valddreifing. Þar var viðtal við Petru Kelly sem hefur verið einn helsti talsmaður Græningjanna í Þýskalandi. Hún sagði: „Þetta tal um valddreifingu er fullkomin hræsni.“ Mér fundust þetta athyglisverð ummæli og ég held að þau séu líka sönn.

Samkvæmt þessu frv. á að afnema allar yfirmannastöður. Það er greinilegt að deildarstjórar í útvarpi og sjónvarpi fara eitthvað í taugarnar á þeim sem sömdu þetta frv. Og eftir að hv. flm. hefur nefnt nöfn höfundanna get ég að vissu marki kannske skilið það án þess að farið sé nánar út í þá sálma. Það á enginn að ráða, það eiga allir að ráða. Hugsi menn sér skip þar sem allir eru skipstjórar. Færi það skip nokkurn tíma í róður? Nei. Þetta er ekki atvinnulýðræði sem hér er verið að tala um. Þetta er stjórnleysi og rugl, það fullyrði ég. Hvernig ætla menn að reka fréttastofu t.d. ef starfsmennirnir eiga að halda fund um hvert einasta mál og greiða atkv. um hvernig eigi að fjalla um það? Ég skal segja ykkur það, hv. þm., að ef þetta kerfi þeirra Kvennalistakvenna yrði tekið upp í Ríkisútvarpinu, þá yrðu afköstin, sem sumum þykja nú kannske ekki mikil fyrir, nákvæmlega engin vegna þess að starfsfólkið mundi ekkert annað gera en sitja á fundum og reyna að taka ákvarðanir. Það væru engir til að taka af skarið og starfsemi fréttastofanna yrði einn samfelldur fréttafundur þar sem menn diskúteruðu fréttirnar. Það yrðu engar fréttir, það yrði engin útsending.

Þetta byggist á svo hlálegum misskilningi á stjórnun og atvinnulýðræði að það er í rauninni sorglegt til þess að hugsa. Það yrði að halda fund um það hvort ætti að kaupa nýjan yddara. Það má enginn ráða, það má enginn vera yfirmaður. Ef slíkt stjórnunarlögmál réði í stofnun eins og Ríkisútvarpinu, hvernig halda menn þá að þetta færi? Ég veit að hv. þm. skilja þetta. Það þarf ekki að hafa um þetta svo mörg orð. Þess vegna þykir mér sorglegt að hv. flm. skuli hafa eytt jafnmiklum tíma í að undirbúa sig eins og hún hafði gert fyrir þessa ræðu, sem hún flutti hér áðan, sem var ágæt frá hennar sjónarmiði, til að tala fyrir jafnvitlausu plaggi, plaggi sem Jónas Kristjánsson ritstjóri DV fullyrðir að Kvennalistinn hafi verið gabbaður til að flytja. Þetta þykir mér miður. Þessir ágætu einstaklingar, sem hér sitja fyrir Kvennalistann, eiga annað skilið en að vera hafðir að fíflum með þessum hætti, að vera gabbaðir til að flytja vitlaus frv. Þetta er sorglegt.

Ég skal nú ekki, virðulegi forseti, hafa um þetta mikið fleiri orð. Þetta valddreifingartal er út í hött. Það mætti svo sem fara í gegnum greinar frv. og minnast á ýmis atriði. Ég hef áður um það getið að fjármálahliðin er öll botnlaus og í myrkri. Innheimtukerfið á að vera óbreytt, innheimtukerfi sem er hrunið og allir eru sammála um að verður að breyta.

Nei, allt þetta frv., aðdragandi þess og tilbúningur er því miður ein sorgarsaga. Bara eitt dæmi hér sem ég hjó eftir í ræðu hv. flm. Sigríðar Dúnu. Þetta notendaráð á að setja á laggirnar með úrtaki og það á að skylda menn til að taka sæti í því hvort sem menn vilja eða ekki. Og það sem meira er, það á að skylda atvinnurekendur til að borga þessu fólki kaup. Ég efast um að hægt sé með svona frv. að leggja slíkar skyldur á einstaka atvinnurekendur. Ég efast um að það fái staðist að lögum. Ég hef miklar efasemdir um það. Þetta frv. því miður byggir á alveg einstakri vanþekkingu á eðli og hlutverki Ríkisútvarpsins, alveg einstakri vanþekkingu. Án þess að hafa um það öllu fleiri orð, þá er sjálfsagt, virðulegi forseti, að vísa þessu máli til menntmn. þessarar deildar sem tekur síðan ákvörðun um hvaða meðferð það fær. En ég samhryggist þeim hv. þm. Kvennalistans sem hafa látið gabba sig til að flytja þetta mát hér inn á Alþingi.