12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2824 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ætlun mín með þessari fsp. var ekki sú að menn efndu til deilna hver við annan heldur áttuðu menn sig á því hvernig væri komið í samkeppni okkar á mörkuðunum og hvernig óheiðarleg samkeppni Norðmanna fer með okkur.

Norðmenn geta haft sína byggðastefnu og allt í lagi með það. En sú byggðastefna sem þeir reka á ekki að koma niður á okkur á mörkuðunum. Hver einasti útflytjandi, sem um þetta fjallar, segist finna fyrir því hvernig þessum ríkisstyrkjum er fyrir komið, segist finna mjög verulega fyrir undirboðum Norðmanna á mörkuðunum. Það er það sem skiptir máli. Það skiptir máli að ná samstöðu við Norðmenn á mörkuðunum í stað þess að þeir séu bjóðandi niður okkar vöru. Ég tel það mikið hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarúfveg, fyrir íslensku þjóðina, að við bregðumst hart við þessari styrkjastefnu.

Styrkjastefna er almennt af því illa. Ég minni á það í tilefni af ummælum hv. 8. þm. Reykv. að Norðmenn hafa líka sína byggðastofnun og þeir styrkja sinn sjávarútveg á þann hátt sem hann taldi Framkvæmdastofnun gera, með lánafyrirgreiðslu. Það kemur að auki þeirra ríkisstyrkja sem. okkur er sagt frá. Ég furða mig á því ef menn halda að þessi styrkjastarfsemi komi ekki niður á íslenskum sjávarútvegi. Ég tel það mikið óraunsæi og mikið sakleysi manna ef þeir halda að svo sé ekki.

Ég tel að það þurfi að nota vettvang Norðurlandaráðs núna á næstunni til að gera harða hríð að Norðmönnum í þessum efnum og krefjast þess að þeir komi ekki fram við okkur eins og þeir hafa gert til þessa á fiskmörkuðum erlendis. Óheiðarleg samkeppni þeirra hefur valdið okkur miklu tjóni og á eftir að valda íslensku þjóðinni miklu tjóni áfram ef ekkert verður að gert. Ég skora á viðskrh., sjútvrh. og fleiri, sem munu sitja Norðurlandaráðsþingið, að gera allt sem unnt er til að gera Norðmönnum það ljóst að þetta verði ekki þolað af okkur Íslendingum, þetta séu óheiðarlegar aðfarir sem komi í bakið á íslenskum sjávarútvegi og rýri lífskjör íslensku þjóðarinnar.