12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. tók svo til orða að hér væri um brýnasta hagsmunamál landsins að ræða. Ég held að það sé ekki of sterkt til orða tekið. Ég segi að hér sé um lífsspursmál að ræða. Það er augljóst að ef niðurgreiðslum og styrkjum með sjávarútvegi í samkeppnislöndum okkar er haldið áfram er kippt grundvellinum undan lífskjarasókn Íslendinga og við drögumst aftur úr grannþjóðum okkar. Þá er kippt grundvellinum undan því að við getum búið hér og haldið uppi því menningarlífi sem við hljótum að gera kröfur til.

Ef svo fer fram sem horfir, að þessir styrkir aukast stig af stigi, þá er augljóst að það var í raun ekki gagn að landhelgisstríðinu því að það á að leggja okkur í viðskiptastríði með óheilbrigðum aðferðum eftir þann sigur sem við unnum í landhelgisstríðinu. Þetta er sannleikurinn í þessu máli.

Ég hef ítrekað gert þessi mál að umtalsefni í utanrmn. og sagt, eins og hæstv. ráðh., að að þessu ættum við að snúa okkur öllu öðru fremur. Fyrir níu mánuðum óskaði ég eftir því sérstaklega þar að tekin yrði saman grg. um hvernig styrkjum væri háttað í grannlöndum og samkeppnislöndum okkar. Ég fagna því, sem kom fram hjá sjútvrh., að hann hefur lagt því lið og sú athugun er nú í fullum gangi.

Ég get ekki litið öðruvísi á en að þessi styrkjaaðferð sé brot á þeirri stefnu sem hefur verið boðuð bæði innan GATT og innan EFTA. Sú stefna er í grundvallaratriðum sú að afnema eigi verndartolla. Styrkir af þessu tagi eru algerlega hliðstæðir við verndartolla. Þeir hafa nákvæmlega sömu áhrif og verndartollar og þeir spilla jafnmikið fyrir samkeppnisaðstöðu og slíkar aðgerðir gera. Þess vegna höfum við siðferðilegan rétt til þess að berjast í þessu máli af fyllstu hörku.

Hæstv. viðskrh. sagði áðan að þegar samningarnir um EFTA voru gerðir 1960 hefðu Norðmenn gert fyrirvara um rétt sinn til að styrkja sjávarútveg. Það er í sjálfu sér rétt. En fyrsta spurningin sem ég hlýt að spyrja er: Hverjir voru styrkirnir 1960? Og hvernig eru þeir núna í samanburði við það sem þeir voru þá? Hafa þeir ekkert aukist? Það væri þá a.m.k. áfangi að skoða þann hlutann og hvort ekki er hægt að fá þá eitthvað niður fyrir það stig sem þeir voru í 1960 frekar en þeir séu alltaf á leiðinni upp fyrir það stig sem þeir voru í 1960. Það voru ákveðnar forsendur sem þá lágu fyrir. Þá gengu menn að ákveðnum atriðum, nefnilega þeim styrkjum sem þá voru við lýði, og gerðu vitaskuld ráð fyrir því að frekar mundi draga úr þeim heldur en hitt.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að við verðum að nota hvern þann vettvang sem býðst til þess að ráðast að þessu styrkjakerfi, ekki bara Norðmannanna heldur langtum fleiri þó styrkjakerfi Norðmanna og reyndar Kanadamanna sé það alvarlegasta í þessum efnum. Í byrjun janúar s.l. var ég fulltrúi á fundi hjá þingmannanefnd EFTA og þá notaði ég einmitt tækifærið til að gera þetta að umtalsefni og lagði til á þeim fundi að styrkjakerfi í sjávarútvegi yrði gert að sérstöku umræðuefni innan þess vettvangs. Það varð fátt um svör hjá Norðmönnum, en aðrir tóku undir að vel gæti komið til álita að taka það sérstaklega til umfjöllunar. Á vettvangi Evrópuráðsins hef ég líka ítrekað reynt að ýta við þessum málum og fékk ég m.a. á s.l. ári samþykkta till. þar sem styrkjakerfið var gagnrýnt mjög.

Mér er ljóst að þetta hrekkur mjög skammt. Mest munar um ef ríkisstj. sjálf, utanrrn. og viðskrn., beitir sér af fyllstu hörku í þessu máli. Ég tel að við höfum siðferðilegan rétt með okkur í þessu máli og ég ítreka að þetta stríð verðum við að vinna. Það er lífsspursmál. Annars var landhelgisstríðið í raun og sannleika unnið fyrir gýg ef við verðum svo lagðir að vellir í viðskiptastríði með óheiðarlegum aðferðum.