19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þegar þessari umr. var frestað á síðasta fundi var mörgu ósvarað. Þá var hins vegar ekki fallinn sá dómur í Kjaradómi sem nú liggur fyrir, en skv. honum er allt í fullkominni óvissu um það hver verða kjör kennara, hvaða aðstaða verður þeim búin. Nú er það raunverulega í hendi ríkisstj. miklu frekar en í umr. hér um daginn, eins og mál lágu þá fyrir, að ákvarða hver verða launakjör kennarastéttarinnar. Hæstv. menntmrh. svaraði því til aðspurður í dagblaði nú fyrir skemmstu að hann hefði ekki hitt hæstv. fjmrh. að máli til þess að bera sig saman við hann, en ég vænti þess að hæstv. ráðh. hafi nú borið sig saman um þessi mál og séu reiðubúnir að svara til um það hvernig þeir hyggjast standa að þeim sérkjarasamningum sem nú standa yfir við kennara.

Hæstv. menntmrh. vísaði í umr. um daginn til nefndarstarfa varðandi tvö atriði, varðandi starfsmat fyrir kennara og varðandi lögverndun á starfsheiti kennara. Þessi tvö atriði hafa verið til meðferðar í menntmrn. um lengri tíma, mánuðum saman, og ég spyr hér enn og aftur um niðurstöður af þessu starfi: Hvað dvelur það frv. sem hæstv. menntmrh. boðaði á haustdögum að koma mundi mjög fljótlega fyrir þingið varðandi lögverndun á starfsheiti kennara? Og hvað líður niðurstöðum varðandi starfsmat kennarastéttarinnar og hvers mega kennarar vænta í því sambandi?

Sú óvissa sem málefni kennarastéttarinnar hafa verið í að undanförnu, sú hraklega þróun sem orðið hefur á kjörum þeirra með tilliti til launaþróunar á almennum markaði hefur þegar valdið ómældu tjóni í skólastarfinu. Það eru síðustu forvöð fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að bæta úr því ástandi sem skapast hefur. Á því eiga kennarar kröfu og á því eiga þeir kröfu sem hafa börn sín í skólum landsins. Ég vænti þess að hér fáist af hálfu bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. skýr svör um það hvers vænta má í þessum efnum.