12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh: fyrir greið svör við fsp. minni og sýnir það að hann er snarráður og vel útbúinn í þessari umr. Það er þó ýmislegt í þessum upplýsingum hans sem vekur nokkuð til umhugsunar. Ég sé það t.d. að Morgunblaðið hefur fengið nærri 600 þús. í sinn hlut fyrir þessar auglýsingar á meðan NT og Þjóðviljinn fá ekki nema 43 þús. hvort og Alþýðublaðið ekki nema 29 þús. DV fær nærri 300 þús. á sama tíma. Svo er þetta Morgunblað að skrifa skammaleiðara og hreyta óhroða í hæstv. ráðh. eftir þessa þjónustu. Mér kemur þetta mjög á óvart. NT er hins vegar alltaf að bera blak af ráðh. og láta á því bera að hann sé fjmrh. og segja frá því sem hann er að bralla. DV kastar hins vegar ekki steinum að ráðh. og það kann að meta þessa þjónustu því að mér skildist á því í gær að hæstv. fjmrh. hefði leyst eigin hendi alvarlega kjaradeilu sem stóð í þjóðfélaginu — bara prívat og persónulega — með því að heita sjómönnum skattfríðindum.

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar og ég áskil mér rétt til að gera þær að umtalsefni síðar.