13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

275. mál, almannavarnir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fyrir gríðarmikið plagg með fskj. og ýmsum ályktunum þeirrar nefndar sem vann að málinu. Ég vildi vekja athygli hv, þm. og um leið þeirrar nefndar, sem um málið á að fjalla, á nokkrum atriðum í þessu viðamikla plaggi. Það er fyrst á bls. 12. Þar stendur, með leyfi forseta, í kafla um reglugerðir 2.1.3:

„Nefndin leggur fram tillögur að reglum um loftvarnabyrgi og öryggisbyrgi fyrir fólk að leita skjóls í undan loftárásum, skotárásum og geislavirku úrfalli í hernaði. Reglurnar kveða á um skyldur húsbyggjenda, sveitarfélaga og ríkis um gerð þeirra.

Rétt er að geta þess að meðal erlendra sérfræðinga eru uppi mismunandi viðhorf um gildi öryggisbyrgja í kjarnorkustyrjöld. Því leggur nefndin til að skipuð verði sérstök nefnd sérfræðinga, almannavarnaráði til ráðuneytis, um endurskoðun á heildaráætlun um almannavarnir gegn hugsanlegri kjarnorkuvá og mögulegri beitingu eiturefna.“

Á bls. 28 í grein 3.2.3. stendur: „Nefndinni er kunnugt um að skiptar skoðanir eru á gildi öryggisbyrgja og fólksflutningaáætlana sem viðbúnaði gegn vá af völdum kjarnavopna. Því leggur nefndin til að skipuð verði sérstök nefnd sérfræðinga, almannavarnaráði til ráðuneytis, um endurskoðun á heildaráætlun um almannavarnir gegn hugsanlegri kjarnorkuvá og mögulegri beitingu eiturefna. Almannavarnaráð leggi síðan endurskoðaða áætlun fyrir ríkisstj. til frekari ákvörðunar.“

Af þessu tilefni vildi ég leggja til að það yrði Alþingi sem þessi endurskoðaða áætlun yrði lögð fyrir, þegar til kæmi, til frekari ákvörðunar en ekki ríkisstj.

Ég vil síðan að lokum beina athygli hv. þm. að bókun og séráliti og öllu því sem eftir fer frá bls. 59 og út til loka þessa plaggs, en sérstaklega að bls. 62 — og ég vitna, með leyfi forseta, í bréf frá Guðjóni Magnússyni sem nú gegnir embætti landlæknis, en þar stendur:

„Í ríkjum þar sem búast má við kjarnorkuárás er alger samstaða meðal læknahópa sem kynnt hafa sér kosti og galla skýla að þau séu lítils virði og líklega verri kostur en enginn. Rökin eru m.a. þau að skýli ali á falskri öryggiskennd, við sprengingu í nágrenni skýlis veiti skýli mjög takmarkaða vörn og því ekki skynsamlegt að leggja áherslu á fjölgun þeirra né að búa þau vistum.“

Ég vona að hv. þm. hafi veitt þessu athygli.