18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

283. mál, eftirlit með matvælum

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar, þ.e. þetta frv. til l. um eftirlit með matvælum. Í grg. með þessu frv. er raunar vikið að aðdraganda þessa máls, þ.e. þess að það þótti nauðsynlegt að setja nánari ákvæði í lög um það hvað er átt við þegar neysluvara er höfð á boðstólum. Það má segja að þetta litla frv. sé fyrst og fremst flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir réttaróvissu. Í grg. stendur, með leyfi virðulegs forseta, um aðdragandann:

„Fyrir nokkru kærði heilbrigðiseftirlit Reykjavíkursvæðis til ríkissaksóknara dreifingaraðila, sem taldi ákveðna vöru ekki til sölu á dreifingarstað og hélt því fram að það væri heilbrigðiseftirlitsins að sanna að hún væri til sölu. Ríkissaksóknari taldi ekki lagalega forsendu til aðgerða, þar sem áðurnefnd reglugerðarákvæði ættu sér ekki lagastoð og þegar sönnunarbyrði væri snúið við á þennan hátt þyrfti til ótvíræða lagaheimild.“

Hæstv. heilbr.- og trmrh. skýrði þessi mál mjög nákvæmlega, ef ég man rétt, í framsögu fyrir þessu máli þannig að ég tel ekki þörf á því að ég sem nefndarformaður bæti þar fleiru við.

Eins og fram kemur í nál. kom Örn Bjarnason forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins á fund nefndarinnar og veitti henni ágætar upplýsingar, m.a. þær sem hugsanlega hafa komið fram áður, hugsanlega við 1. umr., ég man það ekki, að þetta væri í fyrsta skipti sem slíkt mál bæri á góma. Áður, þegar fundist hefur óskoðað kjöt við svipaðar aðstæður, enda óstimplað, hefðu þeir, sem slík matvæli hefðu haft með höndum, aldrei neitað upptöku varningsins. Þetta væri í fyrsta skipti. Þetta atvik leiddi til þess að þetta frv. var flutt.

Heilbr.- og trn. leggur til að frv. verði samþykkt.