14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tel rétt að það komi fram að mér hefur orðið enn meira á en hæstv. forseta Ed. Ég tók mér það vald í gær að minnast á það við skrifstofustjóra Alþingis að mér þætti illa farið borð það er við sitjum við hér frammi. Mér er þó ljóst að til þess hafði ég ekkert umboð og ekkert vald þar sem ég er enginn forseti. Ég tel rétt að það komi þá fram, ef mannleg samskipti eru svo hér innan þings að það er brot á þingsköpum ef menn gefa hvor öðrum bendingar um það sem miður fer í þinginu, þá tel ég mér skylt að játa þessa yfirsjón, herra forseti.