14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

294. mál, jöfnun vöruverðs

Flm. (Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir):

Herra forseti. Sú þáltill. er ég mæli fyrir á þskj. 475 um jöfnun vöruverðs hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir aðgerðum til að jafna verð á vörum í landinu í því skyni að draga úr því misræmi sem er í vöruverði eftir búsetu manna.

Sérstaklega verði athugað:

1. Áhrif flutningskostnaðar á vöruverð. M.a. verði kannað hve mikil áhrif skattlagning á flutninga hefur á vöruverð úti á landi.

2. Rannsakað verði hvernig bætt skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar tryggi sem best jöfnuð í vöruverði.“

Þessi þáltill. um að leitað verði leiða um meiri jöfnun vöruverðs varðar mikilvægan þátt í lífsafkomu fólks úti á landsbyggðinni. Ástæða þess að ég flyt þessa till. er að ég tel íbúa smærri og afskekktari byggðarlaga bera skertan hlut frá borði bæði hvað varðar vöruverð, vöruval og þjónustu á því sviði. samið er um kaup og kjör fyrir alla landsmenn og því sanngirnismál að hlutur landsbyggðarinnar sé sem réttlátastur í þessum efnum sem öðrum svo að lífskjör fólksins í landinu séu sem líkust, enda hefur margt verið gert gott í þá átt.

Verðjöfnun á olíu og bensíni var lögfest þann 18. febrúar árið 1953. Verðjöfnunargjald er á áburði og sementi og það sama á við um landbúnaðarvörur. Flutningskostnaði á þeim vörutegundum sem ég hef nefnt er jafnað út og því ætti ekki að vera ýkja erfitt að nota svipaðar reglur við jöfnun verðs á öðrum nauðsynjavörum. Ýmis framleiðslufyrirtæki hérlendis hafa tekið upp jöfnun flutningskostnaðar og selja vöruna á sama verði hvert sem hún er send.

Vert er svo að minnast þeirra ágætu þm. sem unnið hafa að framgangi þessa máls á árum áður og hverju þeir fengu ágengt. Fyrir 15 árum var þessu máli hreyft á þingi en þá varð lítið um framkvæmdir. Á 93. löggjafarþingi árið 1972 var enn flutt þáltill. svipaðs efnis. Voru flm. þeir Matthías Bjarnason, Sverrir Hermannsson, Guðlaugur Gíslason og Halldór Blöndal. Í till. þessari var lagt til að Alþingi skipaði fimm manna milliþinganefnd til þess að — og vísa ég í áðurnefnda þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„1. Kanna þátt flutningskostnaðar í mismunandi vöruverði í landinu.

2. Skila áliti um hvort tiltækt væri að jafna kostnað við vöruflutninga með stofnun og starfrækslu vöruflutningasjóðs þannig að verð á allri vöru verði hið sama á öllum stöðum á landinu sem vöruflutningaskip sigla til og flugvélar og vöruflutningabílar halda áætlun til.“

Þessi milliþinganefnd átti einnig að gera tillögur um bætt skipulag vöruflutninga á sjó, landi og í lofti með tilliti til breyttrar tilhögunar frá helstu viðskiptaborgum Íslands erlendis til hinna ýmsu hafna hér á landi. Nefndinni var gert að hraða störfum svo að frv. yrði lagt fyrir næsta þing. Þetta var árið 1972 eða fyrir 13 árum síðan. Þessi nefnd skilaði síðan niðurstöðum sínum eftir mikla vinnu í október 1976 eða sem sagt fyrir rúmum átta árum.

Í kjölfar þessarar athugunar á bættum samgöngum og jöfnun vöruverðs var ýmsu góðu komið til leiðar. Menn voru sammála um að stofnun Verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga væri ekki sú leið er fara ætti. En stórt átak var gert í skipulagningu á rekstri Ríkisskips með tilkomu bættra flutningshátta í formi gámaflutninga. Það annaðist starfsmaður nefndarinnar, núverandi forstjóri Ríkisskips, Guðmundur Einarsson, sem vann af miklum dugnaði í þessu máli.

Þarna er átt við ferðir á fasta viðkomustaði í kringum landið. Flóabátar gegna og mikilvægum þætti í þessum flutningum. Einnig áunnust úrbætur í landflutningum en ekki nægileg skipulagning þeirra innan landsfjórðunganna og mun ég víkja að þeim þætti á eftir.

Á síðustu árum hefur orðið umtalsverð aukning á innflutningi varnings erlendis frá til þess landsfjórðungs er varan á að fara til. Þar vil ég nefna siglingar Norrænu og skiparekstur Austfars hf. á Seyðisfirði. Þessir flutningar eru til mikilla hagsbóta fyrir Seyðisfjörð og ekki síst fyrir atvinnuvegina í fjórðungnum. Ávinningur þessarar nefndar verður að teljast allgóður og því vek ég máls á þessu. Ég tel að halda verði áfram skipulagðri vinnu að þessum málum uns takmarkinu er náð og verðlag sé sem jafnast. Þjónusta verslunarinnar þarf að geta náð því takmarki að fullnægja þörfum neytandans og það gerist hér á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Eftir að álagning var gefin frjáls hefur skapast eðlileg samkeppni. Á svo stórum markaði sem hér er verður veltuhraðinn meiri og því skapast möguleikar á hagstæðu vöruverði og meira vöruúrvali. Íbúar minni byggðarlaganna búa ekki við þau skilyrði að geta litið á það sem sjálfsagðan hlut að geta farið út í búð og keypt það sem þá vanhagar um, gengið á milli stórmarkaða og tryggt sér sem hagkvæmust innkaup. Þar verður að láta sér nægja eina matvöruverslun eða í mesta lagi tvær verslanir sem keppa verða um þann þrönga markað er hér um ræðir. Þessar verslanir búa auk þessa við stopular samgöngur og oft samgönguteppur að vetrarlagi en verða samt að tryggja neytandanum þær brýnustu nauðsynjar sem við getum ekki án verið. Vil ég í því sambandi benda á staði þar sem vegum er aðeins haldið opnum tvo daga í viku yfir vetrartímann. Aðra daga er aðeins um fólksflutninga með snjóbíl að ræða og sums staðar ekki einu sinni það, alger einangrun ríkir.

Það er augljóst að þegar ungt fólk velur sér stað til búsetu þarf það að vega og meta nokkur stór atriði. Efst á blaði eru atvinnumöguleikar. Þá koma húsnæðismál, heilbrigðisþjónusta, menntunaraðstaða, samgöngur og síðast en ekki síst verslun og þjónusta. Allir þessir þættir verða að vera í góðu lagi til að búseta teljist fýsileg. Sem betur fer eru mörg byggðarlög vítt og breitt um landið sem uppfylla öll ofangreind skilyrði, þó með þeirri undantekningu að þjónusta, svo sem á neyslu vöru, er þar miklum mun dýrari.

Í örlítilli könnun sem ég framkvæmdi í gær í matvöruverslun úti á landi og í stórmarkaði í Reykjavík kom eftirfarandi munur í ljós:

Kjúklingar í stórmarkaði 202,90 kr., landsbyggðin 272 kr. Appelsínur í stórmarkaði 46,60 kr., landsbyggðin 67 kr. Epli 54 kr., landsbyggðin 63 kr. Laukur í stórmarkaði 30,60 kr., verslun á landsbyggðinni 44,80 kr. Egg í stórmarkaði 113 kr., landsbyggðinni 165 kr. Grænar baunir 19,90 kr. í stórmarkaði, 27,40 kr. á landsbyggðinni. Kaffi í stórmarkaði 42,90 kr., verslun á landsbyggðinni 48 kr. Tómatsósa í stórmarkaði 24,50 kr., verslun á landsbyggðinni 34,10 kr. Ef ég legg saman allar þessar prósentur, sem munar á verðinu þarna á milli, kemur út að meðalverðmunurinn er 35%. Þessar vörur kosta í stórmarkaði 534,40 kr. en í verslun á landsbyggðinni 721,30 kr. Þetta þýðir að húsmóðir sem verslar fyrir helgina í Reykjavík í stórmarkaði fyrir 2000 kr. þarf, til að fá sömu vöru úti á landi, að greiða 2700 kr. Hún þarf sem sé að vinna einn vinnudag aukalega í frystihúsinu í hverri viku.

Það er ekki ætlun mín að halda því fram að allur þessi gífurlegi verðmunur komi til vegna flutningskostnaðar. Þarna spila auðvitað mörg önnur atriði inn í. Þetta dæmi ætti þó að sýna okkur að allar aðgerðir til lækkunar vöruverðs á landsbyggðinni eru lóð á vogarskálina til að sporna við þeirri miklu búseturöskun sem nú á sér stað. Flutningskostnaðurinn verður þá alltaf stór liður því að póstverslun er oft það eina sem grípa verður til.

Flutningur með flugvél er að sjálfsögðu dýrastur en fljótastur þangað sem flogið er, en það eiga ekki allir því láni að fagna að hafa flugvöll. Dæmi um kostnað ætla ég aðeins að nefna. Undir 0.4 kg kostar í Egilsstaði 137 kr., 5–9 kg 198 kr. og 10–14 kg 256 kr. Ef flytja þarf stærri stykki, eins og 100 kg, kostar það 1466 kr. Og ef mikið liggur á og óskað er eftir hraðsendingu er þessi upphæð tvöfölduð, eða 2932 kr. Oft verður að grípa til þessarar lausnar ef um varahlut í atvinnutæki er að ræða. Ég hélt satt að segja að flugvélin flýtti sér ekkert meira þó að hraðsending væri innanborðs. Þessi taxti er lítils háttar breytilegur eftir landshlutum en sá munur er óverulegur og verður ekki tíundaður hér.

Þessa fljótvirku þjónustu kemst enginn landsbyggðarþegn hjá að nota. Vanti þig varahlut í þvottavélina þína, trilluna eða togarann er ekki um annað að ræða en grípa til símans ódýra og panta. Ég ætla að nefna lítið dæmi. Það er örugglega afar algengt að öðru leyti en því að hluturinn var ódýr en það er tiltölulega dýrast að fá litla vöru ódýra senda.

Það var pantað eitt stk. plasthjól í þvottavél. Vöruverðið er 25 kr., akstur á flugvöll 100 kr., flutningsgjald 137 kr., póstkrafa 50 kr., hóflegur símreikningur 65 kr. Samtals eru þetta 377 kr. fyrir utan tímann sem þetta tók og óþægindin er af þessu hlutust.

Með flutningabílum er töluverður munur á flutningsverði eftir ákvörðunarstöðum á landinu ef um lítið magn er að ræða. En ef flutningarnir eru yfir 100 kg jafnast flutningsgjöldin út. Skipaútgerð ríkisins býður ódýrustu flutningsgjöldin en þar koma inn í tekjur hafnanna, svonefnd vörugjöld. Verðskrá þeirra sundurliðast þannig: Flutningsgjaldið fyrir 100 kg er 137 kr., útskipun verður 78 kr., vörugjaldið 17 kr., uppskipun 78 kr. og vörugjald 18 kr. Samtals eru þetta 330 kr. Skipaútgerðin er rekin með ríkisstyrk svo að þar má segja að komi inn í flutningsstyrkur. En þetta gagnast ekki öllum landsmönnum. Þar sem skip koma aldrei verður að leita annarra leiða.

Póstflutningar eru ódýrastir en um leið oft afar óhagstæðir innan sama landsfjórðungs. Dæmi um þetta langar mig aðeins að nefna. Bréf og bögglar sem fara eiga frá Djúpavogi til Breiðdalsvíkur eru fyrst sendir til Hafnar í Hornafirði, þaðan til Reykjavíkur, frá Reykjavík til Egilsstaða, þaðan er pósturinn fluttur með bifreið, trúlega sérleyfi, til áfangastaðarins. Tekur þetta allt sinn tíma og geta menn séð að af þessu geta skapast mikil óþægindi ef mikið liggur á og pósturinn er áríðandi.

Dæmi eru og um það að flutningabílarnir keyri hver á eftir öðrum til sama áfangastaðar og renni hver af öðrum upp að dyrum hjá kaupmanninum, einn með mjólkina, annar brauðið og sá þriðji með grænu baunirnar. Sama má segja um dreifingu á bensíni og olíu. Skipin losa hvert frá sínu olíufélagi á nálægum höfnum og olíuflutningabílar mætast svo á miðri leið á sömu áfangastaðina. Þessu verður að breyta og skipuleggja allt upp á nýtt. Það er staðreynd að með því að tryggja flutningsaðilum — hér á ég við skip og bíla trygga frakt mánaðarlega, má lækka flutningskostnaðinn allverulega. Um leið hlýtur verulegur rekstrarkostnaður að sparast hjá flutningafyrirtækjunum og ætti það að verða öllum í hag.

Ég legg til í þáltill. minni að kannað verði hver áhrif skattlagning á flutninga hefur á verðmyndun vörunnar. Það gefur auga leið að því oftar sem skipa þarf upp vöru eða skipta um flutningstæki og/eða greiða vöruna í póstkröfu, því meiri kostnaður leggst á hana í formi flutningsgjalda, vörugjalda, póstkröfukostnaðar og fleira. Því er nauðsynlegt að gæta ýtrustu hagkvæmni í allri skipulagningu á vöruflutningum og póstþjónustu á Íslandi.

Herra forseti. Eins og ég minntist á í upphafi máls míns er tilgangur þessarar þáltill. að jafna kjör manna hvar á landinu sem þeir búa. Jöfnun vöruverðs er aðeins einn áfangi á þeirri leið. Ég vil í því sambandi nefna jöfnun húshitunarkostnaðar og raforku sem ekki eru síður brýn mál. Það er ósk mín og von að þm. taki þessu máli vel og ég vona að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar afgreiði það á fljótan og farsælan hátt.

Legg ég svo til að málinu verði vísað til atvmn.