19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þessi umr. fer að verða hinu háa Alþingi lítt til sóma. Það verð ég að segja. Hér blasir við að framhaldsskólum landsins verði að loka vegna þess að kennarar lifa ekki af launum sínum. Menn sitja hér svo og gantast með þau mál. Þetta er ekkert einkamál kennara landsins. Þetta er ekki síður mál okkar foreldra sem eiga börn í þessum skólum. Og við skyldum ætla að hið háa Alþingi ætti að sjá um mennt og menningu í landinu.

Það er afskaplega erfitt að ætla hæstv. ríkisstj. að hún taki þessi mál sérdeilis alvarlega. Alþb. er borið það á brýn að hér sé einungis um skæting að ræða og það verði því til mestrar gleði ef þessi sorglega deila ekki leysist. Það kemur jafnframt fram að hvorki menntmrh. hæstv.hæstv. fjmrh. hafa lagt á sig að lesa grg. varnaraðila í kjaradómsmáli launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM gegn fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Hér er vitnað í embættismann í fjmrn. og það hefur komið fram bæði í sjónvarpi og hér að hæstv. fjmrh. hafði ekki hugmynd um hvað stóð í þessu plaggi og svo er að heyra af umr. hér að hæstv. menntmrh. viti það ekki heldur. Auðvitað eru röksemdir hér svo langt undir öllu velsæmi og hárréttar þær ábendingar sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur borið hér fram. Önnur röksemd um að ósambærilegt sé að bera saman einkasektorinn í launamálum og hinn opinbera er ekki betri, en hún er sú að það sé raunar miklu meiri launamunur í einkakerfinu, menn séu þar mjög mishátt settir. Þar komist menn til hárra launa án þess að þurfa að leggja á sig önnur eins ósköp eins og að læra eitthvað og kunna eitthvað og geta eitthvað. Þess vegna sé þetta ekki sambærilegt. Það er nánast stunið yfir því að fólk sem hefur sambærilega menntun hafi sambærileg laun. Þetta er auðvitað ósæmileg málfærsla, sem ráðh. bera algjörlega ábyrgð á en ekki embættismenn rn., því að gert er ráð fyrir að ráðh. lesi þau gögn sem frá rn. fara.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr. mjög lengi. Hún er sorglegri en tárum taki. Um þetta mætti ræða heilan dag vegna þess að auðvitað eru launamál þjóðarinnar í algjörum ólestri. Hér er um það að ræða að sjötta tekjuhæsta þjóð í veröldinni er orðin svo bágstödd og búin að koma fjármunum sínum svo illa fyrir að það fólk sem vinnur þýðingarmestu störf þjóðfélagsins getur ekki lengur lifað af launum sínum. Þetta er vandamál sem Alþingi ætti að hafa næst á dagskrá að leysa. (Forseti hringir.) Það er ósæmilegt að ráðh. þjóðarinnar komi svo hér og væni heilan stjórnmálaflokk um óvöndugheit vegna þess að áhyggjur eru hafðar af máli eins og þessu.