12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vænti að við heyrum eitthvað skarpara frá hæstv. viðskrh. í þessu máli áður en umr. um það lýkur hér. Upplýst hefur verið að Norðmenn hafi gert fyrirvara við inngöngu sína í EFTA varðandi styrki til síns sjávarútvegs. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Íslendingar hafi ekki gert slíkan fyrirvara við inngöngu í EFTA 10 árum síðar, og ef ekki, hvað hafi þá valdið því. Vissir fyrirvarar voru gerðir.

Ég minni á það í þessu sambandi að árið 1979 tókst okkur að ná fram á vettvangi EFTA sérstökum tollverndaraðgerðum fyrir íslenskan iðnað með álagningu aðlögunargjalds. Það var af hálfu embættismanna viðskrn. á þeim tíma talið óvinnandi verk og engin rök fyrir slíku. Það þurfti að ganga fram með pólitískum ákvörðunum þáverandi ríkisstj., þáverandi viðskrh. Svavars Gestssonar og iðnrn., með sendinefnd til allra EFTA-ríkja. Það fóru tvær nefndir til allra EFTA-ríkja nema Portúgal til þess að tala máli okkar í þessu efni. Það var til lykta leitt á vettvangi EFTA með samhljóða samþykki að við fengjum að leggja á tolla sem embættismenn viðskrn. töldu þá að væri nánast móðgun að orða á þeim vettvangi.

Við verðum að vinna í þessu máli af pólitískri dirfsku og ákveðni. Nóg er samt sem á íslenskum sjávarútvegi hvílir, m.a. það að þurfa að greiða þriðjungi hærra olíuverð en keppinautar okkar í nágrannalöndunum, og heyrist næsta lítið um aðgerðir stjórnvalda í því brýna hagsmunamáli.